Einkaneysla byggð á skuldasöfnun

Í nýjustu spá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að einkaneysla heimilanna aukist um tæp 3% í ár borið saman við rösklega 6% aukningu í fyrra. Mikil aukning einkaneyslu í fyrra vekur upp spurningar um hvort heimilin hafi enn á ný spennt bogann of hátt og hvort aðlögunar að lægra neyslustigi verði þörf innan skamms. Svarið við spurninginni veltur á því hvort einkaneysla á mann hafi þróast á skjön við kaupmáttarþróun og jafnframt hvort núverandi kaupmáttarstig sé raunhæft miðað við greiðslugetu atvinnulífsins. Sé litið til þróunarinnar frá árinu 1995 kemur í ljós að einkaneysla heimilanna jókst á hverju ári umfram kaupmáttaraukningu allan síðari hluta síðasta áratugar, þ.e. árin 1996-2000. Þannig jókst kaupmáttur launa, á mælikvarða launavísitölu, um rúm 20% á tímabilinu 1995-2000 en einkaneysla á mann jókst um tæp 30% á sama tíma.  Í kjölfarið sigldi síðan snörp aðlögun einkaneyslu heimilanna að tekjum þeirra og minnkaði einkaneysla á mann bæði árið 2001 og 2002, samtals um 6%. Einkaneysla jókst síðan verulega á ný á síðasta ári eins og áður kom fram.

Mikil skuldaaukning heimilanna
Aukning neysluútgjalda heimila sem ekki á sér stoð í auknum kaupmætti hlýtur óhjákvæmilega að vera fjármögnuð með lántökum. Um auknar skuldir heimila bera opinber gögn órækt vitni. Skuldir heimila hafa tvöfaldast á undanförnum áratug í hlutfalli við ráðstöfunartekjur og námu um 180% í árslok 2003 samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands. Fyrir þessari skuldaaukningu eru margar ástæður, m.a. verðhækkun íbúðarhúsnæðis, sem bæði kallar á auknar lántökur íbúðakaupenda og veldur auðlegðaráhrifum hjá íbúðaeigendum, en einnig hlýtur aukið framboð lánsfjár, gott atvinnuástand og væntingar um betri tíð að vera meðal veigamestu skýringa.

Skuldaaukning heimilanna kemur vel í ljós þegar skuldirnar eru settar í samhengi við fasteignir þeirra. Á meðfylgjandi mynd er sýnt hlutfall veðskulda annars vegar, og heildarskulda hins vegar, af fjármunaeign í íbúðarhúsnæði. Fjármunaeign í íbúðarhúsnæði er skilgreint sem framreiknað kostnaðarverð íbúðarhúsnæðis og er því frábrugðið markaðsverði. Myndin sýnir að veðskuldir heimilanna hafa hækkað úr 30% í rúm 67% af kostnaðarverði íbúðarhúsnæðis á undanförnum áratug. Heildarskuldir heimilanna, þ.e. veðskuldir að viðbættum lausaskuldum, stefna í 100% af kostnaðarverði íbúðarhúsnæðis, en þetta hlutfall var 40% árið 1990.

Skorður við frekari hagvexti?
Mikil hækkun fasteignaverðs á undanförnum árum veldur aukinni veðhæfni eigna. Skuldir heimila í hlutfalli við markaðsverð íbúða hafa hækkað mun minna en hækkun skuldahlutfalls af kostnaðarverði, eða úr 54% af markaðsverði á árinu 1995 í 66% á árinu 2002. Mikil hækkun á fasteignaverði umfram hækkun byggingarkostnaðar leiðir um síðir til verðlækkunar, að minnsta kosti að raunvirði, en það getur þó tekið langan tíma. Hátt hlutfall skulda heimilanna af eignum setur aukinni einkaneyslu og þar með hagvexti þrengri skorður í náinni framtíð, þar sem ekki verður áfram svigrúm til veðsetningar íbúðarhúsnæðis til að fjármagna neyslu í sama mæli og raunin hefur verið á undanförnum árum og áratug. Líkleg lækkun fasteignaverðs að raunvirði á komandi árum mun einnig stuðla að takmarkaðri vexti einkaneyslu en ella. Loks má leiða líkur að því að áætlanir um verulega kaupmáttaraukningu á næstu árum, sem flestir þeir aðilar sem framreiknað hafa þróun efnahagslífs á næstu árum byggja á, séu nokkuð bjartsýnar, m.a. af völdum hás hlutfalls launa af verðmætasköpuninni, og þar með afleidd áhrif á einkaneyslu og hagvöxt.