Efnahagsmál - 

13. ágúst 2015

Eru neytendur að njóta ábata gengisstyrkingar?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Eru neytendur að njóta ábata gengisstyrkingar?

Íslendingar fylgjast jafnan vel með breytingum á gengi íslensku krónunnar. Það er eðlilegt enda hafa breytingar á gengi hennar veruleg áhrif á verðlagsþróun hér á landi þar sem um þriðjungur af neysluvörum okkar er innfluttur. Styrking krónu getur því að öðru jöfnu skilað heimilunum auknum kaupmætti en veiking að sama skapi rýrt kjör heimilanna. Eðlilega vakna því reglulega upp spurningar hversu mikið gengisstyrkingin skilar sér til neytenda segir m.a. í nýrri umfjöllun efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Íslendingar fylgjast jafnan vel með breytingum á gengi íslensku krónunnar. Það er eðlilegt enda hafa breytingar á gengi hennar veruleg áhrif á verðlagsþróun hér á landi þar sem um þriðjungur af neysluvörum okkar er innfluttur. Styrking krónu getur því að öðru jöfnu skilað heimilunum auknum kaupmætti en veiking að sama skapi rýrt kjör heimilanna. Eðlilega vakna því reglulega upp spurningar hversu mikið gengisstyrkingin skilar sér til neytenda segir m.a. í nýrri umfjöllun efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Frá árslokum 2013 hefur gengi krónunnar verið í nær samfelldum styrkingarfasa en þó með nokkrum sveiflum. Þannig hefur gengi krónunnar styrkst um ríflega 8% á þessu tímabili. Slík styrking getur verið veruleg búbót fyrir íslensk heimili þar sem innfluttar vörur ættu að öðru jöfnu að verða ódýrari í verði og skila sér þannig í auknum kaupmætti gagnvart erlendum vörum.

Í þessari umræðu dugir þó ekki að horfa eingöngu til gengisbreytinga og leggja að jöfnu við verðbreytingar innfluttra vara. Fjölmargir aðrir kostnaðarþættir koma hér við sögu. Verslunin ber eðli máls samkvæmt ýmsan innlendan kostnað svo sem launakostnað, húsnæðiskostnað og annan innlendan rekstrarkostnað. Þá hefur erlend verðbólga eðlilega áhrif á verðlag innfluttra vara. Þegar horft er til verðlagsþróunar innfluttra vara er því ekki nóg að horfa aðeins til gengisþróunar krónunnar gagnvart viðkomandi gjaldmiðli heldur ber ekki síður að líta til þróunar á innlendum kostnaðarliðum sem og verðlagi erlendis.

Það er ekki flókið að taka þessa þætti inn í mat á því hvort  gengisstyrking undangenginna missera  hafi skilað sér til neytenda eða ekki. Með einföldum hætti má setja saman verðvísitölu innfluttra vara sem tekur mið af gengisbreytingum, erlendri verðbólgu og innlendum kostnaðarbreytingum. Hér hefur slík verðvísitala verið sett saman þar sem horft er til kostnaðarhlutfalla smásölu- og heildsölufyrirtækja í ársreikningasafni Hagstofu Íslands.  Þar er kostnaðarverð seldra vara um 72% af rekstrartekjum, launakostnaður um 10% og annar rekstrarkostnaður um 18%. Gert er ráð fyrir að annar rekstrarkostnaður sé fyrst og fremst innlendur rekstrarkostnaður.

Myndin hér að neðan sýnir samanburð á annars vegar verðþróun innfluttra vara miðað við verðvísitölu Hagstofunnar og hins vegar verðþróun innfluttra vara miðað við ofangreinda reiknaða verðvísitölu.

Þegar reiknaða verðvísitalan er að hækka meira en sem nemur verðvísitölu Hagstofunnar þá eru vísbendingar þess efnis að álagning sé að minnka. Að sama skapi er álagningin að aukast ef reiknaða vísitalan er að hækka minna en sem nemur vísitölu Hagstofunnar.

Samanburðurinn hér að neðan nær frá ársbyrjun 2011 sem er um svipað leyti og hagkerfið tók að rísa á ný. Eins og sjá má er mikil fylgni milli hinnar reiknuðu verðvísitölu og vísitölu Hagstofunnar. Helst virðist sem á tímum mikillar gengisveikingar verði rof þar á milli, þ.e. að gengisveiking skili sér ekki nema að hluta inn í verðlag. Má að líkum leiða að við slíkar kringumstæður haldi kaupmenn að sér höndum til að sjá hvort um tímabundna sveiflu sé að ræða eða varanlega veikingu.

Sé horft á tímabilið í heild má sjá að samkvæmt Hagstofu Íslands hafa innfluttar vörur, án áhrifa áfengis og tóbaks, hækkað um 6,1% frá ársbyrjun 2011 til júní 2015 en á sama tíma hefur reiknuð verðvísitala innfluttra vara hækkað lítillega meira eða um 6,9%. Þessar niðurstöður sýna því að álagning hefur minnkað sem því nemur á þessu tímabili. Þá er rétt að hafa í huga að álagning á innfluttar vörur lækkaði verulega á árunum 2008 til 2010 samhliða mikilli veikingu íslensku krónunnar. Þeirri veikingu var því ekki velt nema að hluta til út í verðlagið.

undefined

Heimild: útreikningar SA, Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Ekki er heldur að sjá að álagningin hafi aukist á síðustu misserum. Ef horft er til þróunar frá ársbyrjun 2014, eða um það leyti sem gengisstyrkingin hófst, til dagsins í dag hefur reiknaða verðvísitalan lækkað álíka mikið og verðvísitala Hagstofunnar, m.ö.o. eru aðrir þættir sem skýra það hvers vegna innfluttar vörur hafa ekki lækkað meira en sem nemur gengisstyrkingu krónunnar. Í því samhengi má nefna að laun hafa hækkað um ríflega 10% frá ársbyrjun 2014.

undefined

undefined

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

Í ofangreindum útreikningum fyrir reiknaða verðvísitölu er tekið tillit til niðurfellingar vörugjalda sem áttu sér stað í janúar 2015. Efnahagssvið SA hefur áður bent á að vísbendingar eru þess efnis að niðurfelling vörugjalda hafi skilað sér til neytenda sjá hér.

Samtök atvinnulífsins