Ekki trú á frekari gengishækkun

Aðspurður um hvort líkur séu á frekari styrkingu krónunnar segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Viðskiptablaðið:

"Í ljósi þess hvert jafnvægisgengið er, sem er það gengi sem stuðlar að jafnvægi í viðskiptum við útlönd og bærilegri afkomu í atvinnulífinu, þá er ekki ástæða til þess að ætla að gengið hækki frá því sem nú er.  Spár um frekari styrkingu horfa ekki til áhrifa hágengis á afkomu í atvinnurekstrinum og áhrifa þess á atvinnustig og umsvif.  Mér sýnist að eðlilegt jafnvægi í þjóðar-búskapnum náist við gengisvísitölu á bilinu 130-135.  Gengishækkun undanfarinna mánaða er byggð á væntingum um verulegt gjaldeyrisinnstreymi í tengslum við álversframkvæmdir sem hefjast síðar á þessu ári. Ég tel að þær væntingar séu ekki byggðar á nægilega traustum forsendum og þar af leiðandi hef ég ekki trú á því að gengið hækki frá því sem nú er, nema þá sem tímabundið flökt.  Seðlabankinn mun væntanlega vinna gegn styrkingu krónunnar með gjaldeyriskaupum fyrir stórar upphæðir þegar framkvæmdir við virkjanir og byggingu álvers hefjast fyrir alvöru.


Ég hef einnig þá trú að Seðlabankinn muni á næstu mánuðum þurrka út þann 3% vaxtamun sem nú er gagnvart seðlabankavöxtum erlendis þannig að sá styrkur krónunnar sem á rótina að rekja til þess vaxtamunar eigi eftir að hverfa."