Efnahagsmál - 

27. mars 2009

Evrópskt atvinnulíf kallar eftir fjármagni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Evrópskt atvinnulíf kallar eftir fjármagni

Vegna þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum eiga fyrirtæki í Evrópu æ erfiðara með að fjármagna rekstur sinn. Evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, kynntu fyrir stundu tillögur að aðgerðum sem er ætlað að bregðast við þessum vanda. Tillögurnar eru settar saman af fjölbreyttum hópi sérfræðinga en vinnu hópsins stýrði Jean-Paul Betbèze, yfirhagfræðingur Crédit Agricole. Hann segir að grípa þurfi til óhefðbundinna meðala við óhefðbundnar aðstæður.

Vegna þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum eiga fyrirtæki í Evrópu æ erfiðara með að fjármagna rekstur sinn. Evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, kynntu fyrir stundu tillögur að aðgerðum sem er ætlað að bregðast við þessum vanda. Tillögurnar eru settar saman af fjölbreyttum hópi sérfræðinga en vinnu hópsins stýrði Jean-Paul Betbèze, yfirhagfræðingur Crédit Agricole. Hann segir að grípa þurfi til óhefðbundinna meðala við óhefðbundnar aðstæður.

Þrátt fyrir að háum fjárhæðum hafi verið veitt í fjármálakerfi ríkja Evrópu og seðlabanka þeirra koma æ fleiri fyrirtæki að lokuðum dyrum þegar kemur að lánafyrirgreiðslu. Jafnvel stór og vel rekin fyrirtæki eiga í erfiðleikum með að tryggja sér fjármagn en einnig lítil og meðalstór fyrirtæki. Verði ekkert að gert munu fyrirtækin draga úr umsvifum sínum, störfum mun fækka og kreppan vara lengur.

Jean-Paul Betbèze segir stjórnvöld í Evrópu hafa gert margt gott en viðbrögð þeirra hafi ekki verið nægilega markviss. Nú sé rétti tíminn til að taka næstu skref og koma í veg fyrir að kreppan dýpki enn frekar. Hægt sé að koma fjármálakerfi Evrópu í gang á nýjan leik þannig að það verði sjálfbært og veiti atvinnulífinu nauðsynlega þjónustu á viðráðanlegum kjörum.

Starfshópurinn telur að ESB og ríkisstjórnir einstakra ríkja verði að vinna betur saman að því að styðja við bakið á fjármálastofnunum í erfiðleikum, þó með þeim hætti að ekki verði komið í veg fyrir að  nauðsynleg endurskipulagning í bankastarfsemi eigi sér stað við markaðsaðstæður. Í tillögunum er m.a. kveðið á um að seðlabankar ríkja Evrópu og Evrópski seðlabankinn kaupi skammtímaskuldabréf fyrirtækja. Ríkisstjórnir og Evrópski fjárfestingarbankinn bjóði í auknum mæli ábyrgðir til dreifingar á áhættu og minnki þannig hömlur á fjármögnun á markaðnum. Áhersla er lögð á að hið opinbera greiði reikninga sína fyrr en áður og sýni aðhald í ríkisfjármálum. Einnig að ríkisstjórnir, framkvæmdastjórn ESB, seðlabankar og eftirlitsaðilar grípi til aðgerða til að endurvekja markaði með skuldaafleiður.

Philippe de Buck, framkvæmdarstjóri BUSINESSEUROPE, fagnar tillögum starfshópsins og segir það grundvallaratriði að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til að vinna bug á efnahagssamdrættinum.

Sjá nánar:

Upplýsingar og skýrsla starfshópsins á vef BUSINESSEUROPE

Samtök atvinnulífsins