1 MIN
Byrðar færðar á herðar yngri aldurshópa
Stjórnvöld áforma að hækka almennt frítekjumark ellilífeyris úr 36.500 krónum í 60.000 krónur á kjörtímabilinu, um 5.000 krónur 2026 og 2027 og um 13.500 krónur 2028. Frítekjumarkið má nota á móti öllum tegundum tekna, þ.m.t. lífeyrissjóðstekjum, atvinnutekjum eða fjármagnstekjum. Til viðbótar við þau áform stendur til að festa í sessi aldursviðbót öryrkja, þannig að ellilífeyrisþegar sem áður voru á örorku haldi rétti sínum til aldursviðbótarinnar. Leggja á niður stjórn Tryggingastofnunnar ásamt því að gera breytingar á hvernig miðlun og söfnun persónu- og tölfræðigagna fer fram.
Samtök atvinnulífsins hafa tekið til málið til umsagnar með eftirfarandi athugasemdum.
Almennar athugasemdir um frumvarpið
Stjórnir ríkisstofnana sem heyra beint undir ráðherra og hafa ekki neitt formlegt skipulagsvald eða umboð til stefnumótunnar eru óþarfar. Fagna samtökin því að stjórn Tryggingarstofnunnar verði aflögð. Samtökin fagna sömuleiðis að gögnum sé safnað með skipulagðari hætti en hvetja til aukins samráðs við hagaðila, þá sérstaklega VIRK þegar þessar hugmyndir eru unnar áfram.
Þá vilja Samtök atvinnulífsins gera athugasemdir við umfjöllun í samráðshluta frumvarpsins. Aðilar vinnumarkaðarins - Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, skiluðu umsögnum um málið á fyrri stigum þegar það birtist í samráðsgátt stjórnvalda 17. október síðastliðinn. Rétt er að benda á að umfjöllun um samráðið er ekki lýsandi fyrir þá málavinnslu sem átti sér stað.
Sjónarmið umsagnaraðila voru hvorki dregin fram né tekin til greina, og ekki er vísað til nokkurrar af þeim umsögnum sem bárust.
Ráðstöfunartekjur eldri borgara aukist mest frá aldamótum
Í frumvarpinu er lagt til að hækka almennt frítekjumark ellilífeyris og gert er ráð fyrir að sú breyting muni auka árlegan kostnað ríkissjóðs um 5,6 ma.kr. eftir að breytingin verður að fullu komin til framkvæmda. Í greinargerð frumvarpsins er hvergi að finna sérstakan rökstuðning fyrir nauðsyn aðgerðarinnar, sem verður almenn og gagnast þannig öllum þeim sem þiggja ellilífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu óháð tekjum. Ríkissjóður hefur verið rekinn með halla á undanförnum árum og útlit er fyrir að svo verði áfram. Aðgerðin krefst því aukinnar lántöku í hávaxtaumhverfi og kostnaður hennar lendir á þeim kynslóðum sem yngri eru.
Sé litið til ráðstöfunartekna mismunandi aldurshópa á Íslandi sést að þær hafa aukist mest hjá 67 ára og eldri, óháð því hvort litið sé til síðustu 5, 10 eða 25 ára. Jafnframt er lágtekjuhlutfall aldurshópsins 65+ ára talsvert lægra (4%) en fólks á aldrinum 30-44 ára (11%). Spyrja má hvort réttlætanlegt sé að leggja sérstaka áherslu á að auka ráðstöfunartekjur eldri aldurshópa, óháð efnahagslegri stöðu, á kostnað þeirra sem enn eru á vinnumarkaði og standa jafnvel í ströngu við að koma sér upp eigin húsnæði og fjölskyldu með talsverðum tilkostnaði.
Auk sértækra aðgerða stjórnvalda koma efnahagsaðstæður misjafnlega við kynslóðir. Til að mynda hefur hátt vaxtastig síður áhrif á eldri kynslóðir og jafnvel jákvæð áhrif þar sem eldra fólk er líklegra til að eiga sparnað sem nýtur hárra vaxta. Hluti áhrifa hárra vaxta koma fram í auknum ráðstöfunartekjum þar sem fjármagnstekjur eru hæstar hjá elsta aldurshópnum. Þau áhrif sem birtast ekki með beinum hætti eru lægri kostnaður, þ.e. lægra hlutfall ráðstöfunartekna sem er varið í vaxtakostnað. Eldri kynslóðir skulda að jafnaði talsvert minna en þær yngri og margir eru jafnvel alveg skuldlausir. Efnahagsástandið á Íslandi um þessar mundir bitnar því hvað síst á ellilífeyrisþegum og hvað mest á yngstu kynslóðunum, sérstaklega þeim sem eru að taka sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði eða þeim sem ekki hafa komist inn á húsnæðismarkað.
Aðstæður eldri borgara eru mismunandi
Tekjusögunni er ætlað að aðstoða stjórnvöld við að leggja mat á áhrif breytinga skatta og bóta á lífskjör einstakra hópa. Á vef Tekjusögunnar sést að talsverð dreifing er á tekjum eldri borgara. Ráðstöfunartekjur allra tekjutíunda hafa þó aukist töluvert frá fjármálahruni og hlutfallslega mest hjá tekjulægstu hópunum eins og fram hefur komið í greiningum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í greinargerð væri tilefni til að skoða hvernig þær almennu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa áhrif á allar tekjutíundir og mætti nýta til þess tól eins og tekjusöguna sem komið var á fót m.a. í þeim tilgangi. Samtökin ítreka áherslu sína að fremur ætti að beita sértækum úrræðum en almennum, sér í lagi þar sem eldri borgarar hafa hækkað hvað mest í ráðstöfunartekjum undanfarin ár. Ríkissjóður er enn rekinn með halla og er því enn verið að leggja þyngri byrðar á herðar yngri kynslóðum til að auka við ráðstöfunartekjur hóps sem þegar hefur notið aukningar umfram aðra hópa á umliðum árum.
Mun þessi breyting frítekjumarks leggjast ofan á fyrirætlanir stjórnvalda um að ellilífeyrir og aðrar bætur almannatrygginga hækki með sama hætti og launavísitala, en þó aldrei minna en vísitala neysluverðs. Ljóst er að með því fyrirkomulagi munu ráðstöfunartekjur bótaþega og ellilífeyrisþega aukast enn frekar miðað við aðra líkt og rakið var í fyrri umsögn SA.
Áætlaður kostnaður hærri en í fjármálaáætlun
Heildarumfang fyrirhugaðra breytinga er metið á um 5,9 milljarða króna. Áætlaður kostnaður sem af frumvarpinu hlýst er 900 milljónir króna umfram það sem ráðgert er í fjármálaáætlun, eykur þannig halla og lántöku ríkissjóðs enn frekar og stuðlar að aukinni neyslu. Slíkt veldur verðbólguþrýstingi og vinnur gegn lægri vöxtum, sem raunar bitnar minnst á þeim hóp sem frumvarpið nær til.
Með þeim rökum sem hér að ofan eru útlistuð leggjast samtökin gegn frumvarpinu og hvetja stjórnvöld frekar til sértækari aðgerða sem styðja við þá sem standa höllum fæti, en ekki almennar og kostnaðarsamar aðgerðir líkt og áformað er að ráðast í.