Efla þarf samkeppnishæfni Evrópu
Fulltrúar Evrópusamtaka atvinnulífsins (UNICE) funduðu í gær með Jose Maria Aznar, forsætisráðherra Spánar sem nú fer með formennsku í ráðherraráði ESB, í aðdraganda leiðtogafundar sambandsins í Barcelona. Meginskilaboð UNICE voru þau að nýta yrði leiðtogafundinn til þess að hleypa lífi í vinnu aðildarríkjanna að þeim markmiðum sem kennd hafa verið við Lissabon, t.d. á sviði rannsókna og þróunar, innviða samfélagsins og sveigjanleika á vinnumarkaði. Á leiðtogafundi í Lissabon fyrir tveimur árum settu aðildarríkin sér það almenna markmið að gera ESB að samkeppnishæfasta hagkerfi veraldar fyrir árið 2010, m.a. með áherslu á þekkingarþjóðfélagið.
Skýrsla með tillögum til úrbóta
Á fundinum lýstu fulltrúar UNICE áhyggjum af
samkeppnisstöðu álfunnar. Þeir bentu m.a. á að með sama hagvexti og
í Bandaríkjunum undanfarin tíu ár væri samanlögð þjóðarframleiðsla
ESB-ríkjanna nú 17% hærri en raun ber vitni. Georges Jacobs,
forseti UNICE, sagði atvinnulífið hafa tekið fagnandi þeim
markmiðum sem kennd væru við Lissabon, en jafnframt orðið fyrir
miklum vonbrigðum með aðgerðaleysi stjórnvalda í aðildarríkjunum
til að ná þessum markmiðum. UNICE hafa gefið út sérstaka skýrslu
þar sem fjallað er um fimmtán skuldbindingar Lissabon-fundarins,
farið yfir hvernig staða þeirra er í dag og lagðar fram tillögur
til úrbóta, og var Aznar afhent eintak af skýrslunni á fundinum með
fulltrúum UNICE.