Eftirlitssamfélagið

Á Íslandi er aragrúi stofnana sem annast opinbert eftirlit með fólki og fyrirtækjum, allt frá eftirliti með nýtingu náttúruauðlinda til tollamála eða matvælaframleiðslu.

Í ljósi nýlegra tillagna um uppsetningu myndavéla í fiskiskipum og við bryggjur, auk fjarstýrðra loftfara, er vert að staldra við og meta á hvaða vegferð við erum. Í hvernig samfélagi viljum við búa?

Öll viljum við að okkur sé treyst til að fara eftir lögum og reglum. Það sama gildir um fyrirtækin í landinu. Eftirlitsstofnanir mega ekki ganga út frá því að lögbrot séu eðlilegur þáttur í starfi vinnandi fólks og rekstri fyrirtækja. Þeir aðilar sem leita að vandamálum hafa nefnilega tilhneigingu til að sjá aðallega vandamál. Eftirlitsmenningin hefur litast svolítið af tortryggni en ætti miklu frekar að einkennast af trausti og gagnkvæmri virðingu fyrirtækja og stofnana.

Vandamálin eru margvísleg en stöðlun á framkvæmd eftirlits gæti verið ein lausnin. Draga þarf úr matskenndum þáttum og gæta þess að niðurstöður eftirlitsstofnana séu ekki dregnar af geðþóttaákvörðunum heldur fyrirfram skilgreindum matsþáttum.

Heildstæð skoðun
Það eru ýmsir gallar á eftirlitskerfum hins opinbera og margt sem hægt er að laga og gera skilvirkara. Opinbert eftirlit tekur, eða ætti að taka, breytingum eins og annað með framþróun á ýmsum sviðum og breyttum viðhorfum. Í því samhengi væri skynsamlegt að greina og ná utan um umfang opinbers eftirlits með kerfisbundnum hætti og endurmeta reglur sem í gildi eru. Meta þarf hvort tilteknar reglur eigi ennþá við og þjóni eðlilegum markmiðum og nái þeim markmiðum.

Að auki þarf að vera á varðbergi við innleiðingu nýrra reglna, sérstaklega alþjóðlegra, að þær flæki reglurammann ekki um of, þannig að erfitt sé fyrir fyrirtæki að framfylgja þeim. Heildstætt mat ætti að fara fram á fyrirliggjandi umgjörð, þ.e. að gömlum reglum sé skipt út fyrir nýjar í stað þess að stöðugt sé bætt við. Þetta á sérstaklega við þegar reglur Evrópska efnahagssvæðisins eru innleiddar. Of oft er þeim einfaldlega bætt ofan á séríslenskar reglur sem voru til staðar um sama efni.

Hægt væri að einfalda opinbert eftirlit með því að notast við úrtakseftirlit í stað reglulegs eftirlits. Eftirlit væri þá ekki framkvæmt hjá öllum heldur þeim sem sértök ástæða er til að hafa eftirlit með ásamt þeim sem væru valdir með tilviljanakenndum hætti. Einnig gæti þróun í átt að eigin eftirliti og upplýsingagjöf um framkvæmd þess af hálfu hins eftirlitsskylda með viðurlögum, ef misræmi er milli upplýsingagjafar og framkvæmdar, verið góður kostur. Sú nálgun kæmi þá víðar í stað handvirks eftirlits, og myndi spara bæði fyrirtækjum og stjórnvöldum talsverða fjármuni og dýrmætan tíma.

Samþætting og fjareftirlit
Kerfið ætti að vera hannað miðað við þarfir notenda þess en ekki kerfisins. Leggja ætti áherslu á samþættingu eftirlitsins, þ.e. allt sé á einum stað í stað þess að þurfa að eiga við marga ólíka aðila hins opinbera. Til að mynda sæi einn eftirlitsaðili um að framkvæma frumeftirlit og gera það sem felst í því, t.d. taka sýni. Þá væri einungis eftirfylgni sérhæfðari sérfræðinga ef ástæða þætti til.

Í samhengi við þetta mætti beita rafrænum lausnum. Einhvers konar fjareftirliti sem væri á þá leið að fyrirtæki sendu inn upplýsingar, myndir af frágangi eða önnur gögn sem henta til þess.

Aðgerðir tímabærar
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Sambærilegar yfirlýsingar hefur verið að finna í stjórnarsáttmálum fyrri ríkisstjórna án þess að mikið hafi gerst. Árangur á þessu sviði mun aðeins nást með góðu samstarfi stjórnmála, embættismanna og atvinnulífs.


Til umhugsunar eru reglulegar greinar á vef SA um brýn samfélagsmál