23. maí 2025

Evrópskt atvinnulíf krefst samstöðu og markvissra aðgerða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Evrópskt atvinnulíf krefst samstöðu og markvissra aðgerða

Forsvarsmenn Evrópusamtaka atvinnulífsins, BusinessEurope, komu saman í Kaupmannahöfn í dag, en fundurinn var haldinn í samstarfi við dönsku samtökin DA (Dansk Arbejdsgiverforening) og DI (Dansk Industri). Jón Ólafur Halldórsson, formaður SA, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri, og Heiðrún Björk Gísladóttir, alþjóðafulltrúi, voru á fundinum fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins.

„Fundurinn undirstrikar sameiginlega ábyrgð okkar í Evrópu,“ segir Jón Ólafur. „Við hjá SA styðjum kröftugar aðgerðir til að efla samkeppnishæfni, draga úr flækjustigi og skapa tækifæri fyrir græn og sjálfbær umskipti í atvinnulífinu.“

Ástæða fundarins er að Danmörk tekur við formennsku í ráðherraráði ESB í byrjun júlí. Á fundinum voru lykiláherslur evrópsks atvinnulífs lagðar fyrir Morten Bødskov, iðnaðar-, viðskipta- og fjármálaráðherra Dana, auk þess sem þátttakendur funduðu með Dan Jørgensen, framkvæmdastjóra orku- og húsnæðismála hjá ESB. Þá tóku konungshjónin Friðrik tíundi og Mary drottning á móti fulltrúum fundarins.

Evrópa stendur frammi fyrir sögulegum áskorunum

Fredrik Persson, forseti BusinessEurope, undirstrikaði að sterkt atvinnulíf og samkeppnishæft efnahagsumhverfi væri forsenda þess að Evrópa geti tekist á við þær áskoranir sem steðja að á sviði alþjóðamála og samfélagsmála.

„ESB verður að hrinda í framkvæmd nýrri stefnu um innri markaðinn, grípa til frekari aðgerða til að lækka orkukostnað og einfalda regluverk á raunhæfan hátt,“ sagði Persson. „Við verðum að ráðast að rótum samkeppnishallans og efla alþjóðaviðskipti – ekki síst með skjótri staðfestingu á viðskiptasamningum við Mercosur [Mercado Común del Sur, tollabandalag ríkja í Suður-Ameríku] og Mexíkó. Um leið verður ESB að gæta hagsmuna sinna gagnvart Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir skaðlegar tolladeilur. Nýlegur leiðtogafundur ESB og Bretlands gefur von um styrkara samstarf og efnahagslega velferð.“

Persson bætti við að BusinessEurope treysti því að komandi formennska Dana í ráðherraráði ESB stuðlaði að nauðsynlegri samstöðu til að bregðast við þeim sögulegu áskorunum sem Evrópa stendur frammi fyrir.

Áhersla á samráð og samkeppnishæfni

Jacob Holbraad, framkvæmdastjóri DA, sagði að aukin samkeppnishæfni byggðist á menntuðu starfsfólki, minna íþyngjandi regluverki og virðingu fyrir vinnumarkaðslíkönum þjóða.

„Það gleður okkur að Danir hyggist á formennskutíð sinni setja félagslegan samráðsvettvang í forgang – ekki aðeins í orði, heldur sem raunverulegt tæki til atvinnusköpunar, stöðugleika og sjálfbærs vaxtar,“ sagði Holbraad.

„Evrópskt atvinnulíf stendur sameinað og tilbúið til að leiða þessar umbreytingar“

Lars Sandahl Sørensen, forstjóri DI, lagði áherslu á að Evrópa stæði frammi fyrir alvarlegri kreppu.

„Við getum ekki lengur tekið efnahagslegri velferð og samkeppnishæfni sem gefnum hlut,“ sagði Sørensen. „En í mótlæti felast einnig tækifæri – við verðum að brjóta niður hindranir innan Evrópu, draga úr skriffinnsku og fjárfesta kröftuglega í varnarmálum, nýsköpun og grænum umskiptum. Eftir að hafa hitt kollega mína víðsvegar að úr Evrópu hér í Kaupmannahöfn, er ég sannfærður um að evrópskt atvinnulíf stendur sameinað og tilbúið til að leiða þessar umbreytingar.“

Hér er hægt að lesa yfirlýsingu fundarins í heild sinni í svokallaðri Kaupmannahafnaryfirlýsingu frá fundi formanna aðildarsamtaka BusinessEurope.

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SA, Fredrik Persson, forseti BusinessEurope, og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SA, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Samtök atvinnulífsins