Eyjólfur Árni endurkjörinn formaður SA í dag

Eyjólfur Árni Rafnsson, var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kjörið á aðalfundi SA fyrr í dag og hlaut Eyjólfur Árni 96,73% greiddra atkvæða og var þátttaka góð. Eyjólfur Árni ávarpaði fundinn og fjallaði m.a. um kórónakreppuna og mikilvægi þess að ná íslensku atvinnu- og efnahagslífi af stað á ný.

„Skjótt skipast veður í lofti. Frá því að Lífskjarasamningurinn var gerður á síðasta ári, sem hafði einkum það markmið að hækka laun þeirra tekjulægri, tryggja sveigjanleika svo unnt væri að stytta vinnuvikuna með upptöku virks vinnutíma, leggja grunn að lægri sköttum og skapa jarðveg fyrir lægri vexti, hafa aðstæður í efnahagslífinu umturnast. Enginn gat séð fyrir víðtæk áhrif kórónuveirunnar sem hefur meira eða minna lamað efnahagskerfi heimsins á skömmum tíma. Viðbúið er að langur tími líði áður en alþjóðaviðskipti með vörur og þjónustu nái fyrra umfangi eftir þetta áfall," sagði Eyjólfur í ávarpi sínu.

„Íslendingar, líkt og fleiri, búa nú við takmarkanir á samskiptum og aðstæður sem enginn núlifandi einstaklingur hefur áður upplifað. Gríðarlegur samdráttur í verðmætasköpun og útflutningi samfélagsins er fyrirsjáanlegur á þessu áru. Auk algjörs hruns í ferðaþjónustu hafa fyrirtæki í mörgum öðrum atvinnugreinum orðið fyrir búsifjum, bæði fyrirtæki í útflutningsgreinum og fyrirtæki sem einungis starfa á innanlandsmarkaði."

Hann sagði mikilvægasta verkefnið framundan að ná íslensku atvinnu- og efnahagslífi af stað á ný. „Í þeirri baráttu erum við öll á sama báti, enda eru öflugt atvinnulíf og útflutningur undirstaða velferðarsamfélags okkar. Efnahagsaðgerðum stjórnvalda er ætlað að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa í framhaldinu öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið.

Samtök atvinnulífsins styðja aðgerðir stjórnvalda eindregið. Verkefnið er að fyrirtæki landsins og starfsfólk þeirra geti komist í gegnum niðursveifluna þannig að tjónið verði ekki langvarandi og óbætanlegt. Sterk fyrirtæki og öflugt atvinnulíf eru forsenda þess að þjóðin geti sem fyrst endurheimt lífskjör sem lagður var grunnur að með kjarasamningunum á síðasta ári.

Þrátt fyrir dökkt útlit er jákvætt að vextir á lánum til fólks og fyrirtækja eru lægri en nokkru sinni fyrr. Engu að síður þurfa vextir að lækka enn frekar til að ýta fjármunum úr ríkisbréfum yfir í arðbærar fjárfestingar í atvinnulífinu. Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi látið undan síga á undanförnum mánuðum eru ekki teikn um að það leiði til aukinnar verðbólgu til skamms tíma sem virðist ætla að haldast innan markmiða Seðlabanka Íslands."

Eyjólfur Árni sagði það blasa við að fyrirtæki landsins muni eiga erfitt með að standa undir launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum og að fylgja þeim eftir muni við núverandi aðstæður einungis leiða til meira atvinnuleysis en ella. „Því miður er engin samstaða um það í verkalýðsforystunni að taka mið af aðstæðum, sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu okkar, né ríkir samstaða um að finna leiðir til að tryggja sem best atvinnu fólks og hag fyrirtækjanna sem greiða laun þess. Tjón þeirrar sundrungar er þegar orðið mikið og mun fara vaxandi. Fyrir því verður launafólk fyrst og fremst.

Svo virðist sem tekist hafi að ná fullri stjórn á útbreiðslu veirunnar hér á landi og að hægt verði smám saman að létta af takmörkunum sem hafa gilt. Hafa þarf að leiðarljósi mikilvægi þess fyrir heilsu og hag fólks að lífið komist sem fyrst í eðlilegt horf þótt einstaklingar séu hvattir til þess að gæta að eðlilegum sóttvörnum."

Hann sagði að fyrir Samtök atvinnulífsins sé viðburðaríkt starfsár að baki. „Samtökin fögnuðu 20 ára afmæli síðastliðið haust og var sögu þeirra gerð góð skil í bókinni Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings sem kom út af því tilefni og Guðmundur Magnússon skráði. Framundan eru stærri verkefni en við höfum tekist á við á undanförnum árum og áratugum en það er í okkar höndum að saga þessa tímabils reynist á endanum farsæl."

Stjórn Samtaka atvinnulífsins fyrir næsta starfsár var einnig kosin á fundinum:

Fulltrúi Samorku er:

Gestur Pétursson, Veitur ohf.

Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar eru 4 og þeir eru:

Bjarnheiður Hallsdóttir, Katla DMI ehf.

Bogi Nils Bogason, Icelandair ehf.

Davíð Torfi Ólafsson , Íslandshótel hf.

Helga Árnadóttir, Bláa lónið hf.

Fulltrúar Samtaka verslunar og þjónustu eru 4 og þau eru:

Eggert Þór Kristófersson, Festi hf.

Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.

Gunnar Egill Sigurðsson,Samkaup hf.

Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf.

Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru 3 og þeir eru:

Jens Garðar Helgason, Laxar Fiskeldi ehf.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Ægir Páll Friðbertsson, Brim hf.

Fulltrúar Samtaka fjármálafyrirtækja eru 2 og þau eru:

Helgi Bjarnason, Vátryggingafélag Íslands hf.

Lilja Björk Einarsdóttir, Landsbankinn hf.

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins eru 6 og þau eru:

Arna Arnardóttir, Samtök iðnaðarins

Árni Sigurjónsson, Marel hf.

Hjörleifur Stefánsson, Nesraf ehf.

Rannveig Rist, Rio Tinto á Íslandi hf.

Sigurður R. Ragnarsson, Íslenskir aðalverktakar hf.

Valgerður Hrund Skúladóttir, Sensa ehf.

Þeir sem ganga úr stjórninni eru;

Hörður Arnarson, Landsvirkjun

Birna Einarsdóttir, Íslandsbanki hf.

Sigurður Viðarsson, Tryggingamiðstöðin hf.

Guðrún Hafsteinsdóttir, Kjörís ehf.

Margrét Sanders, Strategía ehf.

Elín Hjálmsdóttir, Eimskip Ísland hf.

Nýir í stjórn samtakanna eru:

Gestur Pétursson, Veitur ohf

Lilja Björk Einarsdóttir, Landsbankinn hf.

Helgi Bjarnason, Vátryggingafélag Íslands hf.

Arna Arnardóttir, Samtök iðnaðarins

Eggert Þór Kristófersson, Festi hf.

Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.