Efla þarf tiltrú á krónuna

Í fréttum ríkisútvarpsins í dag sagði Finnur Geirsson, formaður SA, atvinnurekendur deila áhyggjum af verðlagsþróuninni með viðsemjendum sínum. "Aðal ástæðan virðist vera gengislækkun krónunnar. Ég held að það sem að þurfi að gera [sé] fyrst og fremst að efla tiltrú á gengi krónunnar," sagði Finnur. Hann sagði mikilvægt að stjórnvöld næðu að hemja útgjaldaaukningu og sýna aðhald í rekstri, og að afgreiðsla fjárlaga yrði með þeim hætti. "Síðan má segja að það að samningarnir haldi myndi sömuleiðis auka tiltrú á gengið og þannig til lengri tíma litið treysta kaupmátt launa," sagði Finnur. Hann taldi ekki tímabært að ræða hvaða leiðir kynnu að vera færar til þess að halda samningum þótt verðbólgumarkmiðið næðust ekki. Aðspurður sagðist hann telja að það væri af hinu góða að stjórnvöld, atvinnurekendur og ASÍ settust niður og ræddu þessi mál.