Efnahagsmál - 

18. september 2002

Enginn hagvöxtur án stóriðjuframkvæmda?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Enginn hagvöxtur án stóriðjuframkvæmda?

Um næstu mánaðamót verður kunngjörð ný þjóðhagsspá samhliða framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2003. Þetta verður fyrsta þjóðhagsspáin sem fjármála-ráðuneytið gerir eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Í síðustu spá sinni í júní sl. spáði stofnunin 0,8% samdrætti landsframleiðslu í ár og 2,4% hagvexti á næsta ári. Í spánni var ekki var reiknað með neinum stóriðju-framkvæmdum.

Um næstu mánaðamót verður kunngjörð ný þjóðhagsspá samhliða framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2003. Þetta verður fyrsta þjóðhagsspáin sem fjármála-ráðuneytið gerir eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Í síðustu spá  sinni í júní sl. spáði stofnunin 0,8% samdrætti landsframleiðslu í ár og 2,4% hagvexti á næsta ári. Í spánni var ekki var reiknað með neinum stóriðju-framkvæmdum.

Minnkandi fjárfestingar
Að mati Samtaka atvinnulífsins er júníspá Þjóðhagsstofnunar um allmikinn hagvöxt á næsta ári byggð á óraunhæfum forsendum. Spá hennar um 2,4% vöxt á næsta ári hvílir að miklu leyti á forsendu um verulega auknar fjárfestingar, í kjölfar lægri vaxta, eins og sagði í skýrslu stofnunarinnar. Í atvinnulífinu sjá menn hins vegar almennt ekki fram á aukningu fjárfestinga á næstunni í ljósi mikilla fjárfestinga undanfarinna ára, mikillar skuldsetningar bæði heimila og fyrirtækja og samdráttar í eftirspurn á mörgum sviðum. Hugsanlegar virkjana- og álversframkvæmdir gætu þó gerbreytt þessari mynd.

Horfur á minni hagvexti
Sé gert ráð fyrir að fjárfestingar dragist nokkuð saman á næsta ári, minnki t.d. um 5% í stað þess að aukast, og að aðrir þættir verði óbreyttir frá júníspánni, þá hljóðar spáin upp á áframhaldandi samdrátt á næsta ári. Í ljósi þessa má fullyrða að óverulegur  hagvöxtur eða jafnvel áframhaldandi samdráttur séu líklegri horfur en sá þokkalegi  hagvöxtur sem spáð var í júní sl. Ekki kæmi á óvart þótt væntanleg spá fjármálaráðuneytisins í tengslum við fjárlagagerðina verði mun varkárari að þessu leyti og spár um hagvöxt verði færðar niður. Það setur þrýsting á gjaldahlið fjárlaganna verði markmið um jafnvægi í ríkisfjármálunum sett á oddinn.

(smellið á myndina)

Græna línan sýnir hagvaxtarspá Þjóðhagsstofnunar, miðað við 10% aukningu í fjárfestingum. Rauða línan sýnir dæmi um 5% samdrátt fjárfestinga, sem myndi þýða óverulegan hagvöxt, jafnvel áframhaldandi samdrátt.

Atvinnuástandið
Í síðustu vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar í apríl sl. hafði starfandi mönnum fækkað um 1.300 á milli ára, úr 158.400 í 157.100. Atvinnuþátttaka var einnig nokkuð minni, mældist 82,9% í apríl 2002 en 83,7% í sama mánuði 2001. Ef ekki kemur til stóriðjuframkvæmda og hagvöxtur verður lítill sem enginn á næsta ári má gera ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram að störfum fækki og atvinnuleysi aukist í 3-3½ %, en það verður líklega 2,3% á þessu ári.

Svigrúm fyrir stóriðjuframkvæmdir
Þessi þróun bendir eindregið til þess að tímasetning upphafs hugsanlegra stóriðjuframkvæmda væri einstaklega heppileg á næsta ári, og kæmi til með að valda minni röskun en á tímum meiri spennu í hagkerfinu. Samtök atvinnulífsins hafa þó áður bent á mikilvægi aðhaldsaðgerða þegar framkvæmdir nálgast hámark, einkum í ríkisfjármálunum.

Samtök atvinnulífsins