Enn af fjölgun opinberra starfsmanna
Í síðasta fréttabréfi sínu bentu Samtök atvinnulífsins á það að samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fjölgaði starfsfólki í atvinnugreinunum opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem einkum telja opinbera starfsmenn, um 17% á árunum 1998-2002, að báðum meðtöldum, en starfandi fólki á almennum vinnumarkaði fjölgaði um 8% á sama tíma. Þessar tölur hljóta að teljast áhyggjuefni og koma til viðbótar sífendurteknum mælingum á hraðara launaskriði hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði undanfarinn áratug og sívaxandi hlut samneysluútgjalda í þjóðarbúskapnum. Fjármálaráðuneytið gerði þá athugasemd við tölurnar að niðurstöður vinnumarkaðskannana Hagstofunnar væru nokkuð sveiflukenndar og sagði að ætla mætti að fjölgun opinberra starfsmanna hefði numið um 13,5% á þessum árum, ekki 17%. Ekki kom þó fram hvernig talan væri fundin varðandi sveitarfélögin, en samkvæmt gögnum ráðuneytisins var hlutur ríkisins í aukningunni 3,5%, að teknu tilliti til þess að á tímabilinu tók ríkið við rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur af borginni.
"Rugl eða rógur?"
Öllu ómálefnalegri eru
skrif formanns BSRB, sem hann birtir á vef sínum. Þar spyr hann
hvort málflutningur SA sé "rugl eða rógur" og kemst að þeirri
niðurstöðu að sennilega sé hann hvoru tveggja. Vísar hann þar
einkum til ummæla aðstoðarframkvæmdastjóra SA í viðtali við
fréttamann, þess efnis að vaxandi hlutur opinbera geirans hafi þau
langtímaáhrif að draga úr hagvexti þar sem framleiðniaukningin sé
mest í einkageiranum og hann undirstaða hagvaxtar. Hér verður ekki
hirt um að svara þessari hugtakanotkun formanns BSRB, en fjallað
efnislega um gagnrýni hans á þessa sýn, sem er þríþætt.
Krísa innan áratugar?
Í fyrsta lagi bendir formaðurinn á að hlutdeild hins opinbera á
vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum almennt sé síst meiri hérlendis
en í flestum samanburðarríkjum, einkum ef horft sé til
Norðurlandanna. En í hvaða stöðu eru þessi samanburðarríki? Umrædd
ríki glíma einmitt við þann vanda að vöxtur opinbera geirans
samhliða hækkandi meðalaldri setja sívaxandi þrýsting á
efnahagslífið sem líkja má við krísu. Hlutfallslega þurfa sífellt
færri að standa undir sífellt dýrara kerfi opinberrar þjónustu og
nú er svo komið í sumum nágrannalanda okkar að fólksfjölgunin annar
engan veginn eftirspurn atvinnulífsins eftir hæfu starfsfólki.
Ísland er sem betur fer ekki komið jafn langt á þessari braut og
sum nágrannaríkjanna, en ætla má að við verðum komin í þessa stöðu
eftir um áratug, verði engin breyting á þróuninni. Viljum við
það?
Einkarekstur líklegri til
framleiðniaukningar
Þá segir formaðurinn fráleitt að alhæfa milli einkageirans annars
vegar og opinbera geirans hins vegar, hvað framleiðni snerti.
Fullyrðir hann að unnið sé af vandvirkni og eljusemi í flestum
opinberum stofnunum. Engin ástæða er til að efast um að sú sé
raunin. Hitt er hins vegar deginum ljósara að einkarekstur er mun
betur til þess fallinn að stuðla að aukinni framleiðni en opinber.
Þar er hvatinn til arðsemi ríkari, þar er krafa
samkeppnis-umhverfisins um hagræði í rekstri sífellt til staðar og
þar er vinnumarkaðurinn sveigjanlegri.
Formaðurinn tekur heilbrigðiskerfið sérstaklega sem dæmi um góða framleiðni hjá hinu opinbera, en SA hafa hins vegar vakið athygli á því að þótt hlutfall 65 ára og eldri sé það 5. lægsta hér á landi af 30 löndum OECD, eru heildarútgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála þau 5. hæstu, sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá eru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála næst hæst hérlendis og hafa hækkað mest hér á undanförnum áratugum. Þar sem hlutfall eldra fólks er lægra en hér eru heilbrigðisútgjöld mun lægri.
Einkarekstur alltaf betri?
Loks spyr formaður BSRB einna sjö spurninga sem sumar eru í mörgum
liðum og verður ekki svarað hér lið fyrir lið. Flestar rúmast þær
þó innan spurninganna hvort talsmenn SA teldu það fagnaðarefni í
sjálfu sér ef tækist að fækka fólki starfandi í opinberum rekstri
óháð hvað tæki við, og hvort það yrði að sama skapi alltaf til góðs
að fjölga störfum hjá einkareknum fyrirtækjum.
Enginn efast um mikilvægi ýmissar almannaþjónustu. Ekki er hins vegar alltaf nauðsynlegt að opinberir aðilar sjái um að veita þjónustuna, að ekki sé talað um hversu óeðlilegt það er þegar hið opinbera keppir við einkaaðila um veitingu hennar á markaði. Eða á Vegagerðin að leggja alla vegi og sjá um viðhald á þeim? Þurfa opinberar aðilar að eiga alla almenningsvagna? Á Ríkissjónvarpið að kljást við einkaaðila um réttinn til að sjónvarpa ensku knattspyrnunni, Idol og Law and Order?
Spurningin á að vera: hvers vegna ekki
einkarekstur?
Á undanförnum árum hefur mikið áunnist í einkavæðingu fyrirtækja
sem áður voru í ríkiseigu og skemmst er frá því að segja að
einkavæðingin hefur stuðlað að gríðarlegri hagræðingu í
atvinnulífinu og leyst úr læðingi sköpunarkraft sem ekkert bólaði á
í skjóli ríkisvaldsins. Hið sama á við um ýmiss konar
almannaþjónustu, þótt þar séum við því miður skemmra á veg komin.
Sú gríðarlega gróska sem orðið hefur á háskólasviðinu undanfarin ár
verður seint rakin til ríkisrekstrar, þótt ríkisvaldið leggi
sjálfstæðum skólum til fjármuni. Í ýmsum nágrannaríkjum okkar hefur
verið sýnt fram á að hægt sé að nýta kosti samkeppni og
einkarekstrar til lækkunar á kostnaði í heilbrigðiskerfinu, án þess
að hlutur hins opinbera í kostnaði við hvern sjúkling minnki, né
heldur gæði þjónustunnar. Svíþjóð er vinsælt dæmi um þetta. Í
Bretlandi reka einkaaðilar fangelsi, samhliða ríkisreknum
fangelsum, við góðan orðstí. Spurningin á ekki að vera sú hvort það
eigi að fela einkaaðilum reksturinn og nýta þannig kosti
einkarekstrar, heldur hvers vegna ekki.
Gústaf Adolf Skúlason.