Efnahagsmál - 

22. ágúst 2005

Danir leita fyrirmynda í íslensku viðskiptalífi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Danir leita fyrirmynda í íslensku viðskiptalífi

Aðalfundur Samtaka iðnaðarins í Danmörku fer fram í Bella Center í Kaupmannahöfn þann 29. september næstkomandi. Á fundinum munu þátttakendur leita svara við því hvernig danskt þjóðfélag geti komist í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi. Til að sækja sér innblástur verður m.a. horft til þriggja landssvæða sem hafa náð framúrskarandi árangri í efnahagsmálum, Írlands, Massachusetts í Bandaríkjunum, og Íslands. Af þessum svæðum vilja Danir læra og ná sambærilegum árangri.

Aðalfundur Samtaka iðnaðarins í Danmörku fer fram í Bella Center í Kaupmannahöfn þann 29. september næstkomandi. Á fundinum munu þátttakendur leita svara við því hvernig danskt þjóðfélag geti komist í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi. Til að sækja sér innblástur verður m.a. horft til þriggja landssvæða sem hafa náð framúrskarandi árangri í efnahagsmálum, Írlands, Massachusetts í Bandaríkjunum, og Íslands. Af þessum svæðum vilja Danir læra og ná sambærilegum árangri.

Uppskrift að velgengni

Yfir eitt þúsund þátttakendur munu fylgjast með því þegar Danir kryfja til mergjar góðan árangur Íslendinga á sviði efnahagsmála og viðskipta. Það sem Dönum þykir til fyrirmyndar hér á landi er sveigjanlegur og kraftmikill vinnumarkaður og þeir telja að Íslendingar hafi nýtt vel tækifæri sem hafi boðist í alþjóðlegum viðskiptum - það sé skýringin á því að íslenskt þjóðfélag hafi tekið stórstígum framförum á síðustu 10 árum. Í Massachusetts eru Danir að horfa til öflugs menntastarfs, en þar er m.a. að finna Harvard og M.I.T. Danir hafa af því nokkrar áhyggjur að sú kynslóð Dana sem nú er að vaxa úr grasi er ekki eins menntuð og sú sem á undan hefur gengið - færri Danir fara nú í háskólanám en áður og þessari þróun vilja Danir snúa við.

Botninn í umræðurnar verður síðan sleginn með umfjöllun um írska undrið, hvernig Írar snéru við blaðinu á fáum árum, nýttu sér tækifæri á alþjóðlegum mörkuðum til að styrkja þjóðfélagið heima fyrir, og sögðu skilið við fátækt og fábreytt atvinnulíf.

Samtök atvinnulífsins