Efnahagsmál - 

06. Maí 2004

Dýrar kvaðir á apótekum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Dýrar kvaðir á apótekum

Vegna umræðunnar um hátt lyfjaverð á Íslandi er fróðlegt að skoða ýmsar ákvarðanir yfirvalda sem eru íþyngjandi fyrir rekstur apóteka. Ákvarðanir þessar eru beinlínis til þess fallnar að hækka verðlag á lyfjum til neytenda. Dæmi um slíkar ákvarðanir eru:

Vegna umræðunnar um hátt lyfjaverð á Íslandi er fróðlegt að skoða ýmsar ákvarðanir yfirvalda sem eru íþyngjandi fyrir rekstur apóteka. Ákvarðanir þessar eru beinlínis til þess fallnar að hækka verðlag á lyfjum til neytenda. Dæmi um slíkar ákvarðanir eru:

1.   Apótek (lyfjabúðir) skulu alltaf mönnuð tveimur lyfjafræðingum og aðeins lyfjafræðingur hefur heimild til að afgreiða lyf. Víðast hvar erlendis eru þessar kröfur ekki svona miklar. Í Danmörku má lyfjatæknir til dæmis afgreiða lyf. Lyfjafræðingar eru með fimm ára háskólapróf en lyfjatæknar með þriggja ára sérnám í framhaldsskóla.

2.  Mjög íþyngjandi reglur gilda um aðgengi og aðbúnað starfsmanna. Í reglugerð nr. 426/1997 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir er kveðið á um að starfsmenn apóteka megi ekki samnýta starfsmannainngang né búnings-, salernis- og kaffiaðstöðu. Því þarf í öllum tilvikum að útbúa séraðstöðu fyrir starfsmenn apótekanna með tilheyrandi kostnaði þrátt fyrir að hugsanlega sé fullboðleg aðstaða til staðar sem starfsmenn annarra fyrirtækja nýta.

Óþarfa kostnaður sem neytendur bera

Þetta kemur fram í skýrslunni Eftirlit með atvinnustarfsemi - tillögur til úrbóta, sem Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Þarna eru á ferðinni dæmi um hvernig ónauðsynleg reglubyrði veldur ónauðsynlegum kostnaði, sem neytandinn ber að sjálfsögðu á endanum. Varðandi rekstrarumhverfi lyfjabúða er einnig á það bent að sú ákvörðun yfirvalda að reka svokölluð sjúkrahúsapótek og að selja s-lyf, þ.e. lyf sem eingöngu fást á sjúkrahúsapótekum, er til þess fallin að rýra tekjumöguleika einkarekinna apóteka og þar með draga úr hagræðingar-möguleikum þeirra.  Undanfarin ár hafa yfirvöld fjölgað þeim lyfjum sem skilgreind eru sem s-lyf þrátt fyrir óskir um hið gagnstæða frá lyfjasmásölunum.

Sjá skýrslu SA, Eftirlit með atvinnustarfsemi - tillögur til úrbóta.

Samtök atvinnulífsins