1 MIN
Búið í haginn fyrir framtíðina
Að mati Morgunblaðsins er ekki óvarlegt að áætla að viðbótarlífeyrissparnaður landsmanna hafi numið í kringum 12 milljörðum króna á síðasta ári. Talan er áætluð út frá skattframtölum vegna ársins 2001, launaveltunni í landinu og almennri þátttöku fólks í viðbótarlífeyrissparnaði, en samkvæmt athugun Samtaka atvinnulífsins eru nær þrír fjórðu hlutar launafólks þátttakendur í viðbótarlífeyrissparnaði.
Að mati Morgunblaðsins er ekki óvarlegt að áætla að viðbótarlífeyrissparnaður landsmanna hafi numið í kringum 12 milljörðum króna á síðasta ári. Talan er áætluð út frá skattframtölum vegna ársins 2001, launaveltunni í landinu og almennri þátttöku fólks í viðbótarlífeyrissparnaði, en samkvæmt athugun Samtaka atvinnulífsins eru nær þrír fjórðu hlutar launafólks þátttakendur í viðbótarlífeyrissparnaði.
Búa í haginn fyrir framtíðina
Í samtali við blaðið segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, engan vafa á því að þessi sparnaður hafi átt stóran þátt í því að draga úr þeirri ofþenslu sem hafði myndast hér í efnahagslífinu og snúa þjóðarbúskapnum af braut viðskiptahalla og erlendrar skuldasöfnunar, sem hélt hér uppi óraunhæfu neyslustigi. Í staðinn séu menn að búa í haginn fyrir framtíðina.
Hannes segir þennan sparnað hafa valdið auknu framboði á lánsfjármarkaði og þannig stuðlað að betra jafnvægi þar og lægri vöxtum en ella, sem hafi bæði komið atvinnulífinu og heimilunum í landinu til góða. Hann bætir því við aðspurður að það sé ljóst að í framtíðinni verði þessi sparnaður mikilvægur þáttur í því að tryggja að nægilegt innlent lánsfjármagn verði fyrir hendi.
Hannes bendir á að neysluhneigðin hér á landi hafi verið mjög mikil og meiri en í öðrum löndum og þjóðhagslegur sparnaður lítill. Það hafi gert það að verkum að það hafi verið nánast undantekning að það væri afgangur af viðskiptum við útlönd. "Þessi sparnaður virðist vera afgerandi þáttur í að snúa okkur af þeirri braut. Það er að draga hér úr neyslu án þess að kaupmáttur sé að dragast saman og það er nokkuð fágætt að það gerist," segir Hannes.
Hann segir að orðið hafi mun hraðari viðbrögð við viðbótarlífeyrissparnaðinum en reiknað hafi verið með. Sparnaðurinn sé líka miklu jafnari eftir tekjuhópum, en fyrirfram hafi verið reiknað með því að sparnaðarhneigðin væri meiri á meðal þeirra sem hefðu hærri tekjurnar.