Efnahagsmál - 

05. október 2006

Einelti gegn atvinnulífi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Einelti gegn atvinnulífi

Þær umræður um stóriðju og virkjanir sem nú eru fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum minna um margt á einelti. Þetta er reyndar ekkert nýtt því að umræður um atvinnumál á Íslandi hafa í gegnum tíðina iðulega verið þessu sama marki brenndar. Eineltið byggir á því að setja fram hvers kyns fordóma og jafnvel hreina vitleysu um málin og vekja upp neikvæðar tilfinningar, í þessu tilfelli í garð stóriðju og raforkuframleiðslu, sem hafa það að markmiði að gera lítið úr starfseminni og þeim sem að henni koma með einhverjum hætti.

Þær umræður um stóriðju og virkjanir sem nú eru fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum minna um margt á einelti. Þetta er reyndar ekkert nýtt því að umræður um atvinnumál á Íslandi hafa í gegnum tíðina iðulega verið þessu sama marki brenndar. Eineltið byggir á því að setja fram hvers kyns fordóma og jafnvel hreina vitleysu um málin og vekja upp neikvæðar tilfinningar, í þessu tilfelli í garð stóriðju og raforkuframleiðslu, sem hafa það að markmiði að gera lítið úr starfseminni og þeim sem að henni koma með einhverjum hætti.

Heildsalar voru taldir svindlarar og okrarar

Eineltisaðferðin á sér langa sögu. Sé bara farið ekki nema 50 - 60 ár aftur í tímann var verslunin og þá sérstaklega heildsalar álitnir í opinberri umræðu vera hinir verstu skúrkar og afætur á þjóðfélaginu. Heildsalar voru taldir hagnast ótæpilega á því að sóa dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar í óþarfa innflutning sem jafnvel spillti siðferði þjóðarinnar og gömlum gildum. Ef heildsalar voru ekki upp til hópa taldir svindlarar og lögbrjótar, þá voru þeir alla vega okrarar sem lögðu byrðar á alþýðu manna.

Síðar var tekinn snúningur á landbúnaðinum þar sem bændur voru úthrópaðir sem afætur á þjóðfélaginu, fólk sem lifði bara á styrkjum og ræktaði ekkert nema sauðfé sem rótnagaði allt land, hvort heldur það voru heimahagar eða afréttir.

Stóriðjan fékk svo sína fyrstu gusu þegar álverið í Straumsvík var byggt á sínum tíma. Þá var heldur betur reynt að hræða íbúa höfuðborgarsvæðisins á því að álverið mengaði óhóflega og væri hættulegt sem vinnustaður. Fyrir utan þá þjóðhættulegu stefnu sem fólst í því að leyfa erlendum aðilum að eiga fyrirtækið.

Þá kom röðin að Flugleiðum þegar hver sjálfskipaði sérfræðingurinn eftir annan þóttist vita miklu betur en stjórnendur fyrirtækisins hvernig ætti að reka það. Alið var á mikilli tortryggni í garð fyrirtækisins og helst af öllu átti að koma því í hendur ríkisins.

Kvótakerfið talið mikið óréttlæti

Sjávarútvegurinn var svo næstur. Þegar kvótakerfið var tekið upp var stíft alið á því að þar væri mikið óréttlæti á ferðinni. Eigendur sjávarútvegsfyrirtækja áttu að hafa sölsað undir sig þjóðareignina og voru taldir maka krókinn á kostnað þjóðarinnar. Hernaðurinn á hendur sjávarútveginum hefur reyndar staðið linnulítið nánast fram á þennan dag.

Einkavæðingin og þau fyrirtæki sem færð voru frá ríkinu til einkaaðila hafa svo fengið sinn kafla í eineltissögunni. Mikið var gert úr því að verið væri að færa tilteknum aðilum fyrirtækin á silfurfati og að ríkið væri að afsala sér feykilegum gróðamöguleikum með því að selja þau til einkaaðila.

Verslunin, sérstaklega stórmarkaðirnir, hefur svo aftur orðið að skotspæni og nú fyrir að fákeppni sé svo mikil að bæði neytendur og birgjar beri verulega skarðan hlut frá borði. Samt er markaðurinn galopinn og fjölmargir sterkir aðilar sem t.d. hafa dregið sig út úr verslun á síðustu árum geta auðveldlega komið aftur inn á markaðinn ef þeir kjósa svo.

Skrautlegt einelti í garð stóriðju

Síðasta eineltishreyfingin beinist svo núna gegn stóriðjunni og hún er með skrautlegasta móti. Sjaldan hafa tillögur gengið jafn langt og nú um að byggja stíflu til þess að horfa á hana og ráða fólk til ekki vinnu í álveri sem ekki er búið að klára. Þetta er reyndar mjög sérstök stífla því að fyrst átti hún að vera svo mögnuð að lónið fyrir ofan hana átti að fylllast af leir á skömmum tíma en svo átti hún að vera svo veik að hún allavega læki ef ekki brysti. Reyndar er það spurning, fyrst stíflur eru svona hagkvæmar án þess að vera notaðar hvort eigi ekki að velja sérstaklega eina fallega á og byggja þar stíflu án virkjunar til þess að ferðamenn geti fengið notið hennar um ókomna framtíð.

Það er svo umhugsunarefni í ljósi allrar þessarar eineltisumræðu um atvinnumál á Íslandi hvernig staðan væri ef eineltið hefði fengið að ráða og ekki hefði verið staðið gegn því. Hvernig væri staðan ef tillögur um ríkisverslun með brýnustu lífsnauðsynjar í stað innflutnings á vegum heildsalanna hefðu náð fram að ganga? Hvernig væri staðan ef andstæðingar álversins í Straumsvík hefðu ráðið? Hvernig væri staðan ef andstaðan gegn bændum hefði fengið að leggja landbúnaðinn í rúst? Hvernig væri staðan ef ríkið hefði sett Flugleiðir á hausinn og farið að reka flugfélag? Hvernig væri staðan ef ekki hefðu náðst tök á stjórn fiskveiða með kvótakerfinu? Hvernig væri staðan ef engin ríkisfyrirtæki hefðu verið einkavædd? Hvernig væri staðan ef ekki hefði mátt þróa stórmarkaði? Hvernig væri staðan ef lokað væri fyrir frekari nýtingu á orkulindum landsins?

Værum ekki á lista yfir þjóðir með best lífskjör

Það liggur alla vega fyrir Ísland væri ekki á lista yfir þær þjóðir sem búa við hvað best lífskjör og samkeppnishæfni ef eineltishreyfingin hefði fengið að ráða.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins