ESB hafnar erindi SVÞ
Evrópusambandið hafnar því að viðbrögð þess við tollum Bandaríkjamanna á innflutt stál sé brot á EES samningnum. SVÞ beittu Evrópusamtökum verslunarinnar, EuroCommerce, fyrir sig til að taka málið upp við Pascal Lamy hjá framkvæmdastjórn ESB, segir í fréttatilkynningu frá SVÞ.
Erindi EuroCommerce
Í júlí sl. óskuðu SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og
systursamtök þeirra í Noregi, Handels- og Servicenæringens
Hovedorganisasjon (HSH), eftir því við Evrópusamtök verslunarinnar,
EuroCommerce, að þau beittu sér í því að mótæla brotum ESB á EES
samningnum, einkum 10.gr., vegna viðbragða sambandsins í hinni
svokölluðu stáldeilu við Bandaríkin sem bitnaði óréttilega á
Íslandi og Noregi. Af hálfu beggja samtakanna var fyrst og
fremst um að ræða grundvallaratriði fremur en beint
fjárhagstjón.
Í samræmi við EES-samninginn að mati ESB
EuroCommerce brást skjótt við og sendi Pascal Lamy hjá
framkvæmdastjórn ESB bréf þar sem vakin var athygli á þessum
sjónarmiðum SVÞ og HSH og óskað eftir úrbótum. Í svarbréfi áréttar
Lamy að ESB taki skuldbindingar sínar vegna EES samningsins
alvarlega og lögð er áhersla á það mat framkvæmdastjórnarinnar að
aðgerðir hennar séu í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar
ESB, bæði samkvæmt WTO samningnum og EES samningnum. Jafnframt
kemur fram að þótt ákvörðun hafi ekki verið tekin um ákveðnar
aðgerðir varðandi þær vörur sem eru á lista til skoðunar vegna
verndartolla þá liggi fyrir tillaga um ákveðnar aðgerðir vegna sjö
þeirra vörutegunda. Að lokum er áréttað að allar gerðir ESB
muni vera í samræmi við skuldbindingar sambandsins á
alþjóðavettvangi, þ.á m. EES samninginn.
SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu telja að þrátt fyrir þessi
viðbrögð sé ávinningur að því að koma sjónarmiðum samtakanna og
íslenskra stjórnvalda á framfæri með þessum hætti og hvetja önnur
samtök til að nota aðild sína að fjölþjóðasamtökum á þennan hátt,
segir í fréttatilkynningu SVÞ.