11. september 2025

Einföldun eftirlits – aukin samkeppnishæfni

Heiðrún Björk Gísladóttir

1 MIN

Einföldun eftirlits – aukin samkeppnishæfni

Hinn 2. september kynntu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og atvinnuvegaráðherra róttækar breytingar á stjórnskipulagi eftirlits með matvælum, mengunarvörnum og hollustuháttum. Með þeim fækkar eftirlitsaðilum úr ellefu í tvo og markmiðið er að einfalda leyfisveitingar, bæta þjónustu og auka skilvirkni.

Samtök atvinnulífsins (SA) fagna ákvörðuninni. Um langt árabil hafa SA kallað eftir breytingum á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits. Þá hafa stjórnvöld lengi haft skipulag eftirlitsins til skoðunar í ljósi fram kominna annmarka. Á síðasta ári krafðist eftirlitsstofnun EFTA, ESA, þess að Ísland innleiddi skilvirkt eftirlitskerfi en stofnunin sendi formlegt áminningarbréf þar sem farið var fram á að opinbert eftirlit á sviðum matvæla, fóðurs og dýraheilbrigðis fari fram á skilvirkan hátt og í samræmi við EES-reglur. Það varð því ljóst að ef íslenska ríkið brygðist ekki hratt við yrði ákveðið hvort ESA myndi höfða samningsbrotamál gagnvart Íslandi vegna brota á EES samningnum.

SA telja að með breytingunum sé ekki aðeins brugðist við kröfum ESA, heldur líka styrktur grundvöllur íslenskra matvælaframleiðenda til markaðssetningar á EES-svæðinu. Í fyrra námu útflutningstekjur Íslands tæpum 958 milljörðum króna, þar af voru sjávarafurðir, landbúnaðarvörur og afurðir fiskeldis um 43% heildarinnar. Um 77% alls vöruútflutnings fór til ríkja innan EES.

Ákvörðunin er djörf og halda verður vel á undirbúningsvinnunni.

Ekki eru þó allir á einu máli. Talsmenn heilbrigðiseftirlitssvæða hafa varað við því að breytingarnar muni ekki leiða til einföldunar, heldur geti aukið á kostnað fyrirtækja, lengt vegalengdir til eftirlitsaðila og rýrt staðbundna þekkingu. Þeir telja skynsamlegra að taka minni skref.

SA hafna þessum rökum og benda á að helstu vandkvæði – ósamræmi í eftirliti, óhagræði og óskilvirkni – stafi fyrst og fremst af núverandi skiptingu verkefna milli ellefu aðila, þar sem stór hluti lýtur boðvaldi sveitarfélaga. Fyrirtæki sem starfa í fleiri en einu heilbrigðiseftirlitsumdæmi hafa jafnvel þurft að taka á móti efnislega ólíkum ábendingum frá eftirliti.

Ákvörðunin er djörf og halda verður vel á undirbúningsvinnunni. Einföldun og aukin skilvirkni eru stórt skref til að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Heiðrún Björk Gísladóttir

Lögmaður á málefnasviði og alþjóðafulltrúi