Vinnumarkaður - 

29. Ágúst 2002

ESB auki samráð við aðila vinnumarkaðarins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

ESB auki samráð við aðila vinnumarkaðarins

Í framhaldi af leiðtogafundi ESB sem haldinn var í Lissabon fyrir tveimur árum síðan hefur framkvæmdastjórn sambandsins sent skýrslu um samráð á vinnumarkaði til ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Í skýrslunni sem kom út í júní sl. er lögð áhersla á aukið samráð um félags- og atvinnumál á sem flestum stigum. Framkvæmdastjórnin undirstrikar hlutverk vinnumarkaðarins í endurbótum á efnahags- og atvinnulífi innan ESB. Talið er mikilvægt að treysta tengslin á milli aðgerða á Evrópuvettvangi og innan einstakra aðildarríkja auk þess að koma niðurstöðum samráðsins almennt betur á framfæri.

Í framhaldi af leiðtogafundi ESB sem haldinn var í Lissabon fyrir tveimur árum síðan hefur framkvæmdastjórn sambandsins sent skýrslu um samráð á vinnumarkaði til ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Í skýrslunni sem kom út í júní sl. er lögð áhersla á aukið samráð um félags- og atvinnumál á sem flestum stigum. Framkvæmdastjórnin undirstrikar hlutverk vinnumarkaðarins í endurbótum á efnahags- og atvinnulífi innan ESB. Talið er mikilvægt að treysta tengslin á milli aðgerða á Evrópuvettvangi og innan einstakra aðildarríkja auk þess að koma niðurstöðum samráðsins almennt betur á framfæri.

Samráð fyrir leiðtogafundi ESB
Framkvæmdastjórnin leggur til að fyrir vorfundi leiðtoga ESB (Lissabon ferillinn) verði haldinn sameiginlegur fundur forystumanna Evrópusamtaka atvinnulífsins og launþega með forsetum ráðherraráðsins og framkvæmda-stjórnarinnar. Slíkir fundir hafa þegar verið haldnir, en þess má geta að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eiga aðild að Evrópusamtökum atvinnulífsins (UNICE) og að ASÍ og BSRB eiga aðild að Evrópusamtökum launþega (ETUC).

Samráðið stefni að löggjöf
Framkvæmdastjórnin leggur að Evrópusamtökum atvinnulífsins og launþega að víkka út samráðið og láta það taka til fleiri málaflokka en hreinna vinnumarkaðsmála. Þá hvetur hún til frekara frumkvæðis með það fyrir augum að semja um fleiri þætti Evrópulöggjafar í samráðinu. Því er beint til Evrópusamtakanna að þau fjalli um jafnréttismál í breiðu samhengi, símenntun og starfsþjálfun, þróun vinnumarkaðarins til nútímalegri starfshátta og atvinnuþátttöku eldra fólks. Fram að þessu hefur einungis verið fjallað um þessa málaflokka í óformlegu samráði. Framkvæmdastjórnin er þess vegna að fara fram á að samráðið í þessum málaflokkum stefni að löggjöf eða bindandi samningum í framtíðinn.

Aðlögun nýrra aðildarríkja
Framkvæmdastjórnin telur aðila vinnumarkaðarins best fallna til þess að ná skynsamlegu jafnvægi á milli sveiganlegri vinnumarkaðar og traustra félagslegra réttinda. Að sama skapi er bent á mikilvægt hlutverk þessara aðila í nauðsynlegri aðlögun aðila vinnumarkaðarins í nýjum aðildarríkjum að skipulagi hins evrópska vinnumarkaðar. Leiðtogar ESB beindu því til Evrópusamtaka á vinnumarkaði að þau skiluðu sameiginlegu áliti á mögulegu og raunverulegu framlagi samráðsins á öllum stigum fyrir leiðtogafund í desember nk.


Sjá nánar á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB.

Samtök atvinnulífsins