Efnahagsmál - 

17. Maí 2010

Endurskipulagning stjórnarráðsins: Rekstrarumhverfi fyrirtækja verði bætt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Endurskipulagning stjórnarráðsins: Rekstrarumhverfi fyrirtækja verði bætt

Ríkisstjórnin vinnur nú að útfærslu tillagna um endurskipulagningu stjórnarráðsins, fækkun ráðuneyta og sparnaði í ríkisrekstri. Gert er ráð fyrir að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og m.a. stofnað nýtt atvinnuvegaráðuneyti með sameiningu iðnaðarráðuneytis og sjávar- og landbúnaðarráðuneytis. Samtök atvinnulífsins telja afar mikilvægt að unnið verði að aukinni skilvirkni, hagræðingu og sparnaði í stjórnsýslunni. Við áformaðar breytingar verði hagur atvinnulífsins jafnframt hafður í fyrirrúmi og tryggt að þær leiði til bætts rekstrarumhverfis fyrirtækja.

Ríkisstjórnin vinnur nú að útfærslu tillagna um endurskipulagningu stjórnarráðsins,  fækkun ráðuneyta og sparnaði í ríkisrekstri. Gert er ráð fyrir að  ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og m.a. stofnað nýtt atvinnuvegaráðuneyti með sameiningu iðnaðarráðuneytis og sjávar- og landbúnaðarráðuneytis. Samtök atvinnulífsins telja afar mikilvægt að unnið verði að aukinni skilvirkni, hagræðingu og sparnaði í stjórnsýslunni. Við áformaðar breytingar verði hagur atvinnulífsins jafnframt hafður í fyrirrúmi og tryggt að þær leiði til bætts rekstrarumhverfis fyrirtækja.

Málefni atvinnuveganna í viðeigandi stofnunum

Endurskipulagning á stjórnarráðinu má  ekki leiða til þess að unnið verði  að sömu málefnum í fleiri en einu ráðuneyti og tryggja verður að öll mál sem tengjast atvinnuvegunum verði unnin í stofnunum sem undir viðkomandi ráðuneyti munu heyra. Til þess að breytingar sem þessar geti gengið farsællega fram verður að ríkja um þær sátt og hafa verður samráð við þá sem hagsmuni eiga að gæta. Gagnsæi og samráð eru lykilatriði í ferli sem þessu. 

Samtök atvinnulífsins er algerlega mótfallin öllum áformum um að rannsóknastofnanir og aðrar stofnanir sem vinna með fyrirtækjum verði fluttar undir önnur ráðuneyti. Það gildir jafnt um , Hafrannsóknastofnun, Íslenskar orkurannsóknir, Matís, Nýsköpunarmiðstöð, Orkustofnun og Veiðimálastofnun. Náin tengsl milli fyrirtækja, rannsóknastofnana og stjórnsýslu atvinnuveganna eru nauðsynleg til að tryggja traust og samvinnu allra þessara aðila. Þannig hafa stofnanirnar sterka bakhjarla sem tryggja þeim aðstöðu fyrir sjálfstæðar rannsóknir. Ráðuneytin fjármagna ekki einungis verkefni stofnananna heldur eru vel upplýst um starfsemi þeirra og fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað í viðkomandi grein og starfsemin nýtist þannig stjórnsýslunni við framgang einstakra málaflokka.

Mikilvæg tengsl mega ekki rofna

Samtök atvinnulífsins telja að það yrði mikið óheillaskref að skilja í sundur ráðuneyti sem fara með málefni atvinnuveganna og stofnanir sem um viðkomandi málaflokka fjalla.  Með því að slíta tengsl atvinnuvega og rannsókna er hætta á stöðnun sem koma mun niður á stofnunum, stjórnsýslunni og rekstri fyrirtækja.

Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað reynt að koma á samstarfi við forystumenn ríkisstjórnarinnar um fyrirhugaðar breytingar án árangurs. Þær óskir eru hér með ítrekaðar. Gagnsæi, samráð, samvinna og að leit að sameiginlegum lausnum er vænlegri leið til árangurs í bráð og lengd en pukur, leynd og einhliða ákvarðanir.

Samtök atvinnulífsins