Efnahagsmál - 

25. maí 2005

Endurskoðun niðurgreiðslu vaxta

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Endurskoðun niðurgreiðslu vaxta

Í umfjöllun um Ísland í nýjustu efnahagsskýrslu OECD hvetur stofnunin ríkisstjórnina til þess að stefna að meiri afgangi af fjárlögum en nú sé stefnt að. Stofnunin telur að bæta þurfi hagstjórnarblönduna eða m.ö.o. að draga úr þörf fyrir vaxtahækkanir. Í ljósi þeirra skattalækkana sem ákveðnar hafa verið þurfi að draga úr ríkisútgjöldum og nefnir stofnunin sérstaklega að lækka ætti vaxtabætur til að slá á þensluna á fasteignamarkaðnum. Í ljósi þess að þenslan á fasteigna-markaðnum hefur verið drifkraftur verðbólgunnar undanfarin misseri ætti lækkun vaxtabóta að vera mikilvæg aðgerð í viðnámi gegn verðbólgu.

Í umfjöllun um Ísland í nýjustu efnahagsskýrslu OECD hvetur stofnunin ríkisstjórnina  til þess að stefna að meiri afgangi af fjárlögum en nú sé stefnt að. Stofnunin telur að bæta þurfi hagstjórnarblönduna eða m.ö.o. að draga úr þörf fyrir vaxtahækkanir. Í ljósi þeirra skattalækkana sem ákveðnar hafa verið þurfi að draga úr ríkisútgjöldum og nefnir stofnunin sérstaklega að lækka ætti vaxtabætur til að slá á þensluna á fasteignamarkaðnum. Í ljósi þess að þenslan á fasteigna-markaðnum hefur verið drifkraftur verðbólgunnar undanfarin misseri ætti lækkun vaxtabóta að vera mikilvæg aðgerð í viðnámi gegn verðbólgu.

Kerfi frá árinu 1989

Vaxabætur voru lögfestar árið 1989 og leystu af hólmi skammvinnt kerfi húsnæðisbóta og eldra fyrirkomulag vaxtaafsláttar frá tekjum. Vaxtabótakerfið þótti á sínum tíma forsenda þess að hverfa frá beinni niðurgreiðslu vaxta Húsnæðisstofnunar (nú Íbúðalánasjóðs) og þess að koma á fót húsbréfakerfi. Reglurnar um vaxtabætur eru í megindráttum óbreyttar frá 1989 en þær eru bæði tekju- og eignatengdar. Öll vaxtagjöld sem varið er til öflunar íbúðarhúsnæðis mynda stofn fyrir vaxtabætur, þó að hámarki 7% af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis. Vaxtabæturnar eru síðan ákvarðaðar þannig að þær skerðast um 6% fyrir hverja krónu sem tekjuskattstofn fer umfram tiltekin mörk og taka að skerðast þegar eignarskattstofn fer yfir 3,7 m.kr. hjá einstaklingi og 6,2 m.kr. hjá hjónum. Vaxtabæturnar geta ekki orðið hærri en 180 þús. kr. hjá einstaklingi, 218 þús. kr. hjá einstæðu foreldri og 280 þús. kr. hjá hjónum.

Hugmyndir jaðarskattanefndar

Eitt einkenni vaxtabótakerfisins er að það ýtir undir skuldasöfnun og er auk þess illskiljanlegt, ómarkvisst og felur í sér óæskileg jaðaráhrif. Í svokallaðri jaðarskattanefnd sem skilaði áliti árið 1997 var fjallað um mögulegar leiðir til úrbóta í ljósi vankanta vaxtabótakerfisins en nefndin komst ekki að niðurstöðu. Ein þeirra hugmynda sem fjallað var um var að hverfa alfarið frá vaxtabótakerfinu og taka upp  fastan, tímabundinn styrk til þeirra sem keyptu eða byggðu íbúð í fyrsta sinn, þ.e. hverfa aftur til húsnæðisbótanna sem voru við lýði árið 1988. Önnur leið væri að hafa  húsnæðisbæturnar án tímatakmarkana en tengja þær við eignir. Þriðja leiðin sem til skoðunar kom var sú að hverfa frá tekjutengingunni og taka upp sérstakan frádrátt sem tæki mið af fasteignamati. Jafnframt yrði stuðningurinn takmarkaður í tíma, t.d. við 10 ár. Þessi leið þótti álitlegust og til þess fallin að sníða verstu agnúana af vaxtabótakerfinu, þótt ekki næðist um hana samstaða.

Í framhaldi af áliti nefndarinnar setti ríkisstjórnin fram eigin tillögu sem fólst í lækkun á tekjutengingu vaxtabóta úr 6% í 3% og eignatengingin var felld niður. Í staðinn átti að koma skerðing á bótafjárhæðinni sem næmi 1,5% af fasteignamati. Þessi hugmynd komst ekki til framkvæmdar.

Fullt tilefni til endurskoðunar

Vextir á húsnæðislánum eru nú lægri en þeir hafa verið frá upptöku vaxtabótakerfisins og lánstími lengri en áður þannig að greiðslubyrði húsnæðiskaupenda hefur lést verulega. Í því ljósi, auk þess jafnvægisleysis og verðbólgu sem spennan á fasteignamarkaðnum hefur skapað, er fullt tilefni til að endurskoða vaxtabótakerfið.

Samtök atvinnulífsins