Ekki lengur verðbólguástand á Íslandi
Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í októberbyrjun 2002 var 224,1 stig og hækkaði um 0,54% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis var 222,4 stig og hækkaði um 0,59% frá fyrra mánuði. Í frétt frá Hagstofu Íslands kemur fram að sumarútsölum er nú lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 4,9% (vísitöluáhrif 0,27%).
Útlit fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans
náist
Í samtali við Morgunblaðið segir Hannes G. Sigurðsson,
aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að hækkunin nú
komi ekki á óvart þar sem vitað var að útsölulok á fatnaði og skóm
myndu hafa veruleg áhrif á vísitöluna nú. "Þessi hækkun breytir því
ekki að útlit er fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árið
í ár náist, það er verðbólgan verði undir 2,5% í árslok. Í nóvember
og desember í fyrra hækkaði vísitalan um 0,4 og 0,5% en það er
fráleitt að hækkunin verði svo mikil í ár. Áður en verðbólgukúrfan
tók að rísa fyrir þremur árum var yfirleitt óbreytt eða lækkandi
verðlag í þessum mánuðum vegna tilboða í kringum jólin."
Hægir á hækkun húsnæðisliðar
Að sögn Hannesar er athyglisvert að sjá að það er að hægja á hækkun
á húsnæðisliðnum sem stendur nú að baki helmingi hækkunar
vísitölunnar á árinu. "Ef við lítum á vísitölu neysluverðs án
húsnæðis þá er hún nú 0,6% hærri en í ársbyrjun samanborið við 1,2%
hækkun vísitölunnar í heild." Hannes segir að breytingar hinna ýmsu
þjónustuliða séu til vitnis um að hér ríkir stöðugt verðlag. "Verð
hækkar og lækkar á víxl á markaðnum og því ríkir ekki
verðbólguástand lengur á Íslandi," segir Hannes.