Einfaldara regluverk ávísun á betri árangur

„Enginn vafi er á því að unnt er að einfalda alla stjórnsýslu, leyfisveitingar og eftirlit með atvinnulífinu verulega frá því kerfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum áratugum og ná sama árangri en með mun minni tilkostnaði en nú." Þetta sagði Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, í upphafi erindis á ársfundi Umhverfisstofnunar sem fram fór á föstudaginn. Erindið í heild má lesa á vef SA.

 „Miklir möguleikar liggja í hagræðingu hjá þeim stofnunum sem hafa eftirlit með starfsemi fyrirtækja. Fjölmargir aðilar gera út af örkinni eftirlitsmenn sem taka út ákveðinn hluta af starfseminni. Eftirlitið er meira eða minna sambærilegt og beinist að því að skoða hvort tiltekinn búnaður, vara eða þjónusta uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglum. Beinn kostnaður við rekstur helstu eftirlitsstofnana er af stærðargráðunni 20 milljarðar króna á ári eða rúmt 1% af landsframleiðslu. Töluverður hluti þessa kostnaðar er innheimtur beint hjá fyrirtækjunum. Samt er ótalinn kostnaður fyrirtækja við að sinna eftirlitsfólkinu þegar það kemur í heimsókn og skriffinnskunni sem í kjölfarið fylgir. Þar við bætist kostnaður við allar aðrar skýrslur sem þarf að skila stofnunum auk þess kostnaðar sem nýjar kröfur hafa í för með sér.

Það má færa fyrir því rök að flest ný lög sem sem Alþingi hefur sett , kalli á eftirlit til að fylgjast með framkvæmd þeirra. Til þess að unnt sé að hafa eftirlit verður að vera eftirlitsstofnun. Það hefur hins vegar verið ljóst um nokkuð langa hríð að þessi þróun er komin á endastöð og að lengra verði ekki gengið. Allt of mörg dæmi eru um skörun milli stofnana, tvíverknað og jafnvel árekstra.

Það má segja að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sé í miðju eftirlitsstarfseminnar. Heilbrigðisnefndirnar eru sjálfstæðar og heyra ekki undir neina eina yfirstjórn. Þær fara með eftirlit í umboði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um hollustuhætti og mengunarvarnir og í umboði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um matvæli og framleiðslu þeirra. Heilbrigðiseftirlitið annast annars vegar verkefni í umboði ríkisins (starfsleyfi og eftirlit) og hins vegar almenna þjónustu við sveitarfélög (hundar, kettir, hirðusemi ofl.). Ætla má að um 75% af starfsemi heilbrigðiseftirlitsins sé tengd eftirliti með atvinnurekstri en um 25% sé þjónusta við sveitarfélögin. Í heild eru áætluð gjöld heilbrigðiseftirlitsins um 700 mkr á ári. Heilbrigðiseftirlitið hefur einnig beint eftirlit með fjölbreyttri starfsemi sveitarfélaga s.s. fráveitum, vatnsveitum, skólum og mötuneytum og veitir þeim starfsleyfi. Þannig eru sveitarfélögin í þeirri stöðu að veita eigin starfsemi starfsleyfi og hafa síðan eftirlit með henni. Það skipulag er óviðunandi og stangast á við allar góðar stjórnsýsluvenjur. Því miður eru einnig til dæmi um að heilbrigðisnefnd sé notuð til að ná fram pólitískum markmiðum með því að veita ekki tiltekin starfsleyfi eða gera kröfur til starfsemi sem ekki eiga sér stað í lögum sem heilbrigðiseftirlitið á að fara eftir. Einnig hefur margoft verið bent á að efnislegum kröfum sé misjafnlega framfylgt eftir umdæmum sem getur brenglað samkeppnisstöðu fyrirtækja og gert að verkum að kröfur eru misjafnar eftir því undir hvaða umdæmi starfsemin heyrir. Til þess að unnt verði að ná árangri við einföldun og hagræðingu í eftirlitsstarfseminni verður að stokka heilbrigðiseftirlitið upp.

Sú leið sem líklegust er til að skila árangri við að draga úr kostnaði atvinnulífsins, auka hagræðingu og getur einnig lækkað framlög til stofnana á fjárlögum er að sameina eins stóran hluta af eftirlitsstarfseminni og frekast er unnt í eina eftirlitsstofnun. Þar færi fram eftirlit sem nú heyrir undir mörg ráðuneyti og í fæstum tilvikum þyrfti önnur leyfi til reksturs en þau sem stofnunin veitir. Unnt yrði að nálgast allar almennar upplýsingar um skilyrði til atvinnurekstrar á einum og sama stað.

Grunnur að nýrri stofnun fengist með því að sameina núverandi umdæmi heilbrigðiseftirlits í eitt og skilja frá henni almenna þjónustu við sveitarfélögin. Stofnunin tæki síðan við eftirlitsstarfsemi Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Þær yrðu hreinar stjórnsýslustofnanir sem sinna undirbúningi nýrra reglna, stefnumótun og öðrum verkefnum sem þeim eru falin auk þess að fylgjast með gæðum eftirlitsins. Með þessu væri haldið í styrkleika núverandi kerfis sem felst í starfsstöðvum um allt land, möguleikar á starfsþróun myndu aukast og þjónusta yrði í aðalatriðum veitt í heimabyggð. Lögð yrði áhersla á að allt eftirlit yrði áhættumiðað, rafræn samskipti aukin, úrtaksskoðunum beitt og í stað víðtækrar starfsleyfisskyldu yrði í flestum tilvikum nægjanlegt að tilkynna nýja starfsemi til stofnunarinnar sem yrði þá um leið yfirlýsing um að viðkomandi hefðu kynnt sér kröfur til starfseminnar og uppfyllti þær.

Hið nýja heilbrigðiseftirlit myndi einnig annast töluverðan hluta af eftirlitsverkefnum sem nú er sinnt af Fiskistofu, Vinnueftirliti ríkisins, Neytendastofu og fleiri aðilum. Einnig getur það tekið yfir allt markaðseftirlit frá ofangreindum stofnunum og Mannvirkjastofnun svo fleiri dæmi séu nefnd. Unnt er að færa eftirlit með vinnuvélum, lyftum og ýmsum tæknibúnaði til faggiltra skoðunarstofa sem annast þegar verkefni undir umsjón Samgöngustofu eins og bifreiðaskoðanir og eftirlit með búnaði skipa.

Það er rétt að taka fram að ekki er verið að kalla eftir því að dregið verði úr efnislegum kröfum til fyrirtækjanna heldur að beitt verði nútímalegum aðferðum við eftirlitið, dregið úr skörun og reynt að gæta ýtrustu hagkvæmni. Það eru atvinnurekendurnir sjálfir sem bera ábyrgð á sínum rekstri, framleiðslu sinni og þjónustu. Það eru þeir sem verða fyrir tjóni ef eitthvað bregður út af í rekstrinum og það er þeirra hagur að starfa í samræmi við lög og reglur. Það er hins vegar mikill misskilningur að opinbert eftirlit, sama hve umfangsmikið það er, geti komið í veg fyrir alla ágalla í búnaði, vöru eða þjónustu. Þar ráða fyrirtækin og viðskiptavinir þeirra mestu.

Áður en starfsemi fyrirtækja getur hafist þarf að sækja um ótal mörg leyfi og reglurnar sem uppfylla þarf eru fleiri en komið verði á tölu. Lög um skeldýrarækt lýsa vandanum ágætlega. Samkvæmt lögunum þarf eftirlit þriggja aðila Fiskistofu, Landhelgisgæslu og Matvælastofnunar með starfseminni. Tilraunaleyfi eru veitt til að hámarki 6 ára og um þau fjalla Fiskistofa, viðkomandi sveitarstjórn, Matvælastofnun, Landhelgisgæslan, byggingarfulltrúi, Hafrannsóknarstofnun, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Svo þarf að sækja um ræktunarleyfi að loknu tilraunatímabili og þá þurfa sömu aðilar að fjalla um málið að nýju. Ekki má gleyma að þessi starfsemi þarf einnig starfsleyfi Umhverfisstofnunar eða heilbrigðiseftirlits eftir því hve umfangsmikil starfsemin verður og þaðan fara umsóknir einnig til umsagnar fjölmargra aðila. Að sjálfsögðu er allur kostnaður innheimtur hjá umsækjanda. Hvenær sem er má afturkalla leyfin af ýmsum ástæðum. Það er miklu nær að kalla þetta lög um bann við skeldýrarækt og erfitt að sjá fyrir sér að lögin hvetji til fjárfestinga á þessu sviði.

Annað dæmi sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er einföldun leyfisveitinga til fiskeldis og eftirlit með því. Þar rísa eftirlitsstofnanir upp og finna málinu allt til foráttu. Í einni umsögn um frumvarpið segir:

„Tillaga frumvarpsins um einn móttökustað fyrir umsóknir um leyfi er áhugaverð að mati Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun vill þó benda á að eftir að umsókn hefur verið send inn þá er hún ekki gild fyrr en stofnunin hefur farið yfir hana og samþykkt. Í greinargerð er tiltekið að starfsleyfisumsækjandi þurfi einungis að hafa samskipti við eina stofnun. Umhverfisstofnun telur ekki raunhæft að öll samskipti fari í gegnum einn aðila...".

Svo segir: „Hvað varðar setningu lögbundins afgreiðslutíma sbr. 3. gr. frumvarps vegna útgáfu starfsleyfa fyrir fiskeldi vill stofnunin benda á að skapast getur ójafnræði við það að settur er lögbundinn afgreiðslutími, en ekki fyrir aðra starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umhverfisstofnun hefur þegar sett sér málshraðaviðmið vegna vinnslu starfsleyfa sem er 180 dagar."

Og að lokum segir Umhverfisstofnun „...í dag hefur stofnunin ekki náð markmiði sínu hvað varðar málshraða en þróunin upp á síðkastið er jákvæð."

Hvað þýðir þetta? Af því að við getum ekki hraðað afgreiðslu starfsleyfa fyrir eina atvinnugrein þá er verið að mismuna öðrum. Þessi langi afgreiðslutími vekur einnig athygli. Það er ekki eins og stofnunin sé að drukkna í starfleyfisumsóknum sem voru samtals 29 á þriggja ára tímabilinu 2011 - 2013. Á sama hátt leggst stofnunin gegn því að eftirlitsheimsóknirnar verði framvegis á vegum Matvælastofnunar eftir sameiginlegum gátlistum sem þó er sambærilegt og nú á við um heilbrigðiseftirlitið. Rökstuðningurinn vísar til meintra umhverfishagsmuna sem engin leið er að sjá að verði verr fyrir komið en áður. Stofnunin missir að vísu þann spón úr sínum aski að geta sent mörg hundruð þúsund króna eftirlitsreikninga til fyrirtækja sem ekki hafa hafið starfsemi.

Af umsögn Umhverfisstofnunar má ráða að hér á landi sé búið að koma upp hinu fullkomna eftirlitskerfi sem engin leið sé til að hrófla við. Ég leyfi mér samt að skora á stofnunina að endurskoða afstöðu sína til þessa máls og hjálpa til við einföldun leyfisveitinga og eftirlits með fiskeldi.

Umhverfisstofnun hefur verið að endurskoða starfsleyfi fiskimjölsverksmiðja hér á landi. Eins og kunnugt er þá vinna þessi fyrirtæki mjöl og lýsi úr fiski og aukaafurðum eða afskurði frá fiskvinnslunni. Umhverfisstofnun hefur hins vegar ákveðið taka fram í starfsleyfunum að fyrirtækjunum sé „heimilt að framleiða fiskimjöl og lýsi úr fiski, afskurði og öðrum fiskúrgangi sem ætlaður er til endurvinnslu í verksmiðjunni". En á undanförnum áratugum hefur átt sér stað mikil viðhorfsbreyting í sjávarútvegi. Litið er á allan afla sem hráefni til vinnslu og markmiðið hefur smám saman orðið að nýta allt til framleiðslu eins mikilla gæðaafurða og frekast er unnt. Þetta á við um fyrirtæki sem þurrka fiskhausa til manneldis sem ekki geta talist úrgangsfyrirtæki, þau sem þurrka roð í tískuvörur ekki heldur og alls ekki þau sem vinna lyf og lækningavörur úr fiskinnyflum. Viðhorf stofnunarinnar til vinnslu sjávarafurða eins og það birtist í mjög háfleygu lögfræðiáliti er í besta falli eins og aftur úr steinöld og nauðsynlegt að stofnunin endurskoði einnig afstöðu sína til þessa máls og viðurkenni að fiskimjölsverksmiðjurnar séu ekki úrgangs- og endurvinnslufyrirtæki heldur framleiði þau fóður- og manneldisvörur og nýti til þess besta fáanlega hráefni.

Umhverfisstofnun verður að líta á sig þjónustustofnun sem flækir ekki að óþörfu leyfisveitingar og eftirlit með atvinnufyrirtækjunum.

Það blasir við að hátt flækjustig regluverksins dregur úr vexti fyrirtækja og heldur aftur af stofnun nýrra. Þess vegna er svo brýnt að minnka flækjustig og kostnað fyrirtækja við að fylgja reglum.

Íslenskt samfélag þarf á því að halda að sem flestir vilji stofna fyrirtæki og að gata þeirra sé greið. Fólk þarf að geta hafið rekstur og tekið áhættu með uppbyggingu nýrrar starfsemi. Það eru hagsmunir allra. Þannig þróast samfélagið áfram, ný verðmæti verða til, störf skapast. Lífskjörin batna."