Eyjólfur Árni endurkjörinn formaður SA

Eyjólfur Árni Rafnsson, var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kjörið á aðalfundi SA fyrr í dag og hlaut Eyjólfur Árni 96,5% greiddra atkvæða og var þátttaka góð. Eyjólfur Árni ávarpaði fundinn og fjallaði m.a. um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og horfurnar framundan.

„Vinna við gerð kjarasamninga hófst með því að við skrifuðum forystufólki verkalýðsfélaganna bréf þann 1. október síðastliðinn þar sem lýst var helstu áherslum samtakanna vegna komandi kjaraviðræðna. Leiðarljósið yrði að vera að standa vörð um samkeppnishæfni fyrirtækjanna og þann stöðugleika sem áunnist hafði og felst í lágri verðbólgu og hóflegum vöxtum. Auk þess lögðum við áherslu á aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði með það að markmiði að draga úr yfirvinnu og stefna að því að skipulag vinnunnar yrði fjölskylduvænna sem gæti orðið til að draga enn frekar úr launamun kynjanna.

Hagsmunir fyrirtækja eru samofnir hagsmunum fólksins sem hjá þeim starfar. Traust fólks til eigin vinnuveitenda er með því allra mesta sem mælist. Það er okkar stöðuga verkefni að viðhalda þessu trausti, að ávinna traust er langtíma verkefni sem getur tekið örstund að glata.

Þessi stefna var mótuð meðal annars eftir fundaferð okkar um land allt sem hófst í september í fyrra en ekki síður samtölum okkar við félaga okkar í fundarferð haustið áður árið 2017. Þarna gafst okkur tækifæri til að hitta forystufólk fyrirtækja sem flest lögðu áherslu á að launahækkanir í komandi samningum þyrftu heilt yfir að vera í samræmi við framleiðniaukningu í atvinnulífinu og þyrftu jafnframt að mið af því að mjög væri að hægjast um í hagkerfinu eftir fordæmalausa uppsveiflu undanfarinna ára. Miklar áhyggjur komu fram á fundunum vegna herskárra yfirlýsinga forystumanna í nokkrum stéttarfélögum.

Eftir því sem samningaviðræðum vatt fram jukust jafnt og þétt áhyggjur margra vegna hugsanlegs samdráttar í efnahagslífinu. Bæði var að loðnuveiði brast alveg, mikill samdráttur verður í humarveiðum en ekki síst var greinilegt að staðan í ferðaþjónustunni var brothættari en  almennt hafði verið gert ráð fyrir.

Verkföll voru hafin og fleiri í undirbúningi þegar samningar tókust fyrir sex dögum. Samningarnir eru óvenjulegir og launabreytingar á fjögurra ára tímabili 2019 – 2022 verða einungis með krónutöluhækkunum þar sem launataxtar hækka meira en almenn laun. Ein nýung er að í samningunum er kveðið á um að frekari launahækkanir verði eftir því sem árlegur hagvöxtur á mann verður meiri.

Það er mikils virði að tekist hefur að semja til langs tíma og tryggja stöðugt efnahagsumhverfi.

Það er margt sem sýnir hve viðkvæm staðan er víða í atvinnulífinu. Gjaldþrot WOW og hópuppsagnir hafa verið áberandi í fréttum undanfarna daga. Vísitala efnahagslífsins er lægri nú en í mörg undanfarin ár - bæði þegar tekið er mið af stöðunni nú og hvernig búist er við að hún verði eftir sex mánuði en vísitalan tekur mið af mati stjórnenda fyrirtækja um stöðu og horfur í rekstrinum. Einnig kemur fram að mun fleiri stjórnendur búast við minni fjárfestingum á næstunni en að jafnaði. En nú geta stjórnendur fyrirtækja tekið mið af því að með kjarasamningunum hefur dregið mjög úr óvissu um þróun efnahagsmála næstu ára og miðað sínar áætlanir við það.

Vissulega er ljóst að launabreytingarnar koma misjafnlega við atvinnugreinar og þar með fyrirtækin og sum þeirra munu þurfa að grípa til ýmissa hagræðinga og aðgerða í sínum rekstri til að mæta þeim.

Það er líka ljóst að fyrirtækin þurfa að gæta mjög hófs um launabreytingar utan samninga því launaskrið mun leiða til hækkunar með svokallaðri launaþróunartryggingu sem kveðið er á um í samningunum.

Það er því afar mikilvægt að í efri tekjuhópum fyrirtækjanna verði ekki farið fram úr þeim krónutöluhækkunum sem um hefur samist.

Við hefðum gjarnan viljað komast lengra með breytingar á vinnutímaákvæðum þar sem breytt yrði skilgreiningu á dagvinnutíma og sveigjanleiki fyrirtækjanna aukinn enn frekar. Það náðist ekki í þessari lotu en verkefnið fer ekkert frá okkur. Þó tókst að semja um að unnt verður að taka upp viðræður í fyrirtækjunum sjálfum um skipulag vinnunnar og víkja frá ákvæðum um neysluhlé sem hafa verið njörvuð í samninga um langa hríð. Auðvelt er að sjá fyrir sér að þessi ákvæði geti nýst bæði fyrirtækjunum sem fá aukna samfellu í sína vinnu og ekki síður starfsmönnunum sem geta stytt vinnudaginn og nýtt þessa styttingu á ýmsan máta.“

Formaður SA greindi frá því að framundan væru kynningarfundir SA um nýja kjarasamninga víða um landið og verða þeir kynntir í vikunni. Í kjölfarið fer fram atkvæðagreiðsla um samningana meðal aðildarfyrirtækja SA.

Eyjólfur Árni vakti ennfremur athygli á því að Ársfundur atvinnulífsins sem er öllum opinn og hefur verið haldinn í kjölfar aðalfundar, verður að þessu sinni haldinn fimmtudaginn 17. október kl. 14-16 í Hörpu. Þá verða liðin 20 ár frá stofnun Samtaka atvinnulífsins. Því er vissara að taka daginn frá og færa fundinn í dagbókina.

Formaður SA endaði mál sitt á því að ræða um traust.

„Samtök atvinnulífisins eru heildarsamtök íslenskra atvinnurekenda og vilja stuðla að samkeppnishæfum rekstrarskilyrðum fyrirtækja og efnahagslífsins í heild. Hagsmunir fyrirtækjanna eru samofnir hagsmunum fólksins sem hjá þeim starfar. Aftur og aftur hefur komið fram í könnunum að traust fólks til eigin vinnuveitenda er með því allra mesta sem mælist í sambærilegum mælingum. Það er okkar stöðuga verkefni að viðhalda þessu trausti, að ávinna traust er langtíma verkefni sem getur tekið örstund að glata.“