Endurskoðun og frestun á mati á samningsforsendum

Náðst hefur samkomulag aðila vinnumarkaðarins um að fresta tímasetningu mats á forsendum kjarasamninga frá febrúarmánuði 2002 til maímánaðar 2002. Meðfylgjandi eru:

- Samningur milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar

- Niðurstaða nefndar ASÍ og SA um samningsforsendur fyrir árið 2002


- Samkomulag VR/LÍV og SA um samningsforsendur

Samningur
milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og
Samtaka atvinnulífsins hins vegar

Verðbólga hefur farið ört vaxandi á undanförnum mánuðum.  Að óbreyttu stefnir í að verðbólga verði utan þeirra marka sem byggt var á við samningsgerðina vorið 2000.  Það er mikið hagsmunamál, jafnt launafólks og fyrirtækja, að komið verði í veg fyrir að mikil verðbólga festist í sessi og því nauðsynlegt að gripið verði til mótvægisaðgerða.

Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikilvæg forsenda stöðugleika í verðlags- og gengismálum.  Það er því mikilvægt framlag til aukins stöðugleika í efnahagslífinu að draga úr óvissu um kostnaðar- og verðlagsþróun á næsta ári.  Þróunin ræðst þó ekki síst af ákvörðunum stjórnvalda og Seðlabanka.

Að undanförnu hafa fulltrúar ASÍ og SA átt viðræður við fulltrúa ríkisstjórnar og Seðlabanka um leiðir til að treysta stöðugleika og minnka verðbólgu.  Ræddar hafa verið hugmyndir um samstilltar aðgerðir sem stuðlað geti að hækkun gengis krónunnar, minnkandi verðbólgu og lækkun vaxta.

Niðurstaða framangreindra viðræðna liggur nú fyrir, sem m.a. kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands dags. 13. desember 2001.  Er það mat samtakanna að  efnahagslegar forsendur séu fyrir umtalsverðri styrkingu krónunnar og rök fyrir því að það gerist á allra næstu mánuðum.  Gangi það eftir og áhrif þess á verðlag verði markverð má vænta þess að hratt dragi úr verðbólgu á næstunni og verðbólguforsenda kjarasamninga standist.

Í ljósi samráðs ASÍ, SA og ríkisstjórnar um samstilltar efnahagsaðgerðir hafa aðilar komist að eftirfarandi samkomulagi:

Alþýðusamband Íslands, fyrir hönd aðildarsamtaka sinna, annars vegar og Samtök atvinnulífsins hins vegar hafa komist að samkomulagi um eftirfarandi:

1.  Rautt strik
Samningsaðilar eru sammála um að verði vísitala neysluverðs eigi hærri en 222,5 stig í maí 2002 teljist verðlagsforsenda kjarasamninga hafa staðist.  Standist þessi forsenda  ekki eru launaliðir viðkomandi kjarasamninga uppsegjanlegir í maí með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót.

2.  Viðbótarframlag í séreignarsjóð
Samkvæmt gildandi kjarasamningum er vinnuveitanda skylt frá 1. janúar 2002 að greiða 2% mótframlag í séreignarsjóð (eða eftir atvikum sameignarsjóð) gegn 2% viðbótarframlagi launamanns.  Samkomulag er um breytingar á þessu ákvæði þannig að frá og með 1. júlí 2002 munu vinnuveitendur greiða 1% framlag í séreignarsjóð  launamanns án framlags af hálfu launamanns.  Áfram gildir reglan um 2% mótframlag gegn 2% viðbótarsparnaði launamanns og leiðir þessi viðbót ekki til hækkunar á því.  Framangreind breyting gildir þó ekki í þeim tilvikum þar sem lög- og samningsbundin lífeyrisframlög vinnuveitanda eru samtals 7% eða hærri.   Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi launamaður á aðild að, nema launamaður ákveði annað.

3.  Almenn launahækkun 1. janúar 2003
Samkomulag er um að almenn launahækkun þann 1. janúar árið 2003 verði 0,40% hærri en ella.

Framangreindar viðbætur við kjarasamninga um viðbótarframlag í séreignarsjóði og almenna launahækkun 1. janúar 2003 eru háðar því að verðlagsviðmiðun samkvæmt 1. tl. hér að framan standist í maí 2002 og að ekki komi til uppsagnar launaliðar kjarasamninga.  Verði launalið kjarasamninga sagt upp í maí 2002 koma viðbæturnar ekki til framkvæmda.


Reykjavík, 13. desember 2001

F.h. aðildarsamtaka Alþýðusambands Íslands:   

Grétar Þorsteinsson

Halldór Björnsson

Gylfi Arnbjörnsson

Sigurður Bessason

Finnbjörn Hermannsson

Guðmundur Gunnarsson

Níels S. Olgeirsson

Sævar Gunnarsson

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir

Magnús L. Sveinsson

F.h. Samtaka atvinnulífsins:

Finnur Geirsson

Ari Edwald

Hannes G. Sigurðsson

Nefnd ASÍ og SA um samningsforsendur

Endurskoðun og frestun á mati á samningsforsendum

Í kjarasamningum Flóabandalagsins, Starfsgreinasambandsins og Samiðnar við Samtök atvinnulífsins er samhljóða ákvæði um samningsforsendur.  Kveðið er á um skipan sérstakrar nefndar sem hafi það hlutverk að leggja mat á það hvort forsendur hafi staðist.  Skal mat nefndarinnar fara fram í febrúarmánuði árin 2001, 2002 og 2003.  Í flestum öðrum kjarasamningum á almennum markaði er tilvísun til niðurstaðna nefndarinnar.  Nefndin skal fjalla um það á ofangreindum tímapunktum hvort sú forsenda sem samningarnir hvíla á, að verðbólga hafi farið minnkandi, hafi staðist.  Hafi sú forsenda brugðist er launaliður samninganna uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót.

Fyrsta mat nefndarinnar á forsendum fór fram í marsbyrjun þessa árs.  Komst nefndin  að þeirri niðurstöðu þann 6. mars sl. að verðþróunarákvæði samninganna hefðu staðist og að með tilteknum breytingum á launalið samninganna væri ekki tilefni til uppsagnar þeirra. 

Í ljósi samnings milli ASÍ og SA, dags. 13. desember 2001, og honum tengd yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, dags. 13. desember 2001, liggur fyrir að ekki verður um frekara mat á samningsforsendum á árinu 2002 að ræða af hálfu nefndarinnar.  Samningur ASÍ og SA kveður á um skýrt viðmið sem fastsetur uppsagnarheimild vegna verðbólguforsendna m.v. maí 2002.   Í framangreindu felst því full og endanleg niðurstaða vegna starfa nefndarinnar vegna ársins 2002.

Reykjavík, 13. desember 2001


Ari Edwald     Gylfi Arnbjörnsson

Hannes G. Sigurðsson     Rannveig Sigurðardóttir

Samkomulag VR/LÍV og SA um samningsforsendur

Í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins annnars vegar og Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Landssambands íslenskra verzlunarmanna hins vegar, sem undirritaður var 14. maí 2000 og gildir til 1. mars 2004, er eftirfarandi ákvæði um samningsforsendur:

"Samningsaðilar eru sammála um að forsenda þessa samnings sé að verðbólga fari minnkandi.  Í febrúar ár hvert munu samningsaðilar meta hvort forsendur sem samningur þessi hvílir á hafi staðist.  Hafi sú forsenda brugðist eru launaliðir samningsins uppsegjanlegir með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót."

Í ljósi samnings milli ASÍ og SA, dags. 13. desember 2001, og honum tengd yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, dags. 13. desember 2001, liggur fyrir að ekki verður um frekara mat á samningsforsendum á árinu 2002 að ræða af hálfu samningsaðila.   Samningur ASÍ og SA kveður á um skýrt viðmið sem fastsetur uppsagnarheimild vegna verðbólguforsendna m.v. maí 2002.   Í þessu felst full og endanleg niðurstaða  samningaðila við mat á samningsforsendum vegna ársins 2002.

Reykjavík, 13. desember 2001

F.h. Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Landssambands íslenskra verzlunarmanna:

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir

Magnús L. Sveinsson

F.h. Samtaka atvinnulífsins:

Finnur Geirsson

Ari Edwald

Hannes G. Sigurðsson