07. janúar 2022

Er veikindaréttur hluta- og vaktavinnufólks lengri en í dagvinnu?

Guðmundur Heiðar Guðmundsson

1 MIN

Er veikindaréttur hluta- og vaktavinnufólks lengri en í dagvinnu?

Ofangreind spurning var lögð fyrir Félagsdóm í máli sem stéttarfélag höfðaði gegn Samtökum atvinnulífsins vegna aðildarfyrirtækis í desember 2020. Túlkun stéttarfélagsins var að greiðslutímabil veikinda hjá hluta- og vaktavinnufólki væri lengra eftir því sem unnir væru færri dagar á viku. Veikindarétturinn væri alltaf 2 vinnudagar/vaktir fyrir hvern unninn mánuð á fyrsta starfsári óháð vinnuskipulagi.

Félagsdómur hafnaði röksemdum stéttarfélagsins og féllst á með Samtökum atvinnulífsins að greiðslutímabil í veikindum sé jafnlangt án tillits til þess hversu marga daga/vaktir starfsmaður vinnur að jafnaði á viku. Jafnræðis sé þannig gætt milli starfsfólks og þeir sem vinni færri daga á viku séu ekki betur settir en þeir sem vinni fimm daga vinnuviku.

Atvinnurekendum er því heimilt að umreikna veikindarétt þeirra sem vinna færri en fimm daga á viku þannig að greiðslutímabil veikinda sé jafnlangt og hjá starfsmönnum sem vinna hefðbundna dagvinnu fimm daga vikunnar, t.d. með því að telja forföll í klukkustundum og draga frá áunnum veikindarétti í klukkustundum.

Dómurinn er mikilvægur því Alþýðusamband Íslands ásamt stærstu stéttarfélögum innan ASÍ hafði túlkað ákvæði laga og kjarasamninga á annan hátt.

Til að skýra betur álitaefnið má taka dæmi af þremur starfsmönnum sem unnið hafa fimm mánuði hjá vinnuveitanda, bræðrunum Gísla, Eiríki og Helga. Gísli er í starfi fimm daga vikunnar, Eiríkur vinnur að jafnaði annan hvern dag á 12 klst. vöktum en Helgi einungis einn dag í viku. Túlkun stéttarfélagsins myndi leiða til þess að veikindaréttur Gísla væri tvær vikur (2 dagar * 5 mánuðir), réttur Eiríks væri tæpar 3 vikur en Helgi væri með 10 vikna veikindarétt eða fimm sinnum lengri veikindarétt en Gísli sem starfar fimm daga vikunnar!

Túlkun Samtaka atvinnulífsins sem staðfest var af Félagsdómi leiðir til þess að bræðurnir eiga rétt á að vera í launuðum veikindum yfir jafnlangt greiðslutímabil. Eftir fimm mánuði í starfi er veikindaréttur þeirra allra tvær vikur. Fjöldi greiðsludaga í veikindum ræðst af því hversu margir vinnudagar/vaktir falla að jafnaði á tveggja vikna tímabil. Gísli, sem vinnur fimm daga vikunnar, á þannig 10 daga veikindarétt, Eiríkur sem vinnur að jafnaði annan hvern dag á rétt á 7 greiddum vöktum (10 * (3,5/5)) en Helgi hefur á þessum fimm mánuðum áunnið sér tveggja daga veikindarétt (10 * (1/5)).

Á vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins geta félagsmenn nálgast frekari upplýsingar um útreikning veikindaréttar.

Guðmundur Heiðar Guðmundsson

Lögmaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins