Efnahagsmál - 

07. maí 2008

Einhugur um að ná stöðugleika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Einhugur um að ná stöðugleika

Mjög góður samhljómur var með fundarmönnum á fundi forystu ríkisstjórnarinnar með fulltrúum aðila á vinnumarkaði og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Ráðherrabústaðnum í gær. Á fundinum var farið yfir efnahagsástandið og þróun þeirra mála frá því kjarasamningar voru gerðir í febrúar s.l. og síðan þessir aðilar hittust síðast á samráðsfundi í júlí í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. "Það hefur enginn áhuga á því að verðbólga festist hér í sessi. Við höfum áhuga á því að geta staðið við forsendur þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í febrúar - það sem snýr að ríkisvaldinu í þeim efnum - og einhugur hér meðal manna að stefna að því að ná hér á ný þeim stöðugleika í efnahagslífinu sem nauðsynlegur er fyrir okkur öll," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Mjög góður samhljómur var með fundarmönnum á fundi forystu ríkisstjórnarinnar með fulltrúum aðila á vinnumarkaði og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Ráðherrabústaðnum í gær. Á fundinum var farið yfir efnahagsástandið og þróun þeirra mála frá því kjarasamningar voru gerðir í febrúar s.l. og síðan þessir aðilar hittust síðast á samráðsfundi í júlí í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. "Það hefur enginn áhuga á því að verðbólga festist hér í sessi. Við höfum áhuga á því að geta staðið við forsendur þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í febrúar - það sem snýr að ríkisvaldinu í þeim efnum - og einhugur hér meðal manna að stefna að því að ná hér á ný þeim stöðugleika í efnahagslífinu sem nauðsynlegur er fyrir okkur öll," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Auk Geirs sátu fundinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Samráði þeirra aðila sem hittust í gær verður haldið áfram og verða sérfræðingar fengnir til að greina efnahagsvandann sem nú blasir við og koma með tillögur um leiðir út úr honum. Stefnt er að því að halda annan fund áður en langt um líður.

Í frétt Morgunblaðsins 7. maí segir:

Einörð í að stilla saman strengi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi öllum vera ljóst hve alvarlegt það væri ef verðbólgan næði að festast í sessi. "Það er sameiginlegt keppikefli okkar allra að stuðla að því að það verði ekki og að kjarasamningarnir geti haldið sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði. Ég tel að við munum öll fara frá þessum fundi alveg einörð í því að stilla saman strengi í því sem fram undan er."

Ingibjörg taldi mikilvægt að horfast í augu við að hér hefði orðið verðbólguskot og því yrði ekki breytt. "Það sem við getum gert er að huga að því hvernig við getum varið stöðu og kjör þess fólks sem bæði er búið að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og gera kjarasamninga þar sem verðbólgan breytir forsendunum."

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, taldi að fundurinn hefði verið mjög mikilvægur og kvaðst binda miklar vonir við framhaldið. "Við höfum kallað eftir því síðustu vikurnar að það yrði samráð þessara aðila sem hér hafa hist,"sagði Grétar. Hann sagði að tekin hefði verið ákvörðun um að greina vandann. Síðan yrði að leita ráða um hvernig mætti lágmarka skaðann.

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, sagði ljóst að vandinn væri mikill og þörf á sameiginlegu átaki þjóðarinnar allrar til að kveða niður þann vágest sem verðbólgan er. Hann sagði BSRB leggja ríka áherslu á að horft yrði til innviða samfélagsins. Hvað stjórnvöld ætluðu að gera hvað varðar heilbrigðiskerfið, íbúðalánasjóð og aðra slíka þætti, þá hlytu menn að horfa til þess hvernig tækist að jafna kjörin í landinu. "Auðvitað skiptir þetta sköpum þegar við erum að tala um hvort hér takist að gera einhvers konar þjóðarsátt, sem ég vona að verði," sagði Ögmundur.

Samtakamáttur leiði til lausnar

Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM, benti á að þau væru nú í kjaraviðræðum. Ekki væri auðvelt að gera kjarasamninga meðan verðbólgan væri eins og nú. "Ég held að það sé fyrsta skrefið að skilja betur hvernig við getum hamið verðbólguna, ekki bara út frá kjarasamningum heldur öðrum leiðum líka," sagði Halldóra.

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, kvaðst telja að þegar "umsátrinu um Ísland" lyki yrði farsæl lausn m.a. rakin til samtakamáttar í þessum hópi. Með umsátrinu átti hann við að erlent fjármagn væri hætt að koma inn í landið. "Ég vonast líka til þess að það verði sagt fljótlega eftir þennan fund að ríkið sé að taka lán og útvega fjármagn til að bæta gjaldeyrisforðann, auka traust og koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað," sagði Þór.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði engan vilja að verðbólgan næði sér aftur á strik. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, taldi að það ætti ekki að taka langan tíma að greina ástandið. Hann sagði að menn þyrftu að átta sig á því að það að halda uppi atvinnustiginu skipti langmestu máli fyrir kjör fólksins.

Sjá nánar: http://www.mbl.is/

Samtök atvinnulífsins