Efnahagsmál - 

05. september 2002

Brýnt að endurskoða samkeppnislög

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Brýnt að endurskoða samkeppnislög

Eins og fram kemur í þessu fréttabréfi hafa Danir hert ýmis ákvæði samkeppnislaga sinna. Þessar breytingar hafa vakið andstöðu í dönsku atvinnulífi sem vonlegt er. En þrátt fyrir þessar breytingar virðast dönsku samkeppnislögin vera að ýmsu leyti vægari en hin íslensku.

Eins og fram kemur í þessu fréttabréfi hafa Danir hert ýmis ákvæði samkeppnislaga sinna. Þessar breytingar hafa vakið andstöðu í dönsku atvinnulífi sem vonlegt er. En þrátt fyrir þessar breytingar virðast dönsku samkeppnislögin vera að ýmsu leyti vægari en hin íslensku.

Gegn misnotkun

Samtök atvinnulífsins hafa margsinnis bent á ýmislegt sem betur má fara en nú er í íslenskum samkeppnislögum og starfsreglum Samkeppnisstofnunar. Meginhlutverk löggjafar og opinberrar starfsemi á þessu sviði á að beinast gegn mismunun, t.d. vegna opinberrar íhlutunar og styrkja og gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það á ekki að vera hlutverk opinberrar stofnunar að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla þar gegn hagræðingu og aukinni framleiðni. Frá síðustu endurskoðun laganna hafa ennfremur komið í ljós verulegir ágallar á réttarfari samkeppnismála hérlendis, sem ekki var fjallað um sérstaklega þá. Það eitt og sér gerir það mjög brýnt að lögin verði endurskoðuð. 

Tillögur SA

Fyrir skömmu gáfu SA út sérstaka skýrslu, " Samkeppnishæf samkeppnislög", þar sem íslensku samkeppnislögin eru borin saman við Evrópurétt og samsvarandi löggjöf á öðrum Norðurlöndum og tillögur gerðar til úrbóta. Meðal tillagna SA eru að:

  • Samkeppnisráð verði lagt niður, jafnræði eflt og andmælaréttur tryggður.

  • Miklu skýrari ákvæði verði sett, en nú eru, um húsleit og haldlagningu gagna í fyrirtækjum.

  • Ákvæði um afskipti stjórnvalda af samruna fyrirtækja verði annað hvort felld niður eða þeim breytt til samræmis við stærð íslenskra fyrirtækja og aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap.

  • Lítt skilgreindar heimildir samkeppnisyfirvalda verði skýrðar þannig að ekki sé um óljós lagaboð að ræða.

  • Mögulegt verði að fá bindandi álit Samkeppnisstofnunar fyrirfram í fyllsta trúnaði.

  • Sektarheimildir verði færðar til fyrra horfs, og sett ákvæði um fyrningarfrest brota.

  • Hækkuð verði viðmiðunarmörk svonefndrar minniháttarreglu vegna samráða fyrirtækja, til samræmis við innlendar aðstæður.

Brýnt að endurskoða samkeppnislögin

Það er mjög brýnt og tímabært að samkeppnislögin og starfsreglur á þessu sviði verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Það er brýnt hagsmunamál fyrir allt atvinnulífið og almenning að ekki séu settar hindranir í veg framfara og samkeppnishæfni, en núgildandi lög draga úr kraftinum í íslensku athafnalífi í harðri alþjóðlegri samkeppni. Breytingarnar í Danmörku eru verðug áminning um mikilvægi breytinga hér.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins