ESB virði hefðir aðildarríkjanna

Aðilar vinnumarkaðarins í Danmörku leggja í sameiningu áherslu á mikilvægi þess að ESB virði hefðir hvers aðildarríkis á vinnumarkaði og vilja sjá einföldun á Evrópusamstarfinu, en Danir fara nú með formennsku í ESB. Þá skuli ESB leggja áherslu á samkeppnishæfni.

Á vettvangi Evrópusambandsins fer nú fram vinna að framtíðarskipan sambandsins og er talað um framtíðarráðstefnu ESB (European Convention) í því sambandi. Danir eru með formennsku í ráðherraráði ESB síðari hluta árs 2002 en á dögunum sendu dönsku aðilar vinnumarkaðarins frá sér sameiginlegar áherslur varðandi framtíðarskipan vinnumarkaðsmála innan ESB.

Samtökin leggja megináherslu á mikilvægi þess að ESB virði hefðir hvers aðildarríkis á vinnumarkaði og vilja sjá einföldun á Evrópusamstarfinu. Hin svokallaða nálægðarregla skuli höfð í heiðri, en í mesta lagi samið um lágmarksviðmiðanir á Evrópuvettvangi. Þá vilja samtökin að þá samninga sem gera eigi um vinnumarkaðsmál á Evrópuvettvangi megi áfram gera af hálfu Evrópusamtaka aðila vinnumarkaðarins, án aðkomu stjórnmálamanna. Loks leggja samtökin áherslu á að ESB haldi sig við svonefnd "Lissabon-markmið" um að gera sambandið að samkeppnishæfasta hagkerfi veraldar.

Sjá sameiginlegar áherslur aðila vinnumarkaðarins í Danmörku á heimasíðu dönsku samtaka atvinnulífsins.