Efnahagsmál - 

05. júní 2008

Brýn verkefni ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Brýn verkefni ríkisstjórnarinnar

Fyrir skömmu fagnaði ríkisstjórnin ársafmæli sínu. Óhætt er að segja að á þessum stutta tíma hafi orðið mikil umskipti í íslensku atvinnulífi og ríkisstjórnin þurfi að gíma við annars konar viðfangsefni en voru séð fyrir þegar hún lagði upp í vegferð sína. Ríkisstjórnin hefur margt gert vel og annað er ógert eða gengur hægar en hremmingarnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa mjög mótað þróun atvinnulífs og efnahagsmála síðustu mánuðina.

Fyrir skömmu fagnaði ríkisstjórnin ársafmæli sínu. Óhætt er að segja að á þessum stutta tíma hafi orðið mikil umskipti í íslensku atvinnulífi og ríkisstjórnin þurfi að gíma við annars konar viðfangsefni en voru séð fyrir þegar hún lagði upp í vegferð sína. Ríkisstjórnin hefur margt gert vel og annað er ógert eða gengur hægar en hremmingarnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa mjög mótað þróun atvinnulífs og efnahagsmála síðustu mánuðina.

Ríkisstjórnin á hrós skilið fyrir nýgerðar breytingar á tekjuskatti fyrirtækja en við þær lækkar skatthlutfall í tekjuskatti úr 18% í 15%. Þetta hefur verið baráttumál Samtaka atvinnulífsins og þessi lækkun mun skila sér til allra með betri stöðu fyrirtækja og auknum skatttekjum til ríkissjóðs. Ennfremur verður söluhagnaður hlutabréfa ekki skattlagður hjá fyrirtækjum sem þýðir að skattlagning atvinnurekstrar verður mun hlutlausari gagnvart innra skipulagi atvinnulífsins í eitt eða fleiri félög t.d. eignarhaldsfélög, móðurfélög og dótturfélög. Það er ekki lengur nauðsynlegt að fara þá hjáleið að stofna sérstök félög erlendis og flytja eignarhaldið þangað. Þá var því breytt að gengishagnaður og gengistap kemur til tekna eða gjalda á þremur árum í stað líðandi árs. Eftir er að reyna á hvaða afleiðingar þessi regla mun hafa en hún er í raun tilraun til að komast hjá því að tap sé almennt yfirfæranlegt bæði fram í tímann og aftur í tímann eins og tíðkast víða og SA lagði til.

Ríkisstjórnin hefur líka haft mikinn vilja til að vinna að stöðugleika á vinnumarkaðnum og aðkoma hennar að kjarasamningum SA og ASÍ hinn 17. febrúar var mjög mikilvæg og stuðlaði að farsælli niðurstöðu. Auk breytinga á skattamálum einstaklinga og bótum almannatrygginga var afar mikilvægt að ríkisstjórnin ákvað að standa að uppbyggingu Endurhæfingarsjóðs með SA og ASÍ. Kjarasamningarnir sem ríkið náði við BSRB hafa í för með sér nokkuð meiri kostnaðarhækkanir en atvinnulífið ræður við. Mikilvægt er að kostnaðarhækkanir í samningum þeirra hópa sem ósamið er við bæti ekki enn við vandann í þessum efnum. Það verður að hafa í huga að ríkissjóður mun ekki búa við áframhaldandi góðæri frekar en aðrir og skatttekjurnar rýrna eins og allt annað þegar illa gengur.

Íslendingar hafa orðið fyrir miklum skelli vegna þróunar mála á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, bæði atvinnulífið og heimilin í landinu. Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar núna er að gera það sem í hennar valdi stendur til þess að íslensku bankarnir fái eðlilegan aðgang að erlendu lánsfé. Núverandi staða er algjörlega óviðunandi og bitnar harkalega á viðskiptavinum bankanna. Það er mikill misskilningur að aðgerðir til þess að bankarnir geti lánað með venjulegum hætti á nýjan leik séu sérstaklega til þess að bjarga bönkunum. Slíkar aðgerðir eru fyrst og fremst til að bjarga viðskiptavinum bankanna sem mæta nú allt öðrum og verri rekstraraðstæðum en áður. Hver vikan sem líður við núverandi ástand er afar dýr fyrir atvinnulífið og hvert fyrirtækið af öðru er þessa dagana að taka ákvarðanir um samdrátt í rekstri og uppsagnir. Þegar uppsagnir koma til framkvæmda og sumarfrí liðin má reikna með afar dapri stöðu á vinnumarkaðnum.

Þá þarf líka að huga að fasteignamarkaðnum. SA gagnrýndu mjög framgang síðustu ríkisstjórnar í málefnum Íbúðalánasjóðs og afleiðingar þeirra aðgerða fyrir þróun markaðarins sem einkenndist af of miklum verðhækkunum og of mikill framleiðslu. Nú þegar verðhækkanir á fasteignum eru að ganga til baka er mikilvægt að það gerist hægt og leiði ekki til óþarflega mikils fjárhagstjóns hjá almenningi eða byggingaraðilum. Einsýnt er að Íbúðalánasjóður verður að koma að þessu máli enda er hann ennþá stærsti aðilinn á þessum markaði. Ágreiningur um stöðu hans til framtíðar má ekki þvælast fyrir að hann nýtist til þess að draga úr tjóni sem annars gæti orðið afar þungbært fyrir marga. Nokkrar hugmyndir hafa verið í gangi um aðkomu sjóðsins en áríðandi er að taka sem fyrst ákvarðanir í málinu.

Önnur mikilvæg verkefni hjá ríkisstjórninni á næstunni felast í að greiða fyrir framgangi ýmissa fjárfestinga í atvinnulífinu sem verið hafa í undirbúningi. Það hefur verið alltof mikið um fréttir af töfum eða óvæntum hindrunum í vegi ýmissa mikilvægra fjárfestingarverkefna. Í þessu sambandi má nefna Bitruvirkjun sem var algjörlega að óþörfu slegin af með hamingjuóskum frá borgarstjóra - vegna þess miljarðs í töpuðum undirbúningskostnaði sem viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur fá nú í hausinn með reikningunum sínum.  Þá virðast rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár allt í einu mæta andstöðu þrátt fyrir að um þær hafi áratugum saman verið prýðileg sátt. Fréttir berast af vandræðum vegna lagningar háspennulínu til Suðurnesja sem sett gætu strik í reikninginn vegna framkvæmdanna í Helguvík. Vatnsátöppunarverksmiðja í Ölfusinu þarf allt í einu að fara í umhverfismat og þannig má lengi telja. Ríkisstjórnin þarf að taka á þessum málum og tryggja áframhaldandi uppbyggingu í atvinnulífinu og hagkvæma nýtingu orkuauðlinda. Það er mjög mikilvægt til lengri tíma en eins er nauðsynlegt á erfiðleikatímum að kveikja ljós vonar um betri tíma.

Samtök atvinnulífsins vona að ríkisstjórnin nái árangri í verkum sínum. Allir eiga mikið undir því að henni takist vel til.  

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins