Fréttir - 

15. Febrúar 2017

Erlend fjárfesting jákvæð fyrir Íslendinga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Erlend fjárfesting jákvæð fyrir Íslendinga

Á undanförnum árum hefur erlend fjárfesting á Íslandi aukist og skapað fjölbreytt störf í ólíkum atvinnugreinum. Gera þarf betur því aukin erlend fjárfesting styrkir efnahagslífið og bætir lífskjör landsmanna. Þetta kom fram á opnum fundi Samtaka iðnaðarins, Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins í morgun þar sem leitað var svara við því hvort erlend fjárfesting væri böl eða blessun?

Á undanförnum árum hefur erlend fjárfesting á Íslandi aukist og skapað fjölbreytt störf í ólíkum atvinnugreinum. Gera þarf betur því aukin erlend fjárfesting styrkir efnahagslífið og bætir lífskjör landsmanna. Þetta kom fram á opnum fundi Samtaka iðnaðarins, Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins í morgun þar sem leitað var svara við því hvort erlend fjárfesting væri böl eða blessun?

Stutta samantekt frá fundinum og kynningar frummælenda má nálgast á vef SA ásamt nýrri greiningu efnahagssviðs SA á erlendri fjárfestingu.

6.500 störf

undefinedÍ erindi Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA, kom fram að a.m.k. 6.500 starfsmenn  starfi í dag fyrir fyrirtæki á Íslandi sem eru í erlendri eigu. Þrátt fyrir að erlend fjárfesting hafi aukist eru Íslendingar eftirbátar nágrannaþjóðanna og mikilvægt að bregðast við og skapa hér samkeppnishæft og eftirsóknarvert rekstrarumhverfi sem getur laðað að erlent fjármagn.

Eftir miklu er að slægjast en Ásdís tók dæmi af íslensku fyrirtæki sem flokkast sem erlend fjárfesting. 90 krónur af hverri 100 króna veltu verður eftir í landinu aðeins 10 krónur fara úr landi sem arður. Virðisaukinn af fjárfestingunni verður að mestu leyti eftir í formi launa, fjárfestinga, kaupa á innlendum aðföngum auk skatta og gjalda.

undefined

Ásdís benti á fjórar fljótvirkar leiðir til að auka samkeppnishæfni Íslands og sagði Ísland hafa margt til brunns að bera sem fjárfestingarkostur. „Ísland er spennandi kostur fyrir erlenda fjárfesta og við ættum að taka þeim opnum örmum.“

Sjá nánari samantekt

Greining efnahagssviðs SA um erlenda fjárfestingu (PDF)

Stefna um nýfjárfestingar
undefined
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpaði fundinn. Ráðherra gerði að umtalsefni þingsályktun um stefnu um nýfjárfestingar sem samþykkt var á Alþingi fyrir tæpu ári, þar sem talin eru upp sex atriði sem lögð skuli til grundvallar við eflingu nýfjárfestingar.

„Þessi þingsályktun var samþykkt með breiðum pólitískum stuðningi á Alþingi og yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða. En hún er enn sem komið er bara orð á blaði. Eftir er að útfæra hvernig markvisst verði unnið í þessum anda og það er verkefni okkar núna.

Eitt sem kæmi til greina væri að miða formlega við framangreind sex markmið þegar metið er hvaða nýfjárfestingar hljóta ívilnanir samkvæmt lögunum um þær, þannig að lögin verði ekki eins almenn og þau eru í dag. Við höfum ekki tekið afstöðu til þess, en sú leið hlýtur að koma til skoðunar.  

Í öðru lagi ættu þessi atriði að verða leiðarljós í kynningarstarfi okkar gagnvart erlendum fjárfestum, eins og þau hafa raunar að einhverju leyti verið.

Í þriðja lagi ætti að taka mið af þessum áherslum í allri viðleitni stjórnvalda sem lýtur að því að búa nýfjárfestingum sem hagstæðast umhverfi. Margt hefur nú þegar verið gert, til að mynda stóraukin framlög í Tækniþróunarsjóð og hækkaðar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Hvort tveggja rímar vel við áherslurnar sem fram koma í þingsályktuninni og við eigum að halda áfram á þeirri braut."

undefined

Þá nefndi ráðherra að frá hagfræðilegu sjónarmiði skipti ekki öllu máli hvort nýfjárfesting kæmi frá innlendum eða erlendum aðilum þótt erlend fjárfesting fæli vissulega í sér áhættudreifingu fyrir hagkerfið.

"[Á]vinningurinn [af erlendri fjárfestingu] snýst ekki fyrst og fremst um sjálfa fjármunina sem verið er að fjárfesta heldur frekar um þekkinguna og tengslin og framfarirnar sem streyma inn í atvinnulífið með auknu samstarfi og samvinnu við alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta.

Þetta blasir við ef við hugsum okkur að stofnaður yrði erlendur háskóli á Íslandi. Ávinningurinn af því væri ekki fyrst og fremst peningarnir sem kostaði að reisa húsnæðið og koma starfseminni af stað, heldur nýja þekkingin sem þarna tæki að streyma inn í landið, og öll tækifærin sem fælust í nýjum tengslum. Svipað gildir um fyrirtæki og fjárfesta sem sem hasla sér völl hér á landi."

Styðja viðskiptafrelsi
undefined
Mikill meirihluti Íslendinga, eða rúmlega 7 af hverjum tíu (72,4%) telja mikinn hag af frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu milli landa.  Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu en Þóra Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins kynnti helstu niðurstöður hennar á fundinum. Þrátt fyrir þessa jákvæðni virðist sem erlend fjárfesting valdi neikvæðum hughrifum í hugum Íslendinga þegar þeir virða fyrir sér orðin erlend fjárfesting.

Aðeins rétt rúmlega helmingur landsmanna telur jákvætt  fyrir íslenskt samfélag að erlend fyrirtæki setji upp starfsemi á Íslandi.

Tæpur helmingur landsmanna (48,8%) telur mikinn ávinning fólginn í því að íslensk fyrirtæki setji upp starfsemi erlendis og nánast jafn margir (47,2%) telja að erlend fyrirtæki hagnist yfirleitt á kostnað íslensks samfélags.

Þóra sagði þessi neikvæðu hughrif hafa komið verulega á óvart.

Sjá kynningu Þóru (PDF)

Alþjóðavæðing í báðar áttir
undefined

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, fjallaði í erindi sínu um þann augljósa ávinning sem erlend fjárfesting og alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs hefur í för með sér.

Almar benti á að fjárfestingaþarfir okkar hafi breyst eftir því sem efnahagslífið hefur þróast. Í dag þurfum við frekar á smærri verkefnum að halda sem falla inn í almennan lagaramma um nýfjárfestingar en síður stórverkefni með sértækum aðgerðum. Horfa þurfi fram á veginn og nýta vel það samkeppnisforskot sem við höfum.

Almar lagði á það þunga áherslu að ungt og vel menntað fólk verði að hafa tækifæri til að starfa hér á landi en á sama tíma væri mikil alþjóðleg samkeppni í þekkingariðnaði.  

Kynning Almars (PDF)

Gerum betur

undefined

Að erindum loknum fóru fram umræður. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Lilja Alfreðsdóttir, alþingismaður og Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður fjárfestingarsviðs Íslandsstofu ræddu um efni fundarins og lögðu áherslu á að umræða um erlenda fjárfestingu og mikilvægi hennar verði efld.

Fram kom að íslensk höft í fortíð, nútíð og framtíð dragi úr tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi. Lilja sagði ekki eftir neinu að bíða og klára þyrfti afnám hafta strax. Framkvæmdastjóri SA tók undir það og sagði að það þurfi að bæta móttökuskilyrði fyrir beina erlenda fjárfestingu á Íslandi. Auk þess verði að auðvelda erlendum sérfræðingum að koma til landsins að vinna og flytja nýja þekkingu til landsins sem fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni þurfi á að halda.

undefined

Þórður sagði Íslendinga geta gert miklu betur og margt mætti læra af Írum sem leggi sig fram um að laða erlenda fjárfestingu til landsins enda skil það þjóðarbúinu miklu. Umræðan væri þörf en nú þyrfti að láta verkin tala.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, stýrði fundi af festu og leiddi umræður.

undefined

Samtök atvinnulífsins, Íslandsstofa og Samtök iðnaðarins þakka þeim fjölmörgu sem sóttu fundinn. Rúmlega 120 manns sátu hann þrátt fyrir að aðeins hafi verið opnað fyrir skráningar sl. föstudag og því ljóst að áhuginn á málinu er mikill.

Kíktu á myndir frá fundinum á Facbook-síðu SA @atvinnulifid

undefined

Samtök atvinnulífsins