13. janúar 2022

Daglegur launakostnaður atvinnulífsins um 100 milljónir vegna sóttvarnaraðgerða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Daglegur launakostnaður atvinnulífsins um 100 milljónir vegna sóttvarnaraðgerða

Íslensk fyrirtæki búa nú við minnstan opinberan stuðning hvað varðar greiðslu launakostnaðar vegna einangrunar í norrænum samanburði.

Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld um breytingar á reglum um sóttkví gagnvart einstaklingum sem eru þríbólusettir og einstaklingum sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru tvíbólusettir. Breytingarnar koma til móts við kröfur atvinnulífsins en rekstur margra fyrirtækja hefur raskast vegna fjölda starfsmanna í sóttkví eða einangrun. Fækkun starfsfólks í sóttkví skiptir atvinnulífið miklu en breytir ekki þeirri staðreynd að kostnaður atvinnulífsins á næstu mánuðum mun hlaupa á milljörðum króna vegna mikils fjölda starfsfólks sem sætir takmörkunum sóttvarnaryfirvalda sem hafa veruleg neikvæð áhrif á samfélagið allt.

Mat Samtaka atvinnulífsins er að kostnaður atvinnulífsins vegna launakostnaðar starfsfólks í sóttkví eða einangrun nemi ríflega 100 milljónum króna, dag hvern. Auk þess hafa fjölmörg fyrirtæki orðið fyrir miklu rekstrartapi vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda vegna skertrar starfsemi.

Ríkið kemur til móts við fyrirtæki er varðar greiðslu launa í sóttkví. Enginn stuðningur er þó veittur vegna einangrunar en staðreyndin er sú að mikill meirihluti einstaklinga í einangrun er ekki veikur. Þrátt fyrir þetta er sú ábyrgð lögð á atvinnurekendur að greiða laun eins og um veikindi væri að ræða.

Í Svíþjóð er lögbundinni sóttkví ekki beitt. Sænska ríkisstjórnin ákvað í ljósi Ómíkrón afbrigðisins að endurgreiða launagreiðendum greidd veikindalaun frá 1. desember 2021 eftir ákveðinni reiknireglu. Dönsk stjórnvöld fara sambærilega leið, beita sóttkví í takmörkuðum mæli og ríkið greiðir launafólki sjúkradagpeninga frá fyrsta veikindadegi með sambærilegum hætti og gert er í tilviki sóttkvíar á Íslandi. Norðmenn fara sambærilega leið og Íslendingar hvað varðar sóttkví en endurgreiða einnig atvinnurekendum hluta veikindalauna vegna einangrunar.

Ísland er þannig eftirbátur í samanburði við Norðurlöndin. Þau hafa flest horfið frá beitingu sóttkvíar og koma auk þess til móts við atvinnulífið með endurgreiðslu hluta launakostnaðar vegna Covid-einangrunar. Íslensk fyrirtæki búa nú við minnstan opinberan stuðning hvað varðar greiðslu launakostnaðar í norrænum samanburði vegna íþyngjandi áhrifa sóttvarnaraðgerða.

Reglur landanna má finna á eftirfarandi vefslóðum:
Danmörk hér og hér
Svíþjóð hér
Noregur hér

Samtök atvinnulífsins