Efnahagsmál - 

28. Maí 2013

Brýnt að endurskoða veiðigjöldin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Brýnt að endurskoða veiðigjöldin

Samtök atvinnulífsins taka undir með nýrri ríkisstjórn um að tryggja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Veiðigjöldin munu að óbreyttu kippa rekstrargrundvelli undan fjölmörgum fyrirtækjum, stórum sem smáum, um land allt. Hætta er á að störfum og fyrirtækjum fækki, samþjöppun í greininni aukist og áhrif á einstök byggðarlög verði mikil.

Samtök atvinnulífsins taka undir með nýrri ríkisstjórn um að tryggja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Veiðigjöldin munu að óbreyttu kippa rekstrargrundvelli undan fjölmörgum fyrirtækjum, stórum sem smáum, um land allt. Hætta er á að störfum og fyrirtækjum fækki, samþjöppun í greininni aukist og áhrif á einstök byggðarlög verði mikil.

Íslenskur sjávarútvegur krefst þess ekki að veiðigjöld verði afnumin. En gjöldin miðast ekki við afkomu einstakra fyrirtækja og eru hvorki sanngjörn né réttlát. Eitt brýnasta verkefni sem bíður nýkjörins þings er því að endurskoða lögin um veiðigjöld áður en nýtt fiskveiðiár gengur í garð þann 1. september nk.

SA taka undir með ríkisstjórninni um mikilvægi þess að skapa sátt um framtíðarskipulag greinarinnar og að unnið verði með tillögu svokallaðrar sáttanefndar um samningsbundna nýtingu framseljanlegra aflaheimilda til langs tíma með rétti til endurnýjunar. Þannig er unnt að tryggja festu, stöðugleika og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi útvegsins. Það skapar svo grundvöll að fjárfestingum, nýsköpun og markaðssókn sem sárlega hefur skort að undanförnu.

Íslenskir útvegsmenn hafa  unnið að  sjálfbærri nýtingu sjávarauðlindarinnar sem tryggi afkomu atvinnugreinarinnar til langs tíma. Sjálfbærnin hefur lagt grunn að traustri ímynd íslensks sjávarfangs um hreinleika, gæði og áreiðanleika á alþjóðamarkaði.

Samtök atvinnulífsins og félagsmenn þeirra eru reiðubúin að vinna með stjórnvöldum að skipulagi sjávarútvegsmála til að greinin geti haldið sinni stöðu sem umhverfisvænsti, arðbærasti og best rekni sjávarútvegur í heimi. Þannig skila fyrirtækin samfélaginu mestum tekjum í formi skatta, launagreiðslna og annarra gjalda. 

Samtök atvinnulífsins