Efnahagsmál - 

03. september 2009

Ekkert lát á stofnun nýrra fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ekkert lát á stofnun nýrra fyrirtækja

Það sem af er þessu ári hafa verið stofnuð 216 ný fyrirtæki á mánuði sem er sambærilegur fjöldi fyrirtækja og var stofnaður fyrir efnahagshrunið í fyrra. Átta fyrstu mánuði ársins voru stofnuð 1.731 fyrirtæki, aðeins 38 fyrirtækjum færra en á sama tímabili árið 2008. Þetta sýnir ítarleg úttekt sem CreditInfo vann fyrir Fréttablaðið um stofnun nýrra fyrirtækja frá árinu 2005 og fjallað er um í blaðinu í dag.

Það sem af er þessu ári hafa verið stofnuð 216 ný fyrirtæki á mánuði sem er sambærilegur fjöldi fyrirtækja og var stofnaður fyrir efnahagshrunið í fyrra. Átta fyrstu mánuði ársins voru stofnuð 1.731 fyrirtæki, aðeins 38 fyrirtækjum færra en á sama tímabili árið 2008. Þetta sýnir ítarleg úttekt sem CreditInfo vann fyrir Fréttablaðið um stofnun nýrra fyrirtækja frá árinu 2005 og fjallað er um í blaðinu í dag.

Í tölum CreditInfo kemur fram að alls hafa 2.369 ný fyrirtæki verið nýskráð í hlutafélagaskrá eftir hrunið í byrjun október. Þar af voru 215 stofnuð í október, 197 í nóvember og 226 í desember.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Fréttablaðið það jákvæðar fréttir að Íslendingar skirrist ekki við að stofna ný fyrirtæki. Þetta sé til dæmis til vitnis um að þeir sem misst hafi vinnuna séu að koma undir sig fótunum að nýju. "Á bak við þetta liggur örugglega endurskipulagning fyrirtækja, sameiningar og fleira," segir Vilhjálmur.

Flest fyrirtæki sem stofnuð hafa verið í ár eru á sviði verslunar og þjónustu auk framleiðslu. Helst má sjá mikla fækkun í stofnun fyrirtækja í fjármálastarfsemi, eða svokallaðra eignarhaldsfélaga.

Frá miðju síðasta ári hafa 834 fyrirtæki verið úrskurðuð gjaldþrota samanborið við 669 tólf mánuði þar á undan, sem er fjórðungsaukning. Þetta er þó aðeins lítið hlutfall heildarfjölda fyrirtækja en á Íslandi eru skráð tæplega 32 þúsund fyrirtæki í hlutafélagaskrá.

Sjá nánar:

Vefútgáfa Fréttablaðsins 3. september 2009

Samtök atvinnulífsins