Erlent starfsfólk nauðsynlegt við stórframkvæmdir

Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða um málefni erlends starfsfólks, einkum vegna virkjanaframkvæmda á Austurlandi og hafa ýmis stór orð fallið í því samhengi. Reynt hefur verið að gera það tortryggilegt að aðalverktakinn sæki nú um atvinnuleyfi fyrir á annað hundrað starfsmenn frá Kína. Bent hefur verið á að yfir fjögur þúsund manns séu hér á atvinnuleysisskrá og sú tala sett fram í því samhengi að varla geti verið hér þörf fyrir allt þetta erlenda starfsfólk. Þá hefur því verið haldið fram að fyrirtækið sé að brjóta lög þegar það greiðir erlendu starfsfólki sínu samkvæmt íslenskum kjarasamningum, þar sem algengt sé að starfsfólk annarra fyrirtækja fái hærri laun en kveðið er á um í samningum. Þessa umræða hefur verið með ólíkindum á köflum.

Ónógt framboð á íslenskum vinnumarkaði

Heildarfjöldi þeirra einstaklinga sem skráðir eru atvinnulausir segir næsta lítið um framboð á vinnumarkaði til verklegra framkvæmda. Það er staðreynd að á atvinnuleysisskrá er ekki að finna iðnlærða byggingamenn, menn með réttindi á stórvirkar vinnuvélar eða vana byggingaverkamenn, þ.e. menn í þeim starfsgreinum sem nauðsynlega þarf til verka við virkjunarframkvæmdir. Vinnumálastofnun hefur ítrekað staðfest þetta og nú síðast í nýrri skýrslu þar sem fram kemur það mat stofnunarinnar að gefa þurfi út 1.800 atvinnuleyfi vegna yfirstandandi og fyrirhugaðra virkjana- og stóriðjuframkvæmda. Framboðið er einfaldlega ekki til staðar hér innanlands.

Forgangur EES borgara?

Þá hefur þess verið krafist að leitað sé í hópum atvinnulausra á Evrópska efnahagssvæðinu áður en farið sé út fyrir svæðið, þ.e. að laus störf séu auglýst í 26 ríkjum og ráða beri hæfa einstaklinga sem þar bjóða sig fram. Þessi krafa kemur hvergi fram í íslenskum lögum eða reglum og því frekar vafasamt að íslensk stjórnvöld, sem sérstaklega hafa unnið að framgangi þessa verks, setji nú ný skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfa, skilyrði sem ekki hafa verið höfð uppi þau ellefu ár sem Ísland hefur átt aðild að EES samningnum. Af hverju að herða reglurnar nú þegar virkilega reynir á mikilvægi þess að fá til landsins erlent starfsfólk?

Að ætla fyrirtæki að hópa saman fólki af tíu til tuttugu þjóðernum til að starfa náið saman við svona framkvæmd getur hreinlega verið stjórnunarlegur ómöguleiki. Þess vegna hefur aðalverktakinn við Kárahnjúka ráðið vel yfir eitt þúsund starfsmenn frá sama landinu, Portúgal, til verksins. Það bæði eykur skilvirkni og öryggi starfsmanna. Flestir Portúgalanna hafa hins vegar kosið að vinna ekki lengur en í fáa mánuði á íslenskum fjöllum og brottfall því verið mikið. Kínverskir starfsmenn fyrirtækisins, sem m.a. stjórna risaborunum þremur, hafa hins vegar reynst einstaklega vel að þess sögn enda valdir úr hópi þeirra Kínverja sem unnu fyrir verktakann við verkefni í Kína. Það kemur því ekki á óvart að fyrirtækið óski eftir að ráða fleiri kínverska starfsmenn sem þeir þekkja og treysta til að starfa til loka verksins. Við það má bæta að enginn grunur hefur komið fram um að kínverskir starfsmenn fái lægri laun en kveðið er á um í virkjunarsamningi.

Markmið um stöðugleika

Það er eðlilegt að þau fyrirtæki sem koma hingað til starfa í skamman tíma vegna afmarkaðra verkefna leitist við að ráða starfsfólk erlendis frá, séu kunnáttumenn ekki á lausu innanlands, í stað þess að ráða starfsfólk frá íslenskum fyrirtækjum sem þurfa þá sjálf að leita eftir starfsfólki erlendis vegna skorts á hæfu fólki. Sumir vilja vissulega sjá hér uppboðsstemmningu þar sem bitist er um starfsfólkið með yfirboðum. Sé horft út fyrir þær tímabundnu stórframkvæmdir sem nú ganga yfir er sú launaþensla og verðbólga sem slíku getur fylgt ekki síður skaðleg fyrir launafólk en fyrirtæki og þau markmið um stöðugleika sem verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur stefna í sameiningu að. Sá sveigjanleiki sem alþjóðlegur vinnumarkaður býður uppá verður til þess að færri varanleg störf glatast, sem erfitt verður að endurheimta þegar stórframkvæmdum lýkur.

Vinnuvélaréttindi

Loks ber að nefna ýmis ummæli sem fallið hafa um staðfestingu réttinda til að stýra vinnuvélum. Sú umræða er í raun óskiljanleg, enda öllum sem til þekkja ljóst að engin leið er til þess að staðfesta vinnuvélaréttindi kínverskra starfsmanna fyrirfram, eins og ákveðið hefur verið að taka á þeim málum hérlendis. Þeir þurfa allir að undirgangast próf sem Vinnueftirlitið heldur utan um framkvæmdina á óháð því hvaða pappíra þeir hafa meðferðis. Allt tal um að þeir komi hingað réttindalausir er því ekkert annað en lýsing á þeim veruleika sem búinn er öllum slíkum starfsmönnum sem hingað til lands koma frá löndum utan sem innan EES.

Farvegirnir eru til

Það er engin ástæða til að skjóta upp pólitískum bombum um þessi mál. Um það ríkir enginn ágreiningur að öllum fyrirtækjum sem hér starfa, innlendum sem erlendum, ber að virða íslensk lög og íslenska kjarasamninga. Til eru farvegir til þess að taka á mögulegum ágreiningi sem kann að rísa um framkvæmd í þeim efnum, svo sem Félagsdómur.

Ari Edwald