Endurtekið efni eða nýr hittari?

Þetta er segin saga. Það er bullandi góðæri og það eru lausatök á ríkisfjármálum. Flest hefur samt gengið Íslendingum í haginn undanfarin ár. Ferðamönnum fjölgar, olíuverð hefur verið lágt og vextir á alþjóðlegum markaði eru lágir. Inn í landið streymir erlendur gjaldeyrir en ekki má gleyma að hér eru enn inn- og útflæðishöft á gjaldeyri. Afleiðingin er sú að gengi krónunnar hefur styrkst jafnt og þétt og kaupmáttur íslensku krónunnar er mikill. Hagur okkur er að vænkast - enn sem komið er.

Þetta birtist í mörgu. Lágmarkslaun á Íslandi eru meðal þeirra hæstu innan OECD. Í ríkjum þar sem er að finna lögbundin eða kjarasamningsbundin lágmarkslaun þá eru þau einungis hærri í Danmörku og Lúxemborg. Í öðrum ríkjum t.d. Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi eru þau lægri.

Kaupmáttur launa jókst um ríflega 20% á árunum 2013-2016 og í evrum talið jókst kaupmáttur á þessu tímabili 40% meira en í Danmörku. Ráðstöfunartekjur á mann eru hærri hér á landi en í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi en einungis lítið eitt hærri í Noregi þegar leiðrétt er fyrir kaupmætti. Tekjujöfnuður hér á landi er meiri en í öllum öðrum 35 aðildarríkjum OECD. Já, hvergi er meiri tekjujöfnuður í OECD, höldum því til haga.

Það loga aðvörunarljós
Gengi krónunnar hefur hækkað svo mjög að samkeppni við erlenda framleiðslu og þjónustu mun reynast mörgum fyrirtækjum erfið. Launahækkanir hér á landi eru margfaldar á við það sem gengur og gerist í viðskiptalöndunum. Það er kerfisvandi. Haldi svo fram sem horfir munu mörg fyrirtæki þurfa að draga saman seglin þar sem erfitt mun reynast að standa undir umsömdum launum. Gengi krónunnar verður smám saman ósjálfbært og leiðrétting þess verður óhjákvæmileg. Afleiðingarnar þekkja Íslendingar mæta vel; gengið fellur, verð- bólgan fer á skrið og kaupmáttur launa skreppur saman. Endurtekið efni úr hagsögu Íslands. Allir tapa.

Í kjölfarið hefst síðan hefðbundið kapphlaup milli stéttarfélaganna um að ná til baka töpuðum kaupmætti með miklum launahækkunum sem aftur leiðir til enn meiri verðbólgu. Og svo framvegis, hring eftir hring. Allir tapa og þeir mest sem síst mega við því. Nú er mál að linni.

Leiðin áfram
Þess vegna hafa Samtök atvinnulífsins ásamt forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar unnið að því hörðum höndum að búa til nýtt líkan fyrir kjarasamninga. Hér eru kjarasamningar mun fleiri hlutfallslega en í nálægum ríkjum og í því felst vandinn, það er samið sérstaklega við mjög fámenna hópa sem margir hverjir veita lykilþjónustu. Sem dæmi er einn kjarasamningur fyrir alla opinbera starfsmenn í Finnlandi. Þetta þarf að vera líkara því sem gerist annars staðar þar sem stéttarfélögin eru hlutfallslega mun stærri, þau ná til alls landsins og félagsmenn þeirra koma úr mörgum atvinnugreinum.

Nýtt samningalíkan verður að byggja á sameiginlegum skilningi allra landsmanna á því að launaþróunin verði sjálfbær – ekki aðeins hjá þeim sem sitja við samningaborðið hverju sinni. Skilningur næst með fræðslu og þar þurfa margir að líta í spegil. Stöðugleiki byggir á að launahækkanir verði hóflegar. Þær séu í takt við framleiðniaukningu í atvinnulífinu og getu samkeppnisgreinanna til að taka á sig kostnaðarhækkanir. Þannig yrði komið í veg fyrir svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaði. Höfrungahlaupið hefur skapað tortryggni og grafið undan trausti milli aðila á vinnumarkaði um mjög langa hríð.

Hóflegar launahækkanir koma öllum vel. Þær eru liður í því að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi, aukinn kaupmátt, lága verðbólgu og að vextir verði lægri en ella. Það er málið á nýju ári.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 11. janúar 2017.