Engin lausn án fyrirtækja

Framkvæmdastjóri Landverndar var í viðtali við Spegilinn á Rás 1 í vor og ræddi þar loftlagsmál og umhverfismál í víðum skilningi. Rauði þráðurinn í máli hennar var að eina leiðin til að vernda umhverfið væri að hverfa frá markaðshyggju og áherslu á hagvöxt. Það lýsir grátlega gamaldags og sérstöku viðhorfi til atvinnulífsins.

Íslensk og önnur evrópsk fyrirtæki og samtök þeirra hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á umhverfismál í störfum sínum. Það er auðvitað ekki af góðmennskunni einni saman heldur er það góður business. Aukin vitund almennings um umhverfismál gerir fólk að betri og kröfuharðari neytendum. Fólk vill að fyrirtæki sem það skiptir við sýni ábyrgð í þessum efnum, ella beinir það viðskiptum sínum annað. Leiðtogum í íslensku og evrópsku atvinnulífi dettur ekki í hug að afneita því að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd ólíkt sumum leiðtogum vestanhafs og í nýmarkaðsríkjum. Það er ekki bara siðferðisleg skylda okkar að skila jörðinni í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða, heldur er líka efnahagsleg skynsemi í því.

Sjálfbær nýting auðlinda er þannig til að mynda undirstaða allra þriggja stærstu atvinnugreina okkar. Iðnaður reiðir sig á greiðan aðgang að umhverfisvænni orku. Meginástæða þess að ferðamenn koma hingað til lands er til að berja óspillta náttúru augum. Sjávarútvegurinn byggir alla afkomu sína á fiskistofnunum í kringum landið og að þeir verði þar til staðar til framtíðar, jafn stórir eða stærri. Loftslagsbreytingar og tilheyrandi súrnun sjávar er líklega stærsta ógnin sem steðjar að íslenskum sjávarútvegi og þar með afkomu allra landsmanna. Þessu gera fyrirtæki sér fyllilega grein fyrir og leggja því allt kapp á að gæta vel að umhverfi sínu.

Við búum svo vel að eiga íslensk fyrirtæki á heimsmælikvarða á sínum sviðum sem eru ekki bara að skapa störf og hagvöxt heldur eru líka að reiða fram mikilvægt framlag til umhverfismála. Tökum tvö dæmi. Marel þróar tæki sem vinna matvæli. Tækni sem þau hafa þróað stuðlar að því að fiskur og kjöt er betur nýtt en áður. Það spornar gegn matarsóun um leið og það eykur hagnað viðskiptavina þeirra. Orka Energy er að aðstoða stjórnvöld víða í Kína við að skipta út húshitun með kolum og olíu með hitaveitu. Það dregur úr losun á koltvísýringi á sama tíma og það skapar störf og hagvöxt.

Engin stór verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir, eða hefur staðið frammi fyrir, verða leyst eingöngu af hinu opinbera. Þess er minnst um þessar mundir að hálf öld er síðan menn gengu í fyrsta sinn á tunglinu. Þótt verkefnið hafi verið leitt af bandaríska ríkinu var fjöldi verktaka og fyrirtækja ómissandi þáttur í því. Við hefðum aldrei komist til tunglsins án nýsköpunar og hugvits sem varð til í fyrirtækjum.

Sameinuðu þjóðirnar stóðu nýverið fyrir umfangsmestu stefnumótunarvinnu sögunnar sem skilaði sér í 17 heimsmarkmiðum. Þar er lögð áhersla á umhverfismál eins og hreint vatn (6), sjálfbæra orku (7), ábyrga neyslu og framleiðslu (12), aðgerðir í loftslagsmálum (13), líf í vatni (14) og líf á landi (15). En þar er líka lögð áhersla á góða atvinnu og hagvöxt. Hagvöxtur er ekki bara grundvöllurinn að betri lífsgæðum okkar allra heldur nauðsynlegur til að takast á við lofslagsbreytingar.

Hið opinbera, almenningur og fyrirtæki eru öll hluti af sama samfélaginu. Við erum á sama báti sem deilir sömu örlögunum. Ef hagur almennings versnar þá minnkar hagnaður fyrirtækja og þau skila minni skatttekjum til hins opinbera. Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er því sameiginlegt verkefni okkar allra.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu.