Efnahagsmál - 

06. Febrúar 2020

Ef ég væri hann

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ef ég væri hann

Í miðri aðlögun upplifa flestar atvinnugreinar hægari vöxt, jafnvel samdrátt. Það ásamt hækkandi launakostnaði og háum sköttum þrengir að rekstri fyrirtækja nú um stundir og dregur úr samkeppnishæfni þeirra. Fjárfesting, nýsköpun og verðmætasköpun verður minni en ella. Fyrirtæki bregðast við með hagræðingu og fækkun starfa. Atvinnuleysi eykst.

Í miðri aðlögun upplifa flestar atvinnugreinar hægari vöxt, jafnvel samdrátt. Það ásamt hækkandi launakostnaði og háum sköttum þrengir að rekstri fyrirtækja nú um stundir og dregur úr samkeppnishæfni þeirra. Fjárfesting, nýsköpun og verðmætasköpun verður minni en ella. Fyrirtæki bregðast við með hagræðingu og fækkun starfa. Atvinnuleysi eykst.

Umskiptin í efnahagslífinu endurspeglast einnig í þróun útlána til fyrirtækja. Ný útlán drógust saman um helming milli ára í fyrra eða um 100 milljarða króna. Það munar um minna. Viðsnúningur sem þessi skýrist ekki eingöngu af efnahagslægðinni sem gengur yfir landið heldur hefur aðgengi fyrirtækja að lánsfé þrengst verulega í bankakerfinu sem bitnar mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það blasir við að lítið verður um fjárfestingar í atvinnulífinu við slíkar aðstæður.

Fjármálaráðherra boðar aukið fjármagn til innviðafjárfestinga sem er skynsöm ráðstöfun í efnahagslægðinni. Áfram verður hins vegar 65 milljarða króna uppsöfnuð viðhaldsþörf til vegasamgangna svo dæmi séu tekin. Áhersla á niðurgreiðslu opinberra skulda hefur reynst mikilvæg forgangsröðun en nú þegar skuldahlutfall ríkissjóðs er undir skuldaviðmiði og vextir erlendis eru í sögulegu lágmarki, væri kjörið að ráðast í frekari innviðafjárfestingar með skuldsetningu. Draga inn nýtt erlent fjármagn, vinna hraðar upp fjárfestingaþörfina, þjóna þörfum atvinnulífs og almennings og styrkja stoðir hagvaxtar til framtíðar.

Fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að bankaskatturinn rýri söluverðmæti ríkisbankanna og nauðsyn þess að afnema hann að fullu. Það væri mikið hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki enda eru það þau sem greiða bankaskattinn í formi hærri vaxta. Tryggingagjald þarf að lækka hraðar og meira, enda skattur sem leggst á launagreiðslur og hamlar fjölgun starfa. Atvinnulífið þarf á súrefni að halda. Ef efnahagslægðin á ekki að verða enn dýpri og enn lengri myndi ég nýta tækifærið, ef ég væri fjármálaráðherra. Nú er rétti tíminn.

Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Grein birtist í Viðskiptablaðinu, 30. janúar 2020.

 

Samtök atvinnulífsins