Vinnumarkaður - 

06. mars 2007

Endurskoðun örorkumats og efling starfsendurhæfingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Endurskoðun örorkumats og efling starfsendurhæfingar

Nefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar hefur skilað skýrslu og lagt fram tillögur sínar. Í nefndinni sátu fulltrúar stjórnvalda, ASÍ, SA, lífeyrissjóða og Öryrkjabandalagsins en í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 15. nóvember árið 2005, lýsti ríkisstjórnin sig reiðubúna til samstarfs um leiðir til að draga úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna og jafna stöðuna á milli einstakra sjóða. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífins um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

Nefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar hefur skilað skýrslu og lagt fram tillögur sínar. Í nefndinni sátu fulltrúar stjórnvalda, ASÍ, SA, lífeyrissjóða og Öryrkjabandalagsins en í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 15. nóvember árið 2005, lýsti ríkisstjórnin sig reiðubúna til samstarfs um leiðir til að draga úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna og jafna stöðuna á milli einstakra sjóða. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífins um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

Breytinga þörf

Að mati nefndarinnar er brýn þörf á að horfið sé frá núverandi fyrirkomulagi á framkvæmd örorkumats. Þeir sem nái í dag 75% örorkumati fái til að mynda fullar bætur, en þeir sem eru metnir með minni örorku fái lítið eða jafnvel ekki neitt. Þessi einkenni matsins hindri endurhæfingu og komi í veg fyrir að fólk með minni örorku fái nauðsynlega aðstoð.

Nefndin var sammála um að meginmarkmið með endurskoðun á örorkumati og aukinni áherslu á starfsendurhæfingarúrræði væru að bæta hag þeirra einstaklinga sem búi við skerta starfsorku vegna örorku og að auka atvinnuþátttöku þeirra. Nefndin leggur því til að horft verði á getu einstaklinga til að afla sér tekna og að örorkubætur verði að jafnaði háðar skilyrðum um atvinnuleit og endurhæfingu, með svipuðum hætti og gildir í atvinnuleysisbótakerfinu. Einfalda þurfi kerfið og huga þurfi sérstaklega að þeim sem horfið hafi af vinnumarkaði vegna langtímaatvinnuleysis, veikinda eða slysa.

OECD hefur komist að þeirri niðurstöðu að örorka eigi ekki að jafngilda því að vera ófær til vinnu. Geta til að vinna og afla sér tekna eigi að vera metin sérstaklega og endurtekin reglulega. Nauðsynlegt sé ennfremur að breyta viðhorfi til örorku þannig að um sé að ræða skyldur í báðar áttir. Það eigi ekki eingöngu að vera skylda ríkisins að veita fjárhagsaðstoð og annan stuðning heldur sé rétt að örorkulífeyrisþegar sjálfir og vinnuveitendur leggi sitt af mörkum. Í skýrslu nefndarinnar er lögð áhersla á að virkja einstaklinginn og bjóða honum fljótt einstaklingsmiðaða endurhæfingu og fjarlægja vinnuletjandi farartálma.

    

Óheillavænleg þróun

Þegar horft er til stöðu örorkumála á Íslandi kemur í ljós að einstaklingum með örorku hefur fjölgað um 6% að meðaltali á ári síðastliðinn áratug, í 13.200 í árslok 2006. Á sama tíma voru örorkulífeyrisþegar orðnir 7,5% af heildarvinnuafli. Árleg fjölgun hefur verið um 600-700 á ári en fjöldi örorkumatsúrskurða hefur hins vegar verið mun meiri eins og sést í meðfylgjandi töflu.

Örorkumatsúrskurðir

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Fjölgun örorkulífeyrisþega hefur leitt til aukinna útgjalda almannatrygginga og lífeyrissjóða, úr tæpum 10 milljörðum króna árið 1998 í tæpa 20 milljarða árið 2005 (á verðlagi ársins 2005). Jafnframt verður atvinnulífið af starfskröftum þeirra sem hverfa af vinnumarkaði, ríki og sveitarfélög missa skatttekjur og einstaklingurinn missir tekjur. Þrátt fyrir gott atvinnuástand á Íslandi og mikla atvinnuþátttöku hefur atvinnuþátttaka einstaklinga með örorku verið mjög lítil. Aðeins fjórðungur þeirra er virkur á vinnumarkaði sem er mjög lágt hlutfall í samanburði við nágrannalönd okkar.

Tillögur til úrbóta

Til að draga úr fjölgun einstaklinga með með örorku og skapa sem flestum með skerta starfsorku vegna fötlunar eða veikinda tækifæri og ávinning af því að vera á vinnumarkaðnum, setur nefndin fram tillögur í nokkrum liðum. Nefndin er sammála um að nauðsynlegt sé að gera breytingar á núverandi framkvæmd örorkumats og leggja stóraukna áherslu á endurhæfingarúrræði. Þá þurfi stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins að taka höndum saman um að stórefla fyrirbyggjandi aðgerðir sem til lengri tíma litið komi í veg fyrir ótímabæra skerðingu starfsorku. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður, lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins komi sameiginlega að fjármögnun þessara aðgerða sem hafi það að markmiði að sem flestir verði aftur virkir á vinnumarkaði. Óbreytt ástand og áframhaldandi fjölgun lífeyrisþega hafi í för með sér vaxandi útgjöld vegna aukinna bótagreiðslna ríkis og lífeyrissjóða.

Framkvæmd breytinga

Tillögur nefndarinnar kalla á umtalsverðar breytingar á laga- og reglugerðarumhverfi örorkumats- og örorkubótakerfisins. Mikilvægt er að tryggja framgang ofangreindra tillagna og er í því skyni lagt til að sett verði á laggirnar framkvæmdanefnd til að fylgja þeim eftir, leggja mat á áhrif tillagna, ávinning og kostnað, og skera úr um álitamál. Framkvæmdanefndin verði skipuð fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Öryrkjabandalaginu, Landssamtökum lífeyrissjóða og aðilum vinnumarkaðarins undir forystu forsætisráðuneytis. Í framhaldi af þessu er gert ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins muni sérstaklega fjalla um og semja við hlutaðeigandi aðila um þau atriði sem lúta að breytingum á kjarasamningsákvæðum og reglum sjúkrasjóða og lífeyrissjóða.

Sjá nánar skýrslu nefndarinnar

Samtök atvinnulífsins