Efnahagsmál - 

14. janúar 2004

Endurskoða þarf starfsaðferðir Samkeppnisstofnunar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Endurskoða þarf starfsaðferðir Samkeppnisstofnunar

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um samkeppnismál er m.a. rætt við Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem telur að taka þurfi starfsaðferðir Samkeppnisstofnunar til endurskoðunar. "Ég held að það sé vægt til orða tekið að vinnubrögð Samkeppnis-stofnunar, áherslur starfsmanna og nálgun þeirra að viðfangsefnum stofnunarinnar hafi vakið mikla undrun." Ari segir að það hljóti að koma til álita að setja einhver mörk á það hvað eftirlitsstofnanir hafi mikinn tíma eða svigrúm til að rannsaka einstaka fyrirtæki. Ari telur einnig að skilgreina þurfi betur hlutverk Samkeppnisstofnunar og skerpa þurfi áherslur hennar. Mörg verkefni sem stofnunin sinni í dag samræmast illa. Þar vísar Ari annars vegar til eftirlits og inngripa til að afstýra ólögmætu atferli fyrirtækja eins og samráði, og hins vegar ýmis konar neytendavernd, verðmerkingar o.fl. "Ég held að þessi verkefni eigi ekki mikla samleið."

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um samkeppnismál er m.a. rætt við Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem telur að taka þurfi starfsaðferðir Samkeppnisstofnunar til endurskoðunar. "Ég held að það sé vægt til orða tekið að vinnubrögð Samkeppnis-stofnunar, áherslur starfsmanna og nálgun þeirra að viðfangsefnum stofnunarinnar hafi vakið mikla undrun." Ari segir að það hljóti að koma til álita að setja einhver mörk á það hvað eftirlitsstofnanir hafi mikinn tíma eða svigrúm til að rannsaka einstaka fyrirtæki. Ari telur einnig að skilgreina þurfi betur hlutverk Samkeppnisstofnunar og skerpa þurfi áherslur hennar. Mörg verkefni sem stofnunin sinni í dag samræmast illa. Þar vísar Ari annars vegar til eftirlits og inngripa til að afstýra ólögmætu atferli fyrirtækja eins og samráði, og hins vegar ýmis konar neytendavernd, verðmerkingar o.fl. "Ég held að þessi verkefni eigi ekki mikla samleið."

Samtök atvinnulífsins vilja því sjá breytingar á Samkeppnisstofnun og gera hana skilvirkari. "Stjórnsýsla samkeppnismála er ákaflega þunglamaleg og á sér ekki samsvörun annars staðar í íslenskri stjórnsýslu en þetta hefur hins vegar ekki fengist rætt efnislega frekar en önnur atriði sem snúa að samkeppnismálunum. Viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, klifar bara á því að samkeppnislögin séu góð og hún vilji efla Samkeppnisstofnun með því að veita meiru fé til þessa málaflokks. Þetta er eins og ef sjávarútvegsráðherra gæti afgreitt allar umræður um sjávarútvegsmál með því að lögin um stjórn fiskveiða séu góð og hann vilji veita meira fé til Fiskistofu! Þetta er ákaflega yfirborðskennd nálgun," segir Ari. Hann varar við því að auka fjármagn til Samkeppnisstofnunar ef vinnubrögð lagast ekki. Menn hafi nú neyðst til að horfast í augu við það vandamál, tvíverknað og sóun á opinberu fé, sem skapast af skörun verkefna samkeppnisyfirvalda og almennra refsivörsluaðila í þjóðfélaginu og skipað nefnd í málið, en brýnt sé að endurskoða fleiri atriði. Samtök atvinnulífsins vilja t.d. rýmka heimildir minni fyrirtækja til samráðs - fyrirtækja sem samanlagt hafa innan við 10% markaðshlutdeild - svo þau geti styrkt stöðu sína gegn ráðandi aðilum á markaði. Athyglisverð tillaga sem miðar að því að bæta stöðu minni aðila í samkeppninni, segir í umfjöllun Viðskiptablaðsins.

Samtök atvinnulífsins