ESB: hærra hlutfall kvenna á vinnumarkaði

Hlutfall kvenna á vinnumarkaði innan ESB jókst að meðaltali úr um 50% árið 1995 í um 54% árið 2000. Á sama tíma jókst hlutfall karla úr um 70% í rúmlega 72% og því hefur "bilið" milli karla og kvenna minnkað um 2 prósentustig. Þetta kemur fram í fréttabréfi dönsku samtaka atvinnulífsins, þar sem bent er á að konur hljóti sex af hverjum tíu nýjum störfum innan ESB. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði er þó mjög misjafnt innan sambandsins og lang lægst syðst í álfunni, t.d. í Grikklandi og á Spáni þar sem einungis um 40% kvenna eru á vinnumarkaði. Hlutfallið er hins vegar hæst í  Svíþjóð og Danmörku, um 72%. Hlutfall karla á vinnumarkaði er líka mishátt, en hæst er það í Hollandi eða um 85%.

Athyglisvert er að bera þessar tölur saman við Ísland. Tölurnar frá ESB ná til fólks á aldrinum 15 til 64 ára, en í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands er að finna tölur yfir aldurshópinn 16 til 74 ára. Þrátt fyrir þann mun mælist hlutfall Íslendinga á vinnumarkaði hærra en nokkurs staðar innan ESB og langtum hærrra en ESB-meðaltalið, eða 87,9% karla og 79% kvenna, og hefur hlutfall kvenna aukist um 1,1% frá árinu 1995 en hlutfall karla um 0,2%.