Efnahagsmál - 

06. desember 2002

Enn af mismunun heildarsamtaka

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Enn af mismunun heildarsamtaka

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins talar framkvæmdastjóri ASÍ um að menn verði að líta í eigin barm, þegar fjallað sé um 30 milljóna króna opinber framlög til ASÍ. Vísar hann til iðnaðarmálagjalds sem rennur til Samtaka iðnaðarins og til þess sem í fréttinni er nefnt opinber framlög til Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins talar framkvæmdastjóri ASÍ um að menn verði að líta í eigin barm, þegar fjallað sé um 30 milljóna króna opinber framlög til ASÍ. Vísar hann til iðnaðarmálagjalds sem rennur til Samtaka iðnaðarins og til þess sem í fréttinni er nefnt opinber framlög til Landssambands íslenskra útvegsmanna.


Hér er verið að bera saman ólíka hluti:

- Umræddar 30 milljónir króna eru opinber framlög til rekstrar á skrifstofu ASÍ.

- Það er alls ekki rétt að tala um opinber framlög til LÍÚ. Engin slík framlög eru til staðar. Í fréttinni er verið að vísa í þingskjal þar sem m.a. er fjallað um lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Lögin kveða á um innheimtu hluta söluverðmætis afla af útgerðum og ráðstöfun þess, en eins og skýrt er tekið fram í umræddu þingskjali hefur hið opinbera enga milligöngu um þessa innheimtu. Bankakerfið hefur milligöngu um þessa innheimtu af útgerðunum og greiðslur til LÍÚ með nákvæmlega sama hætti og til sjómannasamtakanna.

- Þá renna tekjur af iðnaðarmálagjaldi til Samtaka iðnaðarins, en skv. lögum um iðnaðarmálagjald skal tekjunum varið til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Samkvæmt lögunum ber Samtökum iðnaðarins að senda iðnaðarráðuneytinu árlega skýrslu um ráðstöfun andvirðis teknanna. Þetta gjald er innheimt af fyrirtækjum í iðnaði og varið til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu, eins og segir í lögunum.


Það er því að hluta til rétt hjá framkvæmdastjóra ASÍ að þessi tvenn aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins njóta að hluta til svipaðrar stöðu um innheimtu sinna félagsgjalda og gildir um alla innheimtu stéttarfélaga á stéttarfélagsiðgjöldum.

Ef farið verður í róttæka endurskoðun á slíkri tekjumiðlun til aðila vinnumarkaðarins hlýtur að koma til álita að stéttarfélög innheimti sjálf sín félagsgjöld af sínum félagsmönnum, í stað þess að atvinnurekendur séu skyldaðir til þess.


 

Samtök atvinnulífsins