Fréttir - 

19. Mars 2019

Eyjólfur Árni gefur áfram kost á sér

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Eyjólfur Árni gefur áfram kost á sér

Eyjólfur Árni Rafnsson gefur áfram kost á sér sem formaður Samtaka atvinnulífsins en hann tók við formennsku árið 2017. Rafræn kosning fyrir starfsárið 2019-2020 hefst í vikunni meðal aðildarfyrirtækja SA.

Eyjólfur Árni Rafnsson gefur áfram kost á sér sem formaður Samtaka atvinnulífsins en hann tók við formennsku árið 2017. Rafræn kosning fyrir starfsárið 2019-2020 hefst í vikunni meðal aðildarfyrirtækja SA.

„Þann  tíma sem ég hef sinnt formennsku í Samtökum atvinnulífsins hefur veruleg vinna farið fram milli aðila vinnumarkaðarins um leiðir til að skapa atvinnulífinu fyrirsjáanleg og góð starfsskilyrði. Það er forsenda þess að hægt sé að leggja grunn að enn betri lífskjörum landsmanna til framtíðar. Vaxandi órói á vinnumarkaði og verkfallsátök geta hins vegar orðið til þess að það þrengi að heimilum og fyrirtækjum næstu misserin. Það vill enginn. Aðstæður í efnahagslífinu hafa gjörbreyst á innan við ári og eru mjög viðkvæmar. Með réttum ákvörðunum má halda áfram að bæta lífskjör fólks og hag fyrirtækja.“

Eyjólfur Árni er húsasmiður að mennt og lauk síðar doktorsnámi í byggingarverkfræði. Hann hefur áratuga reynslu af stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi en frá árinu 2016 hefur hann sinnt ýmsum ráðgjafa- og stjórnunarstörfum. Eyjólfur Árni hefur setið í stjórn SA frá árinu 2014 og í framkvæmdastjórn SA frá 2016.

Tilkynnt verður um kjörið á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fer á Grand Hótel Reykjavík þiðrjudaginn 9. apríl. 

Ársfundur atvinnulífsins 2019, sem haldinn hefur verið í kjölfar aðalfundar, verður haldinn fimmtudaginn 17. október kl. 14-16 í Hörpu en þá verða liðin 20 ár frá stofnun Samtaka atvinnulífsins.

Tengt efni:

Formannskjör SA - upplýsingasíða

Samtök atvinnulífsins