Samkeppnishæfni - 

19. september 2006

Dönsk sveitarfélög geta sparað milljarða með auknum útboðum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Dönsk sveitarfélög geta sparað milljarða með auknum útboðum

Forsvarsmenn danskra sveitarfélaga hafa að undanförnu gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að þeim sé skapaður þröngur fjárhagsrammi og takist því ekki að ná jafnvægi í fjárhagsáætlunum fyrir næsta ár. Nýir útreikningar dönsku samtaka iðnaðarins (DI) sýna á hinn bóginn að sveitarfélögin þurfa ekki nauðsynlega að skera niður þjónustu til þess að geta náð jöfnuði í fjárhag sínum á næstu árum. Með því einu að auka útboð á verkefnum til einkaaðila gætu sveitarfélög lækkað verulega útgjöld og brúað bilið í fjárhag sínum. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis svarað gagnrýninni með því að benda á að sveitarfélög geti bætt árangur með auknum útboðum.

Forsvarsmenn danskra sveitarfélaga hafa að undanförnu gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að þeim sé skapaður þröngur fjárhagsrammi og takist því ekki að ná jafnvægi í fjárhagsáætlunum fyrir næsta ár. Nýir útreikningar dönsku samtaka iðnaðarins (DI) sýna á hinn bóginn að sveitarfélögin þurfa ekki nauðsynlega að skera niður þjónustu til þess að geta náð jöfnuði í fjárhag sínum á næstu árum. Með því einu að auka útboð á verkefnum til einkaaðila gætu sveitarfélög lækkað verulega útgjöld og brúað bilið í fjárhag sínum. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis svarað gagnrýninni með því að benda á að sveitarfélög geti bætt árangur með auknum útboðum.

Náið er fylgst með þróun opinberra útboða í Danmörku og birtir danska hagstofan árlega tölur um verkefni sveitarfélaga sem boðin eru út sem hlutfall af heildarútgjöldum. Allt frá árinu 2000 hefur útboðshlutfall sveitarfélaganna í heild lítið breyst og oftast verið um 11,9% af útgjöldum. Mikill munur er þó á þessu hlutfalli eftir sveitarfélögum. Í þeim fimm sveitarfélögum sem mest buðu út árið 2005 var hlutfallið 25,7%, en hjá þeim fimm sem minnst buðu út var hlutfallið 8,1%.

DI hefur á grundvelli opinberra gagna reiknað út hve mikið mætti spara í útgjöldum sveitarfélaga með því að þau sveitarfélög sem eru með útboðshlutfall undir meðaltali auki útboð og hækki sig upp í meðaltalið. Niðurstaðan er sú að miðað við árið 2005 gætu sveitarfélögin með þessu móti sparað hátt í 2 milljarða danskra króna (23,9 milljarða ísl. króna).

Sjá umfjöllun í blaði DI, Business.

Samtök atvinnulífsins