Efnahagsmál - 

14. Ágúst 2006

Ekkert eitt norrænt módel, en margar fyrirmyndir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ekkert eitt norrænt módel, en margar fyrirmyndir

Norðurlöndin státa um þessar mundir öll af sterkri stöðu í alþjóðlegri samkeppni. Á lista IMD viðskiptaháskólans í Sviss yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heims á árinu 2006 eru þessi lönd til dæmis öll ofarlega á blaði. Ísland er efst landanna í 4. sæti, Danmörk er í 5. sæti, Finnland í því 10., Noregur í 12. og Svíþjóð í 14. sæti. Norðurlöndin virðast því vera að standa sig vel á tímum vaxandi alþjóðlegrar samkeppni.

Norðurlöndin státa um þessar mundir öll af sterkri stöðu í alþjóðlegri samkeppni. Á lista IMD viðskiptaháskólans í Sviss yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heims á árinu 2006 eru þessi lönd til dæmis öll ofarlega á blaði. Ísland er efst landanna í 4. sæti, Danmörk er í 5. sæti, Finnland í því 10., Noregur í 12. og Svíþjóð í 14. sæti. Norðurlöndin virðast því vera að standa sig vel á tímum vaxandi alþjóðlegrar samkeppni.

Ekkert eitt norrænt módel

Það er algeng túlkun að Norðurlöndin öll styðjist við sameiginlega forskrift eða módel til þess að viðhalda og efla samkeppnishæfni sína á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir að margt sé líkt með löndunum fimm geta þau engu að síður ýmislegt lært hvert af öðru. Með öðrum orðum þá er ekki til neitt eitt norrænt módel. Þetta eru helstu niðurstöður í nýju riti, Í leit að bestu norrænu leiðinni (In Search of Best Nordic Practice), sem samtök atvinnulífsins í löndunum fimm hafa gefið út sameiginlega.

Ýmislegt sameiginlegt

Norðurlöndin eiga það til dæmis sameiginlegt að þau eru lítil og opin samfélög og þess vegna hefur vaxandi alþjóðleg samkeppni þar alls staðar mikil áhrif. Heimurinn allur er nú markaðssvæði þeirra, hvort sem horft er til viðskipta með vöru og þjónustu eða til fjárfestinga, útvistunar, þekkingar eða atvinnutækifæra. Allar eru þessar þjóðir meðal þeirra jákvæðustu í garð hnattvæðingar og öll mælast þessi lönd meðal þeirra sem verja hlutfallslega mestu fé í rannsóknir og þróun og til menntamála. Þá eru löndin þekkt fyrir lítt formlega samskiptahefð og stuttar boðleiðir, meðal annars innan fyrirtækja. Loks má nefna að öll eiga þessi lönd það sameiginlegt að glíma við kostnaðarsöm velferðarkerfi og að þar er hlutfall opinberra starfsmanna mjög hátt á vinnumarkaði. Sem fyrr segir er þó engan veginn hægt að tala um eitt norrænt módel heldur hafa þessi lönd í mörgum tilfellum verið að ná miklum árangri á ólíkum sviðum.

Sérstakir styrkleikar í hverju landanna fimm

Framangreint rit samanstendur m.a. af fimm stuttum dæmisögum þar sem litið er til sérstakra styrkleika í hverju landanna fyrir sig. Fjallað er um skattalagabreytingar á Íslandi, sveigjanleika á dönskum vinnumarkaði, finnska nýsköpunarumhverfið, aðgerðir til að draga úr veikindafjarvistum á norskum vinnumarkaði og um afnám einkaréttar hins opinbera í Svíþjóð til atvinnustarfsemi í ákveðnum greinum og innleiðingu samkeppni með auknum hlut einkaaðila í framkvæmd opinberrar þjónustu.

Mikilvægt að draga lærdóma

Til þess að viðhalda forystu á tímum hnattvæðingar er mikilvægt að draga lærdóma af því sem vel er gert annars staðar. Þetta á ekki síst við um Norðurlöndin. Það er von Samtaka atvinnulífsins á Íslandi og systursamtaka þeirra á hinum Norðurlöndunum að framangreint rit megi verða til að stuðla að áframhaldandi velgengni þessara landa í alþjóðlegri samkeppni.

Ritið í heild: In Search of Best Nordic Practice (PDF skjal).

Samtök atvinnulífsins