1 MIN
Endurskoða þarf tilefni verðhækkana
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,9% á milli desember og janúarmánaðar og var 221,5 stig í janúarbyrjun, skv. frétt Hagstofunnar. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að hækkun vísitölu neysluverðs milli desember og janúar valdi vonbrigðum. Hann segir þessa hækkun skilja eftir lítið af því svigrúmi sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá í desember gerir ráð fyrir, og segir hana setja mikinn þrýsting á það. Hins vegar segir Ari þessa mælingu ekki breyta tiltrú sinni á að þróun næstu vikna og mánaða verði í samræmi við það sem vonast hafi verið eftir.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,9% á milli desember og janúarmánaðar og var 221,5 stig í janúarbyrjun, skv. frétt Hagstofunnar. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að hækkun vísitölu neysluverðs milli desember og janúar valdi vonbrigðum. Hann segir þessa hækkun skilja eftir lítið af því svigrúmi sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá í desember gerir ráð fyrir, og segir hana setja mikinn þrýsting á það. Hins vegar segir Ari þessa mælingu ekki breyta tiltrú sinni á að þróun næstu vikna og mánaða verði í samræmi við það sem vonast hafi verið eftir.
Samanburður við 2000 og 1998
  Ari rifjar upp til samanburðar að í janúar árið 2000  hækkaði vísitalan um 0,8% og að janúarhækkunin árið 1998 hafi verið  0,6% en það ár hafi verðbólgan mælst innan við 1,3% allt árið. Hann  segir að hafa verði í huga að þessi hækkun núna endurspegli það  ástand sem var, ekki það ástand sem er núna. "Við sjáum þarna mikla  hækkun í ýmissi matvöru, t.d. ávöxtum og grænmeti. Það er ljóst að  innflutningsverðlag í þessum tölum tekur ekki mið af þeirri  styrkingu á krónunni sem varð í síðari hluta desember," segir Ari.  Hann segir það t.d. mjög sérstakt að vínber hafa hækkað um 70% og  framlag þeirra til vísitöluhækkunarinnar er 0,07% sem vegur nánast  upp bensínlækkunina, sem var 0,09%.
    "Almennu vöruliðirnir eru nálægt helmingurinn af  þessari hækkun en opinberar hækkanir bæði á gjaldskrám og síðan  þessar miðstýrðu verðlagsákvarðanir s.s. um mjólkurvörur eru  samtals ríflega helmingur þessarar verðlagshækkunar," segir  hann.
Endurmeta þarf tilefni verðhækkana
  Ari gerir sér vonir um að þróun næstu mánaða geti orðið  hagfelld, m.a. vegna lækkunar grænmetisverðs sem ætti að koma fram  í mars. Opinberir aðilar verði hins vegar jafnt sem fyrirtækin að  fara yfir og endurmeta hækkunartilefni vegna þeirra gríðarlegu  hagsmuna sem eru af því að þau markmið sem aðilar vinnumarkaðarins  hafa sett sér nái fram að ganga.
   "Þó að þessi mæling sé verri en maður hafði gert sér vonir  um, þá er hún ekki úr samhengi við það sem hefur verið í janúar að  öllu jöfnu og ég tel að hún vitni fyrst og fremst um, annars vegar,  gengisstöðuna eins og hún var orðin og hins vegar endurspeglar hún  töluvert miklar opinberar hækkanir um áramótin. Ég tel ekki að hún  gefi miklar vísbendingar um viðvarandi verðbólguástand á næstu  vikum og mánuðum. Ég tel mjög mikilvægt að menn láti þessi ótíðindi  ekki slá sig út af laginu," sagði Ari að lokum.
"Engin ástæða til að fara á taugum"
  Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, segir í viðtali við  Morgunblaðið að hækkun vísitölunnar nú sé meiri en menn hafi átt  von á. Ýmsar skýringar séu á þessu, m.a. hækkanir á einstökum liðum  sem ekki endurtaki sig á næstunni auk þess sem lítið sé við því að  segja þó grænmeti hækki um tæplega 0,1% vegna frosthörku í Evrópu.  "Okkur finnst því engin ástæða til að menn fari á taugum þótt þessi  mæling sé meiri en menn áttu von á," segir Gylfi m.a., en segir  svigrúmið þó lítið. Hann leggur áherslu á að stjórnvöld hafi gengið  of langt  í ákvörðunum um hækkun á verði opinberri  þjónustu.