Einkavætt á ný

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að bjóða til sölu 20% eignarhlut í Landsbanka Íslands er mikið fagnaðarefni. Ef salan gengur eftir felur það í sér að eignarhlutur ríkisins fer niður í 48%. Eru það vissulega mikil tímamót á íslenskum fjármálamarkaði.

Meiri kraft í einkavæðingu
Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað hvatt stjórnvöld til að hraða einkavæðingu. Enda hefur miðað allt of hægt í því að opinberir aðilar dragi úr þátttöku sinni í samkeppnis-rekstri. Setja þarf miklu meiri kraft í einkavæðingu á fjármálasviðinu sem öðrum og treysta betur á hugkvæmni og framtakssemi einkaaðila til að takast á við krefjandi aðstæður í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Áframhald einkavæðingar ríkisfyrirtækja var einmitt á meðal helstu markmiða ríkisstjórnarinnar fyrir þetta kjörtímabil, einkum þeirra fyrirtækja sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila.

Skemmtileg tilraun
Á ýmsu hefur gengið í sambandi við framkvæmd einkavæðingar, en á heildina litið hefur vel tekist til, menn lært hvað betur megi fara og fagmennska farið vaxandi. Ákveðnir erfiðleikar áttu sér stað í sambandi við Landssímann, m.a. vegna þess að ytri skilyrði snerust til hins verra. Þá lagði seljandinn líka meira upp úr tilteknu söluverði, heldur en að salan næði fram að ganga. Að því leyti er það skemmtileg tilraun í þessari einkavæðingu að bjóða bréfin ekki á tilteknu lágmarksverði, heldur selja í gegnum viðskiptakerfi Verðbréfaþings Íslands.

Óvisst framhald
Ekki er hægt að segja fyrir um niðurstöðu, en þau fyrirheit sem gefin hafa verið um hluthafafund og breytingar á stjórn bankans eru jákvæðar í þessu sambandi. Takmarkanir á stærð kaupa skyldra aðila ættu ekki að þurfa að spilla fyrir í sjálfu sér, þótt þær séu ekki nauðsynlegar. Taka verður hins vegar undir að það er sveipað ákveðinni óvissu hvert framhaldið verður varðandi eignarhlut ríkisins, sem heldur ráðandi hlut. Sporin hræða aðeins í þessum efnum, því þess eru dæmi að ríkið dragi að losa frekar um sitt eignarhald. Sá möguleiki, eða að ríkið geti ráðstafað ráðandi hlut til annars aðila, dregur úr líkunum á að menn reyni að kaupa sig til áhrifa á líflegum eftirmarkaði.

Kjölfestufjárfestir á eftirmarkaði?
Það er raunar umhugsunarefni hvort sú leið sem hér er farin komi ekki til greina við frekari einkavæðingu bankans ef vel tekst til. Með þessari leið getur kjölfestufjárfestir einfaldlega litið dagsins ljós á eftirmarkaði, í stað þess að fulltrúar seljandans standi í samningaviðræðum við einstaka aðila.

Dreift eignarhald í bönkum

Erfitt er að sjá rök fyrir frekari lagaskilyrðum um eignarhald í þessum þjónustufyrirtækjum frekar en öðrum, t.d. fjölmiðlum. Dreift eignarhald kemur ekki í veg fyrir raunveruleg yfirráð fárra og yfirráð með litlu eignarhaldi hljóta að vera verri staða en að hlutur ráðandi eigenda sé stærri og afrakstur þeirra sé samtvinnaður árangri fyrirtækisins í heild. Bankaútibú frá EES löndum sem ekki hafa slíkar reglur gætu auk þess starfað óáreitt hér og samkeppnin yrði þá á ólíkum forsendum að þessu leyti til.