Efnahagsmál - 

23. nóvember 2009

Er að marka fjárlög? (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Er að marka fjárlög? (1)

Þriðjudaginn 17. nóvember héldu Samtök atvinnulífsins ásamt Félagi forstöðumanna ríkisstofanna í samvinnu við fjármálaráðuneytið ráðstefnu um framkvæmd fjárlaga undir yfirskriftinni "Er að marka fjárlög?". Ráðstefnan var vel sótt og heppnaðist vel í alla staði. Ástæða þess að þetta efni var tekið fyrir er sú að á undanförnum árum hefur verið pottur brotinn í framkvæmd fjárlaga og fjárlög og útgjöld einstakra stofnana farið langt fram úr því sem Alþingi ákvað við afgreiðslu sína.

Þriðjudaginn 17. nóvember héldu Samtök atvinnulífsins ásamt Félagi forstöðumanna ríkisstofanna í samvinnu við fjármálaráðuneytið ráðstefnu um framkvæmd fjárlaga undir yfirskriftinni "Er að marka fjárlög?". Ráðstefnan var vel sótt og heppnaðist vel í alla staði. Ástæða þess að þetta efni var tekið fyrir er sú að á undanförnum árum hefur verið pottur brotinn í framkvæmd fjárlaga og fjárlög og útgjöld einstakra stofnana farið langt fram úr því sem Alþingi ákvað við afgreiðslu sína.

Þetta kom glögglega fram í erindi Ólafs Hjálmarssonar hagstofustjóra og fyrrverandi skrifstofustjóra fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Í lokaerindi ráðstefnunnar undirstrikaði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að í þeirri stöðu sem ríkisfjármálin og þjóðarbúið er í um stundir er þessi framgangur mála óásættanlegur og ef hann heldur áfram getur það haft verulegar neikvæðar afleiðingar fyrir allan almenning og lífskjör í landinu. Það er óhætt að taka undir með Gylfa og bæta því við að þó einhverjum hafi þótt þetta í lagi á þeim tímum sem afgangur á rekstri ríkissjóðs óx árlega umfram áætlanir - þá gengur þetta ekki við núverandi aðstæður.

Eitt stærsta verkefnið sem þjóðin og ríkisstjórnin stendur nú frammi fyrir er að bæta stöðu ríkisfjármálanna. Því eru augljóslega takmörk sett hversu mikið er hægt að auka skattheimtuna og jafnvel líklegt að við séum nú þegar að fara umfram þau mörk. Þannig muni ætlaðar tekjur ekki skila sér ef tekjustofnar stækka ekki með nýjum fjárfestingum og nýjum atvinnutækifærum. Því eru líka takmörk sett hvað hægt er að draga mikið saman í þjónustu hins opinbera. Á þessu tvennu er hins vegar sá munur að við getum með hagræðingu  og nýjum hugmyndum lækkað útgjöld ríkisins án þess að skerða þurfi lífskjör borgaranna. Við getum hins vegar ekki með nýjum hugmyndum um skatta aukið tekjur ríkissjóðs okkur að skaðlausu.

Samtök atvinnulífsins vilja leggja sitt að mörkum til þess að hægt sé að bæta stöðu ríkisfjármálanna á skynsamlegan hátt. Samtökin hafa því ákveðið að hafa frumkvæði að samstarfi um ríkisfjármálin við þá aðila sem lagt geta gott til þessara mála. Ráðstefnan á þriðjudaginn var fyrsta skrefið á þessari vegferð og fleiri munu fylgja. Samstarf við forstöðumenn ríkisstofnanna er augljóslega afar mikilvægt því á þeim brenna þessi mál dags daglega og fulltrúar úr þeirra hópi á ráðstefnunni sýndu að þeir eru þegar byrjaðir að takast á við verkefnið. Okkar öflugu háskólar hafa mikið til þessara mála að leggja og eins kom fram í umræðum á ráðstefnunni að atvinnulífið hefur sitthvað fram að færa.

Fjármálaráðuneytið sýndi líka með þátttöku sinni að þar á bæ fagna menn öllum þeim sem vilja vera vinir ríkissjóðs. Samtökin vonast því eftir að þeir sem leitað verður til hvort sem þeir hafa verið nefndir hér eða ekki taki því vel að eiga við okkur  gott samstarf um þetta mikilvæga málefni.

Erindin sem flutt voru á ráðstefnunni "Er að marka fjárlög?" má nálgast á vef SA.

Smellið hér til að nálgast erindi af ráðstefnunni

Samtök atvinnulífsins