Efnahagsmál - 

29. september 2006

Búlgarar og Rúmenar fái fullan aðgang að íslenskum vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Búlgarar og Rúmenar fái fullan aðgang að íslenskum vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins sjá enga ástæðu til þess að takmarka aðgang rúmenskra og búlgarskra ríkisborgara að íslenskum vinnumarkaði í kjölfar þess að umrædd ríki gerast aðilar að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu um næstu áramót. Þvert á móti ber okkur að taka vel á móti þessum nýju aðildarríkjum EES með öllum þeim réttindum og skyldum sem aðild hefur í för með sér. Þenslan á íslenskum vinnumarkaði er líklega sú mesta í allri álfunni og greiður aðgangur erlends starfsfólks hefur verið grundvallarforsenda þess hagvaxtar og þeirra lífskjarabóta sem Íslendingar hafa notið undanfarin ár. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ragnars Árnasonar, forstöðumanns vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, á ráðstefnu EES vinnumiðlunar um íslenskan vinnumarkað í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins á Hótel Sögu.

Samtök atvinnulífsins sjá enga ástæðu til þess að takmarka aðgang rúmenskra og búlgarskra ríkisborgara að íslenskum vinnumarkaði í kjölfar þess að umrædd ríki gerast aðilar að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu um næstu áramót. Þvert á móti ber okkur að taka vel á móti þessum nýju aðildarríkjum EES með öllum þeim réttindum og skyldum sem aðild hefur í för með sér. Þenslan á íslenskum vinnumarkaði er líklega sú mesta í allri álfunni og greiður aðgangur erlends starfsfólks hefur verið grundvallarforsenda þess hagvaxtar og þeirra lífskjarabóta sem Íslendingar hafa notið undanfarin ár. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ragnars Árnasonar, forstöðumanns vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, á ráðstefnu EES vinnumiðlunar um íslenskan vinnumarkað í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins á Hótel Sögu.

Í erindi sínu fjallaði Ragnar meðal annars um þá löngu leið sem fara þurfti til þess að ráða starfsfólk frá nýjum aðildarríkjum ESB fyrstu misserin eftir stækkun sambandsins í maí 2004, en á þeim tíma tók það um þrjá til fimm mánuði að afla nauðsynlegra dvalar- og atvinnuleyfa fyrir umrætt starfsfólk. Á sama tíma var mikil þensla á íslenskum vinnumarkaði og fyrir vikið tóku að blómstra hér starfsmannaleigur sem áður voru lítt þekkt fyrirbæri á íslenskum vinnumarkaði. Ragnar sagði oft hafa vaknað rökstuddar grunsemdir þess efnis að starfsfólk á vegum starfsmannaleiganna nyti ekki kjara til samræmis við ákvæði íslenskra kjarasamninga og sagði slíka stöðu ólíðandi. Sagði Ragnar SA telja beinar ráðningar æskilegasta formið en sagði samtökin jafnframt telja starfsmannaleigur eiga fullan rétt á sér. Hann sagði samtökin beina því til aðildarfyrirtækja sinna að eiga einungis viðskipti við þær starfsmannaleigur sem virða sannarlega lög og kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.

Ragnar rifjaði upp baráttu Samtaka atvinnulífsins fyrir greiðari leiðum til beinna ráðninga á starfsfólki frá þessum löndum en í september 2005 var afgreiðslutími umræddra stofnana á dvalar- og atvinnuleyfum styttur til muna. Mestu skiptir þó að sú niðurstaða náðist hér á landi að framlengja ekki takmarkanir á aðgang nýrra ESB-borgara að íslenskum vinnumarkaði í maí 2006.

Sveigjanlegur vinnumarkaður

Þá fjallaði Rangar m.a. um hinn dýrmæta sveigjanleika sem ríkt hefur á íslenskum vinnumarkaði með tilheyrandi lágu atvinnuleysi og lagði mikla áherslu á að standa bæri vörð um þennan sveigjanleika. Hann sagði frjálsa för mjög mikilvæga fyrir íslenskan vinnumarkað en lagði jafnframt áherslu á að leita þyrfti leiða til að tryggja betur stöðu erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði og vísaði til sameiginlegra tillagna SA og ASÍ í þeim efnum.

Sjá erindi Ragnars (á ensku, pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins