Efnahagsmál - 

06. desember 2018

Er Ísland berskjaldað fyrir aukinni verndarhyggju?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Er Ísland berskjaldað fyrir aukinni verndarhyggju?

Ísland er smáríki – lítið, opið og einhæft hagkerfi – sem byggir lífsgæði sín á fáum útflutningsgreinum, einna helst hrávöruútflutningi. Hindranir í vegi fyrir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum geta þar af leiðandi komið sér illa fyrir efnahag þjóðarinnar jafnvel þótt bein áhrif slíkra hindrana séu lítil sem engin. Óbein áhrif aukinnar verndarhyggju stórþjóða geta borist hingað til lands í gegnum alþjóðlegar virðiskeðjur með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á bæði hagvöxt og lífskjör.

Ísland er smáríki – lítið, opið og einhæft hagkerfi – sem byggir lífsgæði sín á fáum útflutningsgreinum, einna helst hrávöruútflutningi. Hindranir í vegi fyrir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum geta þar af leiðandi komið sér illa fyrir efnahag þjóðarinnar jafnvel þótt bein áhrif slíkra hindrana séu lítil sem engin. Óbein áhrif aukinnar verndarhyggju stórþjóða geta borist hingað til lands í gegnum alþjóðlegar virðiskeðjur með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á bæði hagvöxt og lífskjör.

Í stuttu máli má segja að frjáls viðskipti, þ.e. frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks, vænki hag þjóða með því að stuðla að aukinni samkeppni á markaði sem síðan hvetur til nýsköpunar og framleiðniaukningar í gegnum hagkvæmari nýtingu auðlinda og aukinnar sérhæfingar í framleiðslu. Vaxandi verndarhyggja meðal þjóða er því áhyggjuefni, sér í lagi fyrir lítið land eins og Ísland sem byggir hagsæld sína á sterkum útflutningsgreinum og reiðir sig að mestu á innflutningi til neyslu.

Verndarhyggju vaxið fiskur um hrygg
Ýmsar náttúrulegar hindranir standa í vegi milliríkjaviðskipta. Langar vegalengdir auka flutningskostnað, mismunandi gjaldmiðlar auka viðskiptakostnað og menningarmunur getur orðið til þess að ekkert verður af viðskiptum. Þrátt fyrir að örar tækniframfarir og alþjóðavæðing hafi gert löndum kleift að yfirstíga stóran hluta þessara hindrana þá standa landamæri eftir sem ein stærsta viðskiptahindrunin. Við landamæri geta fyrirtæki rekist á hindranir í formi innflutningstolla og -kvóta, tæknilegra reglugerða sem takmarka eða gera innkomu nýliða á markað erfiðari en ella, og svo mætti lengi telja.

Á síðastliðnum sex áratugum hefur vægi utanríkisviðskipta í heimshagkerfinu meira en tvöfaldast, farið úr því að vera 24% af landsframleiðslu í heiminum í 56%, er það ekki síst að þakka stöðugri fækkun viðskiptahindrana fyrir tilstilli milliríkjasamninga og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Á undanförnum árum hefur þróunin hins vegar snúist við og vöxtur viðskipta ekki náð sér á strik eftir síðustu efnahagslægð. Til þess að standa vörð um innlenda framleiðslu og efnahagslegan styrk í niðursveiflunni síðustu innleiddu þjóðir heimsins ýmsar viðskiptaþvinganir, þó síst í formi aukinnar tollheimtu. Þess í stað hafa þær kosið að innleiða ýmsar reglugerðir og aðrar tæknilegar hindranir í auknum mæli. Eru Bandaríkin og Kína því ekki þau einu sem hafa innleitt nýjar viðskiptahindranir að undanförnu þó kastljósið beinist vissulega að þeim um þessar mundir. Þessi aukning í verndarhyggju skýrir líklega einna best áðurgreindan samdrátt í vexti milliríkjaviðskipta. Í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem frjáls viðskipti hafa til lengri tíma litið á framleiðni og hagvöxt eru áhyggjur alþjóðastofnanna langt því frá að vera úr lausu lofti gripnar.

Skyggir yfir heimshagkerfinu
Í byrjun október gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) út nýja og uppfærða efnahagsspá til næstu fimm ára. AGS spáir því að hagvöxtur í heiminum verði að meðaltali 3,6% á næstu árum, sem er þokkalegur vöxtur í sögulegum samanburði en heldur minni hagvöxtur en gert var ráð fyrir í aprílspá sjóðsins, eða 3,8% að meðaltali á ári. Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur óvissa aukist á undanförnum mánuðum sem meðal annars má rekja til aukins fjármálalegs og pólitísks óstöðugleika, einkum og sér í lagi vegna nýlegra viðskiptaþvingandi aðgerða Trumps Bandaríkjaforseta. Beinast aðgerðir hans aðallega að Kínverjum en einnig að öðrum stærri viðskiptalöndum Bandaríkjanna, s.s. Evrópusambandinu og Kanada. Viðskiptadeilur þessara ríkja hafa þegar haft áhrif á hagvaxtarhorfur næstu ára og ekki ólíklegt að sú óvissa sem þeim fylgir gæti haft enn frekari áhrif til lækkunar þegar fram líða stundir. Hafa aðrar alþjóðlegar stofnanir tekið undir áhyggjur AGS en sem dæmi hafa bæði OECD og Alþjóðabankinn lækkað hagvaxtarspár sínar vegna þessa.

 Tollastríð Bandaríkjaforseta hefur áhrif á meira en 2% af heildar utanríkisverslun heimsins

 

Erfitt að spá fyrir um efnahagsleg áhrif tollastríðs
Í tilraun til þess að spá fyrir um möguleg áhrif tollastríðs á hagvöxt í heiminum stillir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn upp mismunandi sviðsmyndum. Ein sviðsmyndin miðast við þá tolla sem nú þegar eru við lýði og gerir ráð fyrir að þeir haldist óbreyttir yfir spátímann. Önnur sviðsmynd gerir ráð fyrir því að Bandaríkin leggi 25% tolla á allan  kínverskan innflutning og að Kínverjar svari í sömu mynt. Sviðsmyndirnar tvær draga upp gerólíkamynd af því sem vænta má en þó er ljóst að ef deilan stigmagnast munu áhrif hennar á hagvöxt heimsins stigmagnast að auki.

Eðli máls samkvæmt eru áhrifin mest á Kína og Bandaríkin en hugsanlegt að önnur ríki græði til skamms tíma, þ.e. þegar bandarískir og kínverskir neytendur skipta yfir í innfluttar vörur sem ekki falla undir hina nýju tolla, til lengri tíma tapi aftur á móti allir, óháð því á hvora spána er horft. Í ofanálag er líklegt að spárnar vanmeti mögulega áhrif deilu stórveldanna tveggja þar sem aukin óvissa meðal heimila og fyrirtækja getur dregið enn frekar úr neyslu og fjárfestingu. Á sama tíma hefur reynst erfitt að spá fyrir um áhrif tollanna á virðiskeðjur í alþjóðaviðskiptum. Áhrif stríðsins kunna því að rista mun dýpra en greiningar gera ráð fyrir í dag.

Lítil opin hagkerfi eins og Ísland berskjaldaðri en önnur
Þó flestar, ef ekki allar spár, geri ráð fyrir að hagvöxtur heimhagkerfisins verði þokkalegur á komandi árum þrátt fyrir vaxandi titring í alþjóðaviðskiptum eru lítil hagkerfi viðkvæmari en önnur fyrir aukinni verndarhyggju og þeim truflunum sem hún kann að hafa á milliríkjaviðskipti. Ísland er þar engin undantekning og eru einkum þrjár ástæður sem liggja þar að baki.

Í fyrsta lagi er Ísland smáríki. Með því að opna á utanríkisviðskipti geta þjóðir sérhæft sig í framleiðslu á þeirri vöru og þjónustu sem þær hafa hlutfallslega yfirburði í samanborið við aðrar þjóðir og verslað aðrar nauðsynjar út fyrir landssteinanna, til þeirra ríkja sem hafa hlutfallslega yfirburði á öðrum sviðum. Sérhæfingin sem verður til stuðlar að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta og þannig hagvexti til lengri tíma. Á það við um allar þjóðir, smáar sem stórar. Það er hins vegar ljóst að stærri og fjölbreyttari hagkerfi, eins og t.d. Bandaríkin, eiga auðveldara með að komast af á sjálfsþurftarbúskapi einum saman og reiða sig því minna á utanríkisviðskipti en til dæmis lítil og einhæfari hagkerfi eins og Ísland. Endurspeglast þetta sem dæmi í hlutfalli utanríkisviðskipta af landsframleiðslu en árið 2017 var það 27% í Bandaríkjunum en 88% á Íslandi. Meðal smáríkja er  umfang utanríkisverslunar þó víða hærra en hér og því ekki ofsögum sagt að lífsgæði Íslendinga, sem og annarra smáþjóða, séu háð frjálsum viðskiptum á heimsvísu.

Í öðru lagi er útflutningur Íslands einhæfur á alþjóðlegan mælikvarða. Vegna smæðar þurfa smáríki að treysta á og sérhæfa sig í fáum og afmörkuðum atvinnugreinum, er það ekki síst vegna þessa sem þau reiða sig meira á utanríkisviðskipti en þau sem stærri eru. Sú staðreynd gerir efnahag þeirra sérstaklega viðkvæman fyrir truflunum á viðskiptum með þær afurðir sem þær hafa sérhæft sig í að framleiða. Verði helstu útflutningsgreinar fyrir skertri samkeppnisstöðu, t.a.m. vegna álagningu tolla, er í fá önnur skjól að venda. Útflutningur Íslands er sérstaklega einhæfur á alþjóðlegan mælikvarða en 77% af vöruútflutningi landsins árið 2017 mátti rekja til sjávarútvegs- eða álafurða.

Í þriðja lagi er Ísland hrávöruútflytjandi og treystir þar af leiðandi á virðiskeðjur alþjóðaviðskipta. Eins og áður vega sjávarútvegs- og álafurðir þungt í útflutningi Íslands en hvoru tveggja má flokka undir hrávöruframleiðslu. Hrávöruútflytjendur og þau lönd sem treysta á hrávörur annarra í sinni eigin framleiðslu eru upp á svokallaða virðiskeðjur komin og eru lítil, einhæf hagkerfi eins og Ísland þar fremst í flokki.  Virðiskeðjur spila sífellt stærra hlutverk í heimi alþjóðaviðskipta en smávægilegar breytingar á viðskiptaumhverfi geta magnast upp í gegnum þær. Þannig geta lönd eða atvinnugreinar sem ekki verða fyrir beinum áhrifum af tollum eða annars konar viðskiptahindrunum orðið fyrir óbeinum áhrifum í gegnum virðiskeðjur. Erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um þessi áhrif og stærðargráðu þeirra en langtum líklegast er að þau séu vanmetin í þeim spám sem þegar liggja fyrir og var t.a.m. vitnað í hér að ofan.

Í þessu samhengi má benda á að þó Bandaríkin hafi nú lagt 25% tolla á allt innflutt ál þá flytur Ísland lítið sem ekkert af álframleiðslu sinni til Bandaríkjanna,  og  verður því í raun ekki fyrir beinum áhrifum af þessari álagningu. Verði hins vegar virðiskeðjurnar fyrir áhrifum af þeim gæti dregið úr eftirspurn eftir íslensku áli þrátt fyrir að beinu áhrif tollana séu lítil sem engin. Í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands eru þessu gerð ákveðin skil en þar spáir bankinn 0,5% minni hagvexti hér á landi en ef að áhrifum tollastríðsins gætti ekki.

Að lokum
Þó svo að augljósustu vísbendingar þess efnis að tollastríð Trumps sé að smitast yfir til Íslands liggi í áhrifum þess á álverð, þá segir það ekki alla söguna. Á dögunum lýsti t.a.m. íslenska hátæknifyrirtækið Marel yfir áhyggjum sínum af áhrifum þess ósamræmis sem viðskiptahindranir geta myndað í framboði og eftirspurn eftir matvælum innan heimshluta sem gæti leitt til minni eftirspurnar eftir tækjum frá fyrirtækinu. Áhyggjur Marels eru ívið meira lýsandi fyrir þau áhrif sem truflun á virðiskeðjum getur haft á íslensk fyrirtæki og efnahag almennt. Ísland getur því ekki horft fram hjá þeirri neikvæðu þróun sem hefur átt sér stað í milliríkjaviðskiptum og hefur verið að stigmagnast á undanförnum mánuðum enda ljóst að hún kann að hafa meiri áhrif hér á landi þegar fram í sækir en augljóst þykir í dag.

Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir, hagfræðingur á efnahagssviði SA.

Greini birtist í tímariti Félags viðskipta- og hagfræðinga.

Samtök atvinnulífsins